Fljótsdæla saga - 12. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Nú fara þeir ofan eftir svellunum. Auðkennd var ferð þeirra Droplaugarsona bræðra er þeir fóru úti. Hvorgi vildi ganga í spor öðrum og gengu þeir jafnfram og af því kenndist för þeirra þó að langt sæi til. En við garðinn á hlassinu var Þorgrímur tordýfill sem þeir höfðu séð en nautamaðurinn var í garðinum uppi sá er orðaskipti átti við hann.

Þorgrímur mælti þá við hann: "Menn fara þar ofan eftir brúnunum fyrir ofan Finnsstaði. Þeir fara frálega. Þykir mér líkt þeim Droplaugarsonum ofan af Arneiðarstöðum."

Húskarl svarar: "Hvað mun okkur varða hvar þeir fara? Eru þeir vaskir sveinar og meinlausir og er öngum mein að ferðum þeirra."

"Aldrei veit eg það," sagði Þorgrímur. "Get eg að þeir vilji mig finna."

"Hví mun það sæta," sagði húskarl, "eða hvað munu þeir vilja?"

Þorgrímur mælti: "Manstu ei hvað við töluðum á hausti við eldinn?"

Húskarl svarar: "Hvað mun nú undir því? Hugði eg að það mundi óvíða farið hafa."

"Ekki skaltu það ætla," sagði Þorgrímur, "veit eg að þau orð eru komin upp á Arneiðarstaði til eyrna Droplaugar og sonum hennar. Er mér sagt að þau hafi beisk við orðið og hafi hún