Í þenna tíma var hallæri mikið á Grænlandi. Höfðu menn fengið lítið, þeir sem í veiðiferð höfðu verið, en sumir eigi aftur komnir.
Sú kona var þar í byggð er Þorbjörg hét. Hún var spákona og var kölluð lítilvölva. Hún hafði átt sér níu systur og voru allar spákonur og var hún ein eftir á lífi.
Það var háttur Þorbjargar á vetrum að hún fór á veislur og buðu menn henni heim, mest þeir er forvitni var á um forlög sín eða árferð. Og með því að Þorkell var þar mestur bóndi þá þótti til hans koma að vita hvenær létta mundi óárani þessu sem yfir stóð. Þorkell býður spákonu þangað og er henni búin góð viðtaka sem siður var til þá er við þess háttar konu skyldi taka. Búið var henni hásæti og lagt undir hægindi. Þar skyldi í vera hænsafiðri.
En er hún kom um kveldið og sá maður er í móti henni var sendur þá var hún svo búin að hún hafði yfir sér tuglamöttul blán og var settur steinum allt í skaut ofan. Hún hafði á hálsi sér glertölur. Hún hafði á höfði lambskinnskofra svartan og við innan kattarskinn hvítt. Staf hafði hún í hendi og var á hnappur. Hann var búinn messingu og settur steinum ofan um hnappinn. Hún hafði um sig hnjóskulinda og var þar á skjóðupungur mikill. Varðveitti hún þar í töfur þau er hún þurfti til fróðleiks að hafa. Hún hafði kálfskinnsskó loðna á fótum og í þvengi langa og sterklega, látúnshnappar miklir á endunum. Hún hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.
En er hún kom inn þótti öllum mönnum skylt að velja henni sæmilegar kveðjur en hún tók því eftir sem henni voru menn skapfelldir til. Tók Þorkell bóndi í hönd vísindakonunni og leiddi hana til þess sætis er henni var búið. Þorkell bað hana þá renna þar augum yfir hjörð og hjú og híbýli. Hún var fámálug um allt.
Borð voru upp tekin um kveldið og er frá því að segja að spákonunni var matbúið. Henni var ger grautur af kiðjamjólk en til matar henni voru búin hjörtu úr alls konar kvikindum þeim sem þar voru til. Hún hafði messingarspón og hníf tannskeftan, tvíhólkaðan af eiri, og var af brotinn oddurinn.
En er borð voru upp tekin gengur Þorkell bóndi fyrir Þorbjörgu og spyr hversu henni virðist þar híbýli eða hættir manna eða hversu fljótlega hann mun þess vís verða er hann hefir spurt eftir og menn vildu vita. Hún kveðst það ekki mundu upp bera fyrr en um morguninn þá er hún hefði sofið þar um nóttina.
En að áliðnum degi var henni veittur sá umbúningur sem hún skyldi til að fremja seiðinn. Bað hún fá sér konur þær sem kynnu fræði það er þyrfti til seiðinn að fremja og Varðlokur heita. En þær konur fundust eigi. Þá var að leitað um bæinn ef nokkur kynni.
Þá svarar Guðríður: "Hvorki er eg fjölkunnig né vísindakona en þó kenndi Halldís fóstra mín mér á Íslandi það fræði er hún kallaði Varðlokur."
Þorbjörg svaraði: "Þá ertu fróðari en eg ætlaði."
Guðríður segir: "Þetta er þess konar fræði og atferli að eg ætla í öngvum atbeina að vera því að eg er kona kristin."
Þorbjörg svarar: "Svo mætti verða að þú yrðir mönnum að liði hér um en þú værir þá kona ekki að verri. En við Þorkel met eg að fá þá hluti hér til er þarf."
Þorkell herðir nú að Guðríði en hún kveðst mundu gera sem hann vildi. Slógu þá konur hring umhverfis en Þorbjörg sat uppi á seiðhjallinum. Kvað Guðríður þá kvæðið svo fagurt og vel að engi þóttist fyrr heyrt hafa með fegri raust kveðið sá er þar var.
Spákona þakkar henni kvæðið. Hún hafði margar náttúrur hingað að sótt og þótti fagurt að heyra það er kveðið var "er áður vildu frá oss snúast og oss öngva hlýðni veita. En mér eru nú margir þeir hlutir auðsýnir er áður var bæði eg og aðrir duldir. En eg kann það að segja að hallæri þetta mun ekki haldast lengur en í vetur og mun batna árangur sem vorar. Sóttarfar það sem lengi hefir legið mun og batna vonum bráðara. En þér Guðríður skal eg launa í hönd liðsinni það sem oss hefir af staðið því að þín forlög eru mér nú öll glöggsæ. Það muntu gjaforð fá hér á Grænlandi er sæmilegast er til þó að þér verði það eigi til langæðar því að vegir þínir liggja út til Íslands og mun þar koma frá þér ættbogi bæði mikill og góður og yfir þínum ættkvíslum mun skína bjartur geisli. Enda far nú vel og heil, dóttir mín."
Síðan gengu menn að vísindakonunni og frétti hver eftir því sem mest forvitni var á. Var hún og góð af frásögnum. Gekk það og lítt í tauma er hún sagði. Þessu næst var komið eftir henni af öðrum bæ og fór hún þá þangað. Þá var sent eftir Þorbirni því að hann vildi eigi heima vera meðan slík heiðni var framin.
Veðrátta batnaði skjótt þegar er vora tók sem Þorbjörg hafði sagt. Býr Þorbjörn skip sitt og fer uns hann kemur í Brattahlíð. Tekur Eiríkur við honum báðum höndum og kvað það vel er hann var þar kominn. Var Þorbjörn með honum um veturinn og skuldalið hans. Eftir um vorið gaf Eiríkur Þorbirni land á Stokkanesi og var þar ger sæmilegur bær og bjó hann þar síðan.