Þórólfur Mostrarskegg fékk að blóti miklu og gekk til fréttar við Þór, ástvin sinn, hvort hann skyldi sættast við konung eða fara af landi brott og leita sér annarra forlaga en fréttin vísaði Þórólfi til Íslands.
Og eftir það fékk hann sér mikið hafskip og bjó það til Íslandsferðar og hafði með sér skuldalið sitt og búferli. Margir vinir hans réðust til ferðar með honum. Hann tók ofan hofið og hafði með sér flesta viðu þá er þar höfðu í verið og svo moldina undan stallanum þar er Þór hafði á setið.
Síðan sigldi Þórólfur í haf og byrjaði honum vel og fann landið og sigldi fyrir sunnan, vestur um Reykjanes. Þá féll byrinn og sáu þeir að skar í landið inn fjörðu stóra.
Þórólfur kastaði þá fyrir borð öndvegissúlum sínum, þeim er staðið höfðu í hofinu. Þar var Þór skorinn á annarri. Hann mælti svo fyrir að hann skyldi þar byggja á Íslandi sem Þór léti þær á land koma. En þegar þær hóf frá skipinu sveif þeim til hins vestra fjarðarins og þótti þeim fara eigi vonum seinna.
Eftir það kom hafgola. Sigldu þeir þá vestur fyrir Snæfellsnes og inn á fjörðinn. Þeir sjá að fjörðurinn er ákaflega breiður og langur og mjög stórfjöllótt hvorumtveggja megin. Þórólfur gaf nafn firðinum og kallaði Breiðafjörð.
Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum, og lagði skipið á vog þann er þeir kölluðu Hofsvog síðan. Eftir það könnuðu þeir landið og fundu á nesi framanverðu er var fyrir norðan voginn að Þór var á land kominn með súlurnar. Það var síðan kallað Þórsnes.
Eftir það fór Þórólfur eldi um landnám sitt, utan frá Stafá og inn til þeirrar ár er hann kallaði Þórsá, og byggði þar skipverjum sínum.
Hann setti bæ mikinn við Hofsvog er hann kallaði á Hofsstöðum. Þar lét hann reisa hof og var það mikið hús. Voru dyr á hliðvegginum og nær öðrum endanum. Þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar og voru þar í naglar. Þeir hétu reginnaglar. Þar var allt friðarstaður fyrir innan. Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum og stóð þar stalli á miðju gólfinu sem altari og lá þar á hringur einn mótlaus, tvítugeyringur, og skyldi þar að sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallanum skyldi og standa hlautbolli og þar í hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð er sæfð voru þau kvikindi er goðunum var fórnað. Umhverfis stallann var goðunum skipað í afhúsinu. Til hofsins skyldu allir menn tolla gjalda og vera skyldir hofgoðanum til allra ferða sem nú eru þingmenn höfðingjum en goði skyldi hofi upp halda af sjálfs síns kostnaði, svo að eigi rénaði, og hafa inni blótveislur.
Þórólfur kallaði Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs. Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.
Þar sem Þór hafði á land komið, á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.
Þórólfur gerðist rausnarmaður mikill í búi og hafði fjölmennt með sér því að þá var gott matar að afla af eyjum og öðru sæfangi.