Gísla saga Súrssonar

1. kafli

Það er upphaf á sögu þessari að Hákon konungur Aðalsteinsfóstri réð fyrir Noregi og var þetta á ofanverðum hans dögum. Þorkell hét maður; hann var kallaður skerauki; hann bjó í Súrnadal og var hersir að nafnbót. Hann átti sér konu er Ísgerður hét og sonu þrjá barna; hét einn Ari, annar Gísli, þriðji Þorbjörn, hann var þeirra yngstur, og uxu allir upp heima þar.

Maður er nefndur Ísi; hann bjó í firði er Fibuli heitir á Norðmæri; kona hans hét Ingigerður en Ingibjörg dóttir. Ari, sonur Þorkels Sýrdæls, biður hennar og var hún honum gefin með miklu fé. Kolur hét þræll er í brott fór með henni.

Maður hét Björn hinn blakki og var berserkur; hann fór um land og skoraði á menn til hólmgöngu ef eigi vildu hans vilja gera. Hann kom um veturinn til Þorkels Sýrdæls; Ari, sonur hans, réð þá fyrir búi. Björn gerir Ara tvo kosti, hvort hann vill heldur berjast við hann í hólmi þeim er þar liggur í Súrnadal og heitir Stokkahólmur eða vill hann selja honum í hendur konu sína. Hann kaus skjótt að hann vill heldur berjast en hvorttveggja yrði að skömm, hann og kona hans; skyldi þessi fundur vera á þriggja nátta fresti.

Nú líður til hólmstefnu framan. Þá berjast þeir og lýkur svo að Ari fellur og lætur líf sitt. Þykist Björn hafa vegið til landa og konu. Gísli segir að hann vill heldur láta líf sitt en þetta gangi fram, vill hann ganga á hólm við Björn.

Þá tók Ingibjörg til orða: "Eigi var eg af því Ara gift að eg vildi þig eigi heldur átt hafa. Kolur, þræll minn, á sverð er Grásíða heitir og skaltu biðja að hann ljái þér því að það fylgir því sverði að sá skal sigur hafa er það hefur til orustu."

Hann biður þrælinn sverðsins og þótti þrælnum mikið fyrir að ljá.

Gísli bjóst til hólmgöngu og berjast þeir og lýkur svo að Björn fellur. Gísli þóttist nú hafa unnið mikinn sigur og það er sagt að hann biður Ingibjargar og vildi eigi láta góða konu úr ætt ganga og fær hennar. Nú tekur hann allan fjárhlut og gerist mikill maður fyrir sér. Því næst andast faðir hans og tekur Gísli allan fjárhlut eftir hann. Hann lét drepa þá alla sem með Birni höfðu fylgt.

Þrællinn heimti sverð sitt og vill Gísli eigi laust láta og býður hann fé fyrir. En þrællinn vill ekki annað en sverð sitt og fær ekki að heldur. Þetta líkar þrælnum illa og veitir Gísla tilræði; var það mikið sár. Gísli heggur í móti með Grásíðu í höfuð þrælnum svo fast að sverðið brotnaði en hausinn lamdist og fær hvortveggji bana.
Hér er lýsing á kortinu...