Fóstbræðra saga - 1. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Á dögum hins helga Ólafs konungs voru margir höfðingjar undir hans konungdæmi, eigi aðeins í Noregi heldur í öllum löndum, þeim er hans konungdómur stóð yfir, og voru þeir allir mest virðir af guði er konungi líkaði best við.

Í þann tíma var höfðingi ágætur á Íslandi í Ísafirði er Vermundur hét. Hann var Þorgrímsson, bróðir Víga-Styrs. Vermundur hafði bústað í Vatnsfirði. Hann var vitur og vinsæll. Hann átti konu þá Þorbjörg hét. Hún var kölluð Þorbjörg digra, dóttir Ólafs pá. Hún var vitur kona og stórlynd. Jafnan er Vermundur var eigi heima þá réð hún fyrir héraði og fyrir mönnum og þótti hverjum manni sínu máli vel komið er hún réð fyrir.

Það barst að einhverju sinni þá er Vermundur var eigi heima að Grettir Ásmundarson kom í Ísafjörð þá er hann var sekur, og þar sem hann kom hafði hann það nær af hverjum er hann kallaði. Og þó að hann kallaði það gefið eða þeir er laust létu féið þá voru þær gjafir þann veg að margir menn mundu sitt fé eigi laust láta fyrir honum ef þeim sýndist eigi tröll fyrir dyrum. Því söfnuðu bændur sér liði og tóku Gretti höndum og dæmdu hann til dráps og reistu honum gálga og ætluðu að hengja hann. Og er Þorbjörg veit þessa fyrirætlan fór hún með húskarla sína til þess mannfundar er Grettir var dæmdur. Og þar kom hún að sem gálginn var reistur og snaran þar við fest og Grettir þegar til leiddur og stóð það eitt fyrir lífláti hans er menn sáu för Þorbjargar. Og er hún kom til mannfundar þess þá spyr hún hvað menn ætluðust þar fyrir. Þeir sögðu sína fyrirætlan.

Hún segir: "Óráðlegt sýnist mér það að þér drepið hann því að hann er ættstór maður og mikils verður fyrir afls sakir og margrar atgervi þó að hann sé eigi gæfumaður í öllum hlutum og mun frændum hans þykja skaði um hann þótt hann sé við marga menn ódæll."

Þeir segja: "Ólífismaður sýnist oss hann vera því að hann er skógarmaður og sannur ránsmaður."

Þorbjörg mælti: "Eigi mun hann nú að sinni af lífi tekinn ef eg má ráða."

Þeir segja: "Hafa muntu ríki til þess að hann sé eigi af lífi tekinn hvort sem það er rétt eða rangt."

Þá lét Þorbjörg leysa Gretti og gaf honum líf og bað hann fara þangað sem hann vildi. Af þessum atburð kvað Grettir kviðling þenna:

Mundi eg sjálfr
í snöru egnda
helsti brátt
höfði stinga
ef Þorbjörg
þessu skáldi,
hún er allsnotr,
eigi byrgi.

Í þessum atburði má hér sýnast hversu mikill skörungur hún var.
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fóstbræðra saga - 1. kafli: 431 orð
Tími : 2 mínútur

Fóstbræðra saga: 32.966 orð
Tími eftir: 132 mínútur
Leturstærð
Hér er lýsing á kortinu...