Eiríks saga rauða - 7. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Maður hét Þorfinnur karlsefni, son Þórðar hesthöfða, er bjó norður í Reyninesi í Skagafirði er nú er kallað. Karlsefni var ættgóður maður og auðigur að fé. Þórunn hét móðir hans. Hann var í kaupferðum og þótti fardrengur góður.

Eitt sumar býr Karlsefni skip sitt og ætlaði til Grænlands. Réðst til ferðar með honum Snorri Þorbrandsson úr Álftafirði og voru fjórir tigir manna með þeim.

Maður hét Bjarni Grímólfsson, breiðfirskur maður. Annar hét Þórhallur Gamlason, austfirskur maður. Þeir bjuggu skip sitt samsumars sem Karlsefni og ætluðu til Grænlands. Þeir voru á skipi fjórir tigir manna.

Láta þeir í haf fram tvennum skipum þegar þeir eru búnir. Eigi var um það getið hversu langa útivist þeir höfðu, en frá því er að segja að bæði þessi skip komu í Eríksfjörð um haustið.

Eiríkur reið til skips og aðrir landsmenn og tókst með þeim greiðleg kaupstefna. Buðu stýrimenn Eiríki að hafa slíkt af varninginum sem hann vildi. En Eiríkur sýni mikla stórmennsku af sér í móti því að hann bauð þessum skipverjunum báðum heim til sín til veturvistar í Brattahlíð. Þetta þágu kaupmenn og fóru með Eiríki. Síðan var fluttur heim varningur þeirra í Brattahlíð. Skorti þar eigi góð og stór útibúr að varðveita í. Líkaði kaupmönnum vel með Eiríki um veturinn.

En er dró að jólum tók Eiríkur að verða óglaðari en hann átti vanda til.

Eitt sinn kom Karlsefni að máli við Eirík og mælti: "Er þér þungt Eiríkur? Eg þykist finna að þú ert nokkuru fálátari en verið hefir, og þú veitir oss með mikilli rausn og erum vér skyldir að launa þér eftir því sem vér höfum föng á. Nú segðu hvað ógleði þinni veldur."

Eiríkur svarar: "Þér þiggið vel og góðmannlega. Nú leikur mér það eigi í hug að á yður hallist um vor viðskipti. Hitt er heldur að mér þykir illt ef að er spurt að þér hafið engi jól verri haft en þessi er nú koma í hönd."

Karlsefni svarar: "Það mun ekki á þá leið. Vér höfum á skipum vorum malt og mjöl og korn og er yður heimilt að hafa af slíkt sem þér viljið og gerið veislu slíka sem stórmennsku ber til."

Og það þiggur hann. Var þá búið til jólaveislu og varð hún svo sköruleg að menn þóttust trautt slíka rausnarveislu séð hafa.

Og eftir jólin vekur Karlsefni við Eirík um ráðahag við Guðríði er honum leist sem það mundi á hans forræði en honum leist kona fríð og vel kunnandi. Eiríkur svarar, kveðst vel mundu undir taka hans mál en kvað hana góðs gjaforð verða "er það og líklegt að hún fylgi sínum forlögum" þó að hún væri honum gefin og kvað góða frétt af honum koma.

Nú er vakið mál við hana og lét hún það sitt ráð sem Eiríkur vildi fyrir sjá. Og er nú ekki að lengja um það að þessi ráð tókust og var þá veisla aukin og gert brullaup.

Gleði mikið var í Brattahlíð um veturinn.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Eiríks saga rauða - 7. kafli: 490 orð
Tími : 2 mínútur

Eiríks saga rauða: 7.911 orð
Lesin: 4.375 orð
Tími eftir: 15 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...