Eina nótt var Þórarinn heima í Mávahlíð. En um morguninn spyr Auður Þórarinn hvert ráð hann ætlar fyrir sér "vildum vér eigi úthýsa þér," segir hún, "en hrædd er eg að hér séu fleiri settir dyradómarnir í vetur því að eg veit að Snorri goði mun ætla að mæla eftir Þorbjörn mág sinn."
Þá kvað Þórarinn:
Myndit vitr í vetri
vekjandi mig sekja,
þar á eg lífhvötuð leyfðan,
löngráns, um þær vánir,
ef niðbræði næðag
nás valfallins ásar,
Hugins létum nið njóta
nágrundar, Vermundi.
Þá mælti Geirríður: "Það er nú ráðlegast að leita að slíkum tengdamönnum sem Vermundur er eða Arnkell bróðir minn."
Þórarinn svarar: "Meiri von að hvortveggja þurfi áður lýkur þessum málum en þar munum vér þó fyrst á treysta er Vermundur er."
Og þann sama dag riðu þeir allir er að vígum höfðu verið inn um fjörðu og komu í Bjarnarhöfn um kveldið og gengu inn er menn voru komnir í sæti.
Vermundur heilsar þeim og rýmdi þegar öndvegið fyrir þeim Þórarni. En er þeir höfðu niður sest þá spurði Vermundur tíðinda.
Þórarinn kvað:
Skal eg þrymviðum þremja,
þegi her meðan, segja,
von er ísarns ásum
örleiks, frá því görla
hvé hjaldrviðir héldu,
haldendr, við mig, skjaldar,
roðinn sá eg Hrundar handa
hnigreyr, löngum, dreyra.
"Hvað er þar frá að segja mágur?" segir Vermundur.
Þórarinn kvað:
Sóttu heim, þeir er hættu,
hjör-Nirðir mig, fjörvi.
Gnýljómi beit geymi
geira stígs að vígi.
Svo görðum vér sverða
sókn-miðjungar Þriðja,
sleitka líknar leiki
lostigr, fáa kosti.
Guðný systir hans nam staðar á gólfinu og mælti: "Hefir þú nokkuð varið þig nú frýjuorðinu þeirra út þar?"
Þórarinn kvað:
Urðum vér að verja,
varð ár drifin sára,
hrafn naut hræva, Gefnar
hjaldrskýja mig frýju,
þá er við hjálm á hólmi
hrein míns föður sveini,
þaut andvaka unda
unnr, benlækir runnu.
Vermundur mælti: "Brátt þykir mér sem þér hafið við ást."
Þórarinn kvað:
Knáttu hjálmi hættar
hjaldrs á mínum skjaldi
Þrúðar vangs hins þunga
þings spámeyjar singva
þá er bjúgröðull bógar
baugs fyr óðaldraugi,
Gjöll óx vopns á völlum,
varð blóðdrifinn Fróða.
Vermundur mælti: "Hvort vissu þeir nú hvort þú varst karlmaður eða kona?"
Þórarinn kvað:
Reka þóttumk eg, Rakna,
remmiskóðs við Móða,
kunnfáka hné kennir,
klámorð af mér borða,
hvatki er Hildar götva,
hrafn sleit af ná beitu,
síks við sína leiku
sælingr um það mælir.
Eftir það segir Þórarinn tíðindin. Þá spurði Vermundur: "Hví fórstu þá eftir þeim? Þótti þér eigi ærið að orðið hið fyrra sinn?"
Þórarinn kvað:
Kveðin man, Hrofts, að heiftum,
hyrskerðir, mér verða,
kunni eg áðr fyr Enni,
ylgteiti, vel beita,
er lútviðir létu
lækendr, þeir er skil flækja,
eggjum hófs, að hjöggag
Hlín guðvefjar mína.
"Vorkunn var það," segir Vermundur, "að þú stæðist það eigi. En hversu gáfust þér þeir hinir útlensku menn?"
Þórarinn kvað:
Nágöglum fékk Nagli
nest dálega flestum.
Kafsunnu réð kennir
klökkr í fjall að stökkva.
Heldr gekk hjálmi faldinn,
hjaldrs, að vopna galdri,
þurði eldr of aldir,
Álfgeir af hvöt meiri.
