Eyrbyggja saga - 10. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Eftir þingið höfðu hvorirtveggju setur fjölmennar og voru þá dylgjur miklar með þeim. Vinir þeirra tóku það ráð að senda eftir Þórði gelli er þá var mestur höfðingi í Breiðafirði. Hann var frændi Kjalleklinga en námágur Þorsteins. Þótti hann líkastur til að sætta þá.

En er Þórði kom þessi orðsending fór hann til við marga menn og leitar um sættir. Fann hann að stórlangt var í millum þeirra þykkju en þó fékk hann komið á griðum með þeim og stefnulagi.

Þar urðu þær málalyktir að Þórður skyldi gera um með því móti að Kjalleklingar skildu það til að þeir mundu aldrei ganga í Dritsker örna sinn en Þorsteinn skildi það til að Kjalleklingar skyldu eigi saurga völlinn nú heldur en fyrr. Kjalleklingar kölluðu alla þá hafa fallið óhelga, er af Þorsteini höfðu fallið, fyrir það er þeir höfðu fyrr með þann hug að þeim farið að berjast. En Þórsnesingar sögðu Kjalleklinga alla óhelga fyrir lagabrot það er þeir gerðu á helguðu þingi. En þó að vandlega væri undir skilið gerðina þá játaði Þórður að gera og vildi heldur það en þeir skildu ósáttir.

Þórður hafði það upphaf gerðarinnar að hann kallar að sá skal hafa happ er hlotið hefir, kvað þar engi víg bæta skulu þau er orðið höfðu á Þórsnesi eða áverka, en völlinn kallar hann spilltan af heiftarblóði er niður hafði komið og kallar þá jörð nú eigi helgari en aðra og kallar þá því valda er fyrri gerðust til áverka við aðra. Kallaði hann það eitt friðbrot verið hafa, sagði þar og eigi þing skyldu vera síðan. En til þess að þeir væru vel sáttir og vinir þaðan af þá gerði hann það að Þorgrímur Kjallaksson skyldi halda uppi hofinu að helmingi og hafa hálfan hoftoll og svo þingmenn að helmingi, veita og Þorsteini til allra mála þaðan af og styrkja hann til hveriga helgi sem hann vill á leggja þingið þar sem næst verði sett. Hér með gifti Þórður gellir Þorgrími Kjallakssyni Þórhildi frændkonu sína, dóttur Þorkels meinakurs, nábúa síns. Var hann af því kallaður Þorgrímur goði.

Þeir færðu þá þingið inn í nesið þar sem nú er. Og þá er Þórður gellir skipaði fjórðungaþing lét hann þar vera fjórðungsþing Vestfirðinga. Skyldu menn þangað til sækja um alla Vestfjörðu. Þar sér enn dómhring þann er menn voru dæmdir í til blóts. Í þeim hring stendur Þórs steinn er þeir menn voru brotnir um er til blóta voru hafðir og sér enn blóðslitinn á steininum. Var á því þingi hinn mesti helgistaður en eigi var mönnum þar bannað að ganga örna sinna.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Eyrbyggja saga - 10. kafli: 425 orð
Tími : 2 mínútur

Eyrbyggja saga: 39.459 orð
Lesin: 2.586 orð
Tími eftir: 148 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...