Eyrbyggja saga

1. kafli

Ketill flatnefur hét einn ágætur hersir í Noregi. Hann var sonur Bjarnar bunu Grímssonar hersis úr Sogni. Ketill var kvongaður. Hann átti Yngveldi, dóttur Ketils veðurs hersis af Raumaríki. Björn og Helgi hétu synir þeirra en dætur þeirra voru þær Auður hin djúpúðga, Þórunn hyrna og Jórunn mannvitsbrekka.

Björn sonur Ketils var fóstraður austur á Jamtalandi með jarli þeim er Kjallakur hét, vitur maður og ágætur. Jarlinn átti son er Björn hét en Gjaflaug hét dóttir hans.

Þetta var í þann tíma er Haraldur konungur hinn hárfagri gekk til ríkis í Noregi. Fyrir þeim ófriði flýðu margir göfgir menn óðul sín af Noregi, sumir austur um Kjölu, sumir um haf vestur. Þeir voru sumir er héldu sig á vetrum í Suðureyjum eða Orkneyjum en um sumrum herjuðu þeir í Noreg og gerðu mikinn skaða í ríki Haralds konungs. Bændur kærðu þetta fyrir konungi og báðu hann frelsa sig af þessum ófriði.

Þá gerði Haraldur konungur það ráð að hann lét búa her vestur um haf og kvað Ketil flatnef skyldu höfðingja vera yfir þeim her. Ketill taldist undan en konungur kvað hann fara skyldu. Og er Ketill sá að konungur vill ráða réðst hann til ferðarinnar og hafði með sér konu sína og börn, þau sem þar voru.

En er Ketill kom vestur um haf átti hann þar nokkurar orustur og hafði jafnan sigur. Hann lagði undir sig Suðureyjar og gerðist höfðingi yfir. Sættist hann þá við hina stærstu höfðingja fyrir vestan haf og batt við þá tengdir en sendi austur aftur herinn.

Og er þeir komu á fund Haralds konungs sögðu þeir að Ketill flatnefur var höfðingi í Suðureyjum en eigi sögðust þeir vita að hann drægi Haraldi konungi ríki fyrir vestan haf. En er konungur spyr þetta þá tekur hann undir sig eignir þær er Ketill átti í Noregi.

Ketill flatnefur gifti Auði dóttur sína Ólafi hvíta er þá var mestur herkonungur fyrir vestan haf. Hann var sonur Ingjalds Helgasonar en móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar.

Þórunni hyrnu gifti hann Helga hinum margra, syni Eyvindar austmanns og Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.
Hér er lýsing á kortinu...