En er vora tók geta þeir að líta einn morgun snemma að fjöldi húðkeipa reri sunnan fyrir nesið, svo margir sem kolum væri sáð og var þó veift á hverju skipi trjánum.
Þeir brugðu þá skjöldum upp og tóku kaupstefnu sín á millum og vildi það fólk helst kaupa rautt klæði. Þeir vildu og kaupa sverð og spjót en það bönnuðu þeir Karlsefni og Snorri. Þeir höfðu ófölvan belg fyrir klæðið og tóku spannarlangt klæði fyrir belg og bundu um höfuð sér og fór svo um stund. En er minnka tók klæðið þá skáru þeir í sundur svo að eigi var breiðara en þvers fingrar breitt. Gáfu þeir Skrælingjar jafnmikið fyrir eða meira.
Það bar til að griðungur hljóp úr skógi er þeir Karlsefni áttu og gall hátt við. Þeir fælast við Skrælingjar og hlaupa út á keipana og reru suður fyrir land. Varð þá ekki vart við þá þrjár vikur í samt.
En er sjá stund var liðin sjá þeir sunnan fara mikinn fjölda skipa Skrælingja svo sem straumur stæði. Var þá veift trjánum öllum rangsælis og ýla allir Skrælingjar hátt upp. Þá tóku þeir rauða skjöldu og báru í mót.
Gengu þeir þá saman og börðust. Varð þar skothríð hörð. Þeir höfðu og valslöngur Skrælingjar.
Það sjá þeir Karlsefni og Snorri að þeir færðu upp á stöngum Skrælingjarnir knött mikinn og blán að lit og fló upp á land yfir liðið og lét illilega við þar er niður kom.
Við þetta sló ótta miklum yfir Karlsefni og á lið hans svo að þá fýsti einskis annars en halda undan og upp með ánni því að þeim þótti lið Skrælingja drífa að sér öllum megin og létta eigi fyrr en þeir koma til hamra nokkurra. Veittu þeir þar viðtöku harða.
Freydís kom út og sá er þeir héldu undan. Hún kallaði: "Hví rennið þér undan slíkum auvirðismönnum, svo gildir menn er mér þætti líklegt að þér mættuð drepa þá svo sem búfé? Og ef eg hefði vopn þætti mér sem eg mundi betur berjast en einnhver yðvar."
Þeir gáfu öngvan gaum hvað sem hún sagði. Freydís vildi fylgja þeim og varð hún heldur sein því að hún var eigi heil. Gekk hún þá eftir þeim í skóginn en Skrælingjar sækja að henni. Hún fann fyrir sér mann dauðan, Þorbrand Snorrason, og stóð hellusteinn í höfði honum. Sverðið lá hjá honum og hún tók það upp og býst að verja sig með. Þá koma Skrælingjar að henni. Hún tekur brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið. Þeir fælast við og hlaupa undan og á skip sín og héldu á brottu. Þeir Karlsefni finna hana og lofa happ hennar.
Tveir menn féllu af Karlsefni en fjórir af Skrælingjum en þó urðu þeir Karlsefni ofurliði bornir. Fara þeir nú til búða sinna og íhuga hvað fjölmenni það var er að þeim sótti á landinu. Sýnist þeim nú að það eina mun liðið hafa verið er á skipunum kom an annað liðið mun hafa verið þversýningar.
Þeir Skrælingjar fundu og mann dauðan og lá öx hjá honum. Einn þeirra tók upp öxina og höggur með tré og þá hver að öðrum og þótti þeim vera gersemi og bíta vel. Síðan tók einn og hjó í stein og brotnaði öxin. Þótti honum þá öngu nýt er eigi stóð við grjótinu og kastaði niður.
Þeir þóttust nú sjá þótt þar væru landskostir góðir að þar mundi jafnan ófriður og ótti á liggja af þeim er fyrir bjuggu.
Síðan bjuggust þeir á brottu og ætluðu til síns lands og sigldu norður fyrir landið og fundu fimm Skrælingja í skinnhjúpum, sofnaða, nær sjó. Þeir höfðu með sér stokka og í dýramerg, dreyra blandinn. Þóttust þeir Karlsefni það skilja að þessir menn myndu hafa verið gervir brott af landinu. Þeir drápu þá. Síðan fundu þeir Karlsefni nes eitt og á fjölda dýra. Var nesið að sjá sem mykiskán væri af því að dýrin lágu þar um næturnar.
Nú koma þeir Karlsefni aftur í Straumsfjörð og voru þar fyrir alls gnóttir þess er þeir þurftu að hafa.
Það er sumra manna sögn að þau Bjarni og Guðríður hafi þar eftir verið og tíu tigir manna með þeim og hafi eigi farið lengra, en þeir Karlsefni og Snorri hafi suður farið og fjórir tigir manna með þeim og hafi eigi lengur verið í Hópi en vart tvo mánuði og hafi sama sumar aftur komið.
Karlsefni fór þá einu skipi að leita Þórhalls veiðimanns en annað liðið var eftir og fóru þeir norður fyrir Kjalarnes og ber þá fyrir vestan fram og var landið á bakborða þeim. Þar voru þá eyðimerkur einar allt að sjá fyrir þeim og nær hvergi rjóður í. Og er þeir höfðu lengi farið fellur á af landi ofan úr austri og í vestur. Þeir lögðu inn í árósinn og lágu við hinn syðra bakkann.