Eyrbyggja saga - 8. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Í þenna tíma kom út Geirríður, systir Geirröðar á Eyri, og gaf hann henni bústað í Borgardal fyrir innan Álftafjörð. Hún lét setja skála sinn á þjóðbraut þvera og skyldu allir menn ríða þar í gegnum. Þar stóð jafnan borð og matur á, gefinn hverjum er hafa vildi. Af slíku þótti hún hið mesta göfugkvendi.

Geirríði hafði átta Björn, sonur Bölverks blindingatrjónu, og hét þeirra sonur Þórólfur. Hann var víkingur mikill. Hann kom út nokkuru síðar en móðir hans og var með henni hinn fyrsta vetur.

Þórólfi þótti það lítið búland og skoraði á Úlfar kappa til landa og bauð honum hólmgöngu því að hann var við aldur og barnlaus. Úlfar vildi heldur deyja en vera kúgaður af Þórólfi. Þeir gengu á hólm í Álftafirði og féll Úlfar en Þórólfur varð sár á fæti og gekk jafnan haltur síðan. af þessu var hann kallaður bægifótur.

Hann gerði bú í Hvammi í Þórsárdal. Hann tók lönd eftir Úlfar og var hinn mesti ójafnaðarmaður. Hann seldi lönd leysingjum Þorbrands í Álftafirði, Úlfari Úlfarsfell en Örlygi Örlygsstaði og bjuggu þeir þar lengi síðan.

Þórólfur bægifótur átti þrjú börn. Arnkell hét sonur hans en Gunnfríður dóttir er átti Þorbeinir á Þorbeinisstöðum inn á Vatnshálsi, inn frá Drápuhlíð. Þeirra synir voru þeir Sigmundur og Þorgils en hans dóttir var Þorgerður er átti Vigfús í Drápuhlíð. Önnur dóttir Þórólfs bægifóts hét Geirríður er átti Þórólfur, sonur Herjólfs hölkinrassa, og bjuggu þau í Mávahlíð. Þeirra börn voru þau Þórarinn svarti og Guðný.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Eyrbyggja saga - 8. kafli: 245 orð
Tími : 1 mínúta

Eyrbyggja saga: 39.459 orð
Lesin: 1.876 orð
Tími eftir: 151 mínúta
Hér er lýsing á kortinu...