Eyrbyggja saga - 7. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Geirröður hét maður er nam land inn frá Þórsá til Langadals og bjó á Eyri. Með honum kom út Úlfar kappi, er hann gaf land umhverfis Úlfarsfell, og Finngeir sonur Þorsteins öndurs. Hann bjó í Álftafirði. Hans sonur var Þorfinnur, faðir Þorbrands í Álftafirði.

Vestar hét maður, sonur Þórólfs blöðruskalla. Hann kom til Ísland með föður sinn gamlan og nam land fyrir utan Urthvalafjörð og bjó á Öndverðri-Eyri. Hans sonur var Ásgeir er þar bjó síðan.

Björn hinn austræni andaðist fyrst þessa landnámsmanna og var heygður við Borgarlæk. Hann átti eftir tvo sonu. Annar var Kjallakur gamli er bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn. Kjallakur átti Ástríði, dóttur Hrólfs hersis, systur Steinólfs hins lága, þau áttu þrjú börn. Þorgrímur goði var sonur þeirra og Gerður dóttir er átti Þormóður goði, sonur Odds hins rakka. Þriðja var Helga er átti Ásgeir á Eyri. Frá börnum Kjallaks er komin mikil ætt og eru það kallaðir Kjalleklingar.

Óttar hét annar sonur Bjarnar, Hann átti Gró Geirleifsdóttur, systur Oddleifs af Barðaströnd. Þeirra synir voru þeir Helgi, faðir Ósvífurs hins spaka, og Björn, faðir Vigfúss í Drápuhlíð. Vilgeir hét hinn þriðji sonur Óttars Bjarnarsonar.

Þórólfur Mostrarskegg kvongaðist í elli sinni og fékk þeirrar konu er Unnur hét. Segja sumir að hún væri dóttir Þorsteins rauðs en Ari Þorgilsson hinn fróði telur hana eigi með hans börnum.

Þau Þórólfur og Unnur áttu son er Steinn hét. Þenna svein gaf Þórólfur Þór, vin sínum, og kallaði hann Þorstein og var þessi sveinn allbráðger.

Hallsteinn Þórólfsson fékk Óskar, dóttur Þorsteins rauðs. Þorsteinn hét sonur þeirra. Hann fóstraði Þórólfur og kallaði Þorstein surt en sinn son kallaði hann Þorstein þorskabít.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Eyrbyggja saga - 7. kafli: 271 orð
Tími : 2 mínútur

Eyrbyggja saga: 39.459 orð
Lesin: 1.605 orð
Tími eftir: 152 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...