Gunnlaugs Saga Ormstungu

2. kafli

Eitt sumar er það sagt að skip kom af hafi í Gufárós. Bergfinnur er nefndur stýrimaður fyrir skipinu, norrænn að ætt, auðigur að fé og heldur við aldur. Hann var vitur maður.

Þorsteinn bóndi reið til skips og réð jafnan mestu hver kaupstefna var og svo var enn. Austmenn vistuðust en Þorsteinn tók við stýrimanninum fyrir því að hann beiddist þangað. Bergfinnur var fátalaður of veturinn en Þorsteinn veitti honum vel. Austmaðurinn henti mikið gaman að draumum.

Um vorið einn dag ræddi Þorsteinn um við Bergfinn ef hann vildi ríða með honum upp undir Valfell. Þar var þá þingstöð þeirra Borgfirðinga en Þorsteini var sagt að fallnir væru búðarveggir hans. Austmaðurinn kveðst það víst vilja og riðu þeir heiman of daginn þrír saman og húskarl Þorsteins þar til er þeir koma upp undir Valfell til bæjar þess er að Grenjum heitir. Þar bjó einn maður félítill er Atli hét. Hann var landseti Þorsteins og beiddi Þorsteinn Atla að hann færi til starfs með þeim og hefði pál og reku. Hann gerði svo.

Og er þeir koma til búðartóftanna þá tóku þeir til starfs allir og færðu út veggina. Veðrið var heitt af sólu. Og er þeir höfðu út fært veggina þá settist Þorsteinn niður og Austmaður í búðartóftina og sofnaði Þorsteinn og lét illa í svefni. Austmaður sat hjá honum og lét hann njóta draums síns. Og er hann vaknaði var honum erfitt orðið.

Austmaður spurði hvað hann hefði dreymt er hann lét svo illa í svefni.

Þorsteinn svaraði: "Ekki er mark að draumum."

Og er þeir riðu heim um kveldið þá spyr Austmaður hvað Þorstein hefði dreymt.

Þorsteinn svarar: "Ef eg segi þér drauminn þá skaltu ráða hann sem hann er til."

Austmaður kveðst á það hætta mundu.

Þorsteinn mælti þá: "Það dreymdi mig að eg þóttist heima vera að Borg og úti fyrir karldyrum og sá eg upp á húsin og á mæninum álft eina væna og fagra og þóttist eg eiga og þótti mér allgóð. Þá sá eg fljúga ofan frá fjöllunum örn mikinn. Hann fló hingað og settist hjá álftinni og klakaði við hana blíðlega og hún þótti mér það vel þekkjast. Þá sá eg að örninn var svarteygur og járnklær voru á honum. Vasklegur sýndist mér hann. Því næst sá eg fljúga annan fugl af suðurátt. Sá fló hingað til Borgar og settist á húsin hjá álftinni og vildi þýðast hana. Það var og örn mikill. Brátt þótti mér sá örninn er fyrir var ýfast mjög er hinn kom til og þeir börðust snarplega og lengi og það sá eg að hvorumtveggja blæddi. Og svo lauk þeirra leik að sinn veg hné hvor þeirra af húsmæninum og voru þá báðir dauðir en álftin sat eftir hnipin mjög og dapurleg. Og þá sá eg fljúga fugl úr vestri. Það var valur. Hann settist hjá álftinni og lét blítt við hana og síðan flugu þau í brott bæði samt í sömu átt og þá vaknaði eg. Og er draumur þessi ómerkilegur," segir hann, "og mun vera fyrir veðrum að þau mætast í lofti úr þeim áttum er mér þóttu fuglarnir fljúga."

Austmaður segir: "Ekki er það mín ætlan," segir hann, "að svo sé."

Þorsteinn mælti: "Ger af drauminum slíkt er þér sýnist líklegast og lát mig heyra."

Austmaður mælti: "Fuglar þeir munu vera stórra manna fylgjur en húsfreyja þín er eigi heil og mun hún fæða meybarn frítt og fagurt og munt þú unna því mikið. En göfgir menn munu biðja dóttur þinnar úr þeim áttum sem þér þóttu ernirnir fljúga að og leggja á hana ofurást og berjast of hana og látast báðir af því efni. Og því næst mun hinn þriðji maður biðja hennar úr þeirri átt er valurinn fló að og þeim mun hún gift vera. Nú hefi eg þýddan draum þinn. Eg hygg eftir mun ganga."

Þorsteinn svarar: "Illa er draumur ráðinn og óvingjarnlega," sagði hann, "og munt þú ekki drauma ráða kunna."

Austmaður svarar: "Þú munt að raun um komast hversu eftir gengur."

Þorsteinn lagði fæð á Austmanninn og fór hann á brott um sumarið og er hann nú úr sögunni.
Hér er lýsing á kortinu...