Fljótsdæla saga - 1. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Þorgerður hét kona. Hún bjó í Fljótsdal austur. Hún var ekkja af hinum bestum ættum og hafði þá fé lítið. Þar bjó hún sem nú heitir á Þorgerðarstöðum. Frændur Þóris vildu að hann staðfesti ráð sitt og fengi sér forystu og fýstu að hann bæði Þorgerðar, sögðu forgang góðan í því ráði. Þórir fékk þessarar konu og skyldi boð vera að Hrafnkelsstöðum á mánaðar fresti. Var Ásbirni boðið til boðs.

Glúmur hét maður er bjó í Fljótsdal fyrir vestan þar sem nú heitir á Glúmsstöðum. Þuríður hét kona hans og var Hámundardóttir, kynjuð sunnan úr Þjórsárdal. Þau áttu sér eina dóttir þá er Oddbjörg hét. Þær mæðgur fóru í fjós einn morgun snemma. Nautamaður var í fjósi en Glúmur lá í rekkju sinni. En þá er þær komu heim að bænum var hlaupin skriða á bæinn og þar Glúmur inni orðinn og allur lýður sá er á bænum var nema þessir þrír menn. Eftir þessi tíðindi lætur Þuríður færa bæinn yfir ána, hóti ofar en áður var. Hún bjó þar lengi. Sá bær heitir nú síðan á Þuríðarstöðum. Þessi tíðindi spurðust í Hrafnkelsdal. Þuríður var hin vitrasta kona og skörungur mikill. Fæddi hún upp meyna með mikilli virkt. Var hún og allra kvenna vænst og best mennt.

Og er Ásbirni komu orð bróður síns, hann tekur því vel og býður að sér vinum sínum, ríður vestan yfir heiði og kemur á Þuríðarstaði þess erindis að hann biður Oddbjargar sér til eiginkonu og það var ráðið, fór við það ofan til boðsins að hann flutti þetta brúðarefni með sér. Sjá veisla fór vel fram og var all fjölmenn. Eftir boðið ríður Ásbjörn vestur yfir heiði með konu sína heim á Aðalból. Voru góðar samfarir þeirra.

Þau Þórir og Þorgerður voru ásamt til þess að þau gátu son og dóttir. Hét hann Hrafnkell en hún Eyvör. Hún var gefin Hákoni á Hákonarstöðum er nam Jökulsdal. En þau Ásbjörn og Oddbjörg áttu fjórar dætur og komust öngvar úr barnæsku. En síðast áttu þau son er Helgi hét. Hann óx upp með föður sínum og var hinn efnilegasti maður. Þeir frændur uxu upp þar í héraðinu jafnsnemma og var þeirra fjögurra vetra munur.

Þeir bræður sátu langa hríð í ríki sínu og var gott samþykki þeirra meðan þeir lifðu báðir og varð Þórir sóttdauður. En eftir hann tók fé og mannaforráð kona hans og Hrafnkell son hans, þó að hann væri ungur að aldri, með umsjá Ásbjarnar. Helgi óx upp á Aðalbóli með föður sínum. Hafði hann alla hluti til þess að hann þótti betur menntur en aðrir menn bæði að yfirlitum og skapsmunum.

Oddur hét maður. Hann hafði þar land numið. Bæði var hann blindur og gamall í þann tíð. Hann átti son einn er Ölviður hét. Hann tók fjárforráð eftir föður sinn. Ölviður var mikill maður vexti, allra manna málgastur, ósvinnur og óvinsæll, heimskur og illgjarn, og í öllu ójafnaðarmaður. Hann var aðdráttarmaður mikill að búinu bæði af fjörðum neðan og af fjöllum ofan.
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fljótsdæla saga - 1. kafli: 492 orð
Tími : 2 mínútur

Fljótsdæla saga: 27.273 orð
Tími eftir: 110 mínútur
Leturstærð
Hér er lýsing á kortinu...