"Bar Nagli sig eigi allvel?" kvað Vermundur.
Þórarinn kvað.
Grátandi rann gætir
geira stígs frá vígi.
Þar varat grímu geymi
góð von friðar honum
svo að merskyndir myndi,
men-skiljandi, vilja,
hugði bjóðr á bleyði
bifstaups, á sjó hlaupa.
Og er Þórarinn hafði verið um nótt í Bjarnarhöfn þá mælti Vermundur: "Eigi mun þér mér þykja fara mikilmannlega mágur um liðveisluna við þig. Eg ber eigi traust á að taka við yður svo að eigi gangi fleiri menn í þetta vandræði. Og munum vér ríða inn í dag á Bólstað og finna Arnkel frænda þinn og vita hvað hann vill veita oss því að mér sýnist Snorri goði þungur í eftirmálinu."
"Þér skuluð ráða," segir Þórarinn.
Og er þeir voru á leið komnir kvað Þórarinn:
Muna munum vér að vorum
Vermundr glaðir stundum,
auðar þöll, áðr ollum
auðvarpaðar dauða.
Nú séumk hitt, að hlaupa,
hör-Gerðr, munum verða,
leið erum randa rauðra
regn, fyr prúðum þegni.
Þessu veik hann til Snorra goða. Þeir Vermundur og Þórarinn riðu inn á Bólstað og fagnaði Arnkell þeim vel og spyr að tíðindum.
Þórarinn kvað:
Var til hreggs að hyggja
hrafn-víns á bæ mínum,
þurði eldr of aldir,
ugglegt, Munins tuggu
þá er á fyrða fundi
frán víkinga mána
lind beit, lögðis kindir
liðu Högna vé gögnum.
Arnkell spyr eftir atburðum um tíðindi þau er Þórarinn sagði. Og er hann hafði frá sagt sem var, þá mælti Arnkell: "Reiðst hefir þú nú frændi, svo hógvær maður sem þú ert."
Þórarinn kvað:
Hétu hirðinjótar
haukaness til þessa,
heftandi var eg heiftar,
hóglífan mig drífu.
Oft kemr, alnar leiftra
ævifús, úr dúsi,
nú kná jörð til orða,
æðiregn, að fregna.
"Verða kann það," segir Arnkell, "en það vil eg við þig mæla, Þórarinn frændi, að þú ver með mér þar til er lýkur málum þessum á nokkurn hátt. En þó að eg gerist nokkuð gerkólfur í þessu boði þá vil eg það við þig mæla, Vermundur, að þú sért eigi við skilinn mál þessi þó að eg taki við Þórarni."
"Skylt er það," segir Vermundur, "að eg veiti Þórarni það er eg má, eigi að síður þóttú sért fyrirmaður að liðveislu við hann."
Þá mælti Arnkell: "Það er mitt ráð að vér sitjum hér í vetur allir saman samtýnis við Snorra goða."
Og svo gerðu þeir að Arnkell hafði fjölmennt um veturinn. Var Vermundur ýmist í Bjarnarhöfn eða með Arnkatli. Þórarinn hélt hinum sömum skapshöfnum og var löngum hljóður.
Arnkell var híbýlaprúður og gleðimaður mikill. Þótti honum og illa ef aðrir voru eigi jafnglaðir sem hann og ræddi oft um við Þórarin að hann skyldi vera kátur og ókvíðinn, lést hafa spurt að ekkjan að Fróðá bæri vel af sér harmana "og mun henni hlæglegt þykja ef þér berið yður eigi vel."
Þórarinn kvað:
Skalat öldrukkin ekkja,
eg veit að gat beitu
hrafn af hræva efni,
hoppfögr af því skoppa
að hjördöggvar hyggjag,
hér er fjón komin ljóna,
haukr unir hörðum leiki
hræva stríðs, á kvíðu.
Þá svarar einn heimamaður Arnkels: "Eigi veistu fyrr en í vor er lokið er Þórsnessþingi hversu einhlítur þú verður þér í málunum."
Þórarinn kvað:
Láta hitt að hljóta
haldendr munum skjaldar,
sækjum ráð und ríkjan,
rómusamt úr dómi
nema Arnketill órum
orðgóðr við lof þjóðar,
vel trúi eg grímu geymi
galdrs, sakmálum haldi.