Eyrbyggja saga - 13. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Snorri Þorgrímsson var þá fjórtán vetra er hann fór utan með fóstbræðrum sínum, Þorleifi kimba og Þóroddi. Börkur hinn digri, föðurbróðir hans, galt honum fimm tigu silfurs til utanferðar.

Þeir urðu vel reiðfari og komu til Noregs um haustið. Þeir voru um veturinn á Rogalandi. Snorri var með Erlingi Skjálgssyni á Sóla og var Erlingur vel til hans því að þar hafði verið forn vinátta með hinum fyrrum frændum þeirra, Hörða-Kára og Þórólfi Mostrarskegg.

Um sumarið eftir fóru þeir til Íslands og urðu síðbúnir. Þeir höfðu harða útivist og komu litlu fyrir vetur í Hornafjörð.

En er þeir bjuggust frá skipi, Breiðfirðingarnir, þá skaust þar mjög í tvö horn um búnað þeirra Snorra og Þorleifs kimba. Þorleifur keypti þann hest er hann fékk bestan. Hann hafði og steindan söðul allglæsilegan. Hann hafði búið sverð og gullrekið spjót, myrkblán skjöld og mjög gylltan, vönduð öll klæði. Hann hafði þar og til varið mjög öllum sínum fararefnum. En Snorri var í svartri kápu og reið svörtu merhrossi góðu. Hann hafði fornan trogsöðul og vopn lítt til fegurðar búin. Búnaður Þórodds var þar á milli.

Þeir riðu austan um Síðu og svo sem leið liggur vestur til Borgarfjarðar og svo vestur um Flötu og gistu í Álftafirði.

Eftir það reið Snorri til Helgafells og ætlar þar að vera um veturinn. Börkur tók því fálega og höfðu menn það mjög að hlátri um búnað hans. Tók Börkur svo á að honum hefði óheppilega með féið farist er öllu var eytt.

Það var einn dag öndverðan vetur að Helgafelli að þar gengu inn tólf menn alvopnaðir. Þar var Eyjólfur hinn grái, frændi Barkar, sonur Þórðar gellis. Hann bjó í Otradal vestur í Arnarfirði.

En er þeir voru að tíðindum spurðir þá sögðu þeir dráp Gísla Súrssonar og þeirra manna er látist höfðu fyrir honum áður hann féll. Við þessi tíðindi varð Börkur allgleymur og bað Þórdísi og Snorra að þau skyldu fagna Eyjólfi sem best, þeim manni er svo mikla skömm hafði rekið af höndum þeim frændum.

Snorri lét sér fátt um finnast um þessi tíðindi en Þórdís segir að þá var vel fagnað "ef grautur er gefinn Gíslabana."

Börkur svarar: "Eigi hlutast eg til málsverða."

Börkur skipar Eyjólfi í öndvegi en förunautum hans utar frá honum. Þeir skutu vopnum sínum á gólfið. Börkur sat innar frá Eyjólfi en þá Snorri.

Þórdís bar innar grautartrygla á borð og hélt með á spónum og er hún setti fyrir Eyjólf þá féll niður spónn fyrir henni. Hún laut niður eftir og tók sverð hans Eyjólfs og brá skjótt og lagði síðan upp undir borðið og kom í lær Eyjólfi en hjaltið nam við borðinu og varð þó sárið mikið. Börkur hratt fram borðinu og sló til Þórdísar. Snorri hratt Berki svo að hann féll við en tók til móður sinnar og setti hana niður hjá sér og kvað ærnar skapraunir hennar þótt hún væri óbarin. Eyjólfur hljóp upp og hans menn og hélt þar maður á manni.

Þar urðu þær málalyktir að Börkur seldi Eyjólfi sjálfdæmi og gerði hann mikið fé sér til handa fyrir áverkann. Fór hann við það í brott. Af þessu óx mjög óþokki með þeim Berki og Snorra.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Eyrbyggja saga - 13. kafli: 525 orð
Tími : 3 mínútur

Eyrbyggja saga: 39.459 orð
Lesin: 3.684 orð
Tími eftir: 144 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...