Eyrbyggja saga

2. kafli

Björn, sonur Ketils flatnefs, var á Jamtalandi þar til er Kjallakur jarl andaðist. Hann fékk Gjaflaugar, dóttur jarls, og fór síðan austan um Kjöl, fyrst til Þrándheims og síðan suður um land og tók undir sig eignir þær er faðir hans hafði átt, rak í braut ármenn þá er Haraldur konungur hafði yfir sett.

Haraldur konungur var þá í Víkinni er hann spurði þetta og fór þá hið efra norður til Þrándheims. Og er hann kom í Þrándheim stefndi hann átta fylkja þing og á því þingi gerði hann Björn Ketilsson útlaga af Noregi, gerði hann dræpan og tiltækjan hvar sem hann væri fundinn.

Eftir þetta sendi hann Hauk hábrók og aðra kappa sína að drepa hann ef þeir fyndu hann. En er þeir komu suður um Staði urðu vinir Bjarnar við varir ferð þeirra og gerðu honum njósn.

Björn hljóp þá á skútu eina er hann átti með skuldalið sitt og lausafé og fór undan suður með landi því að þá var vetrarmegn og treystist hann eigi á haf að halda. Björn fór þar til er hann kom í ey þá er Mostur heitir og liggur fyrir Sunnhörðalandi og þar tók við honum sá maður er Hrólfur hét Örnólfssonur fiskreka. Þar var Björn um veturinn á laun.

Konungsmenn hurfu aftur þá er þeir höfðu skipað eignir Bjarnar og setta menn yfir.
Hér er lýsing á kortinu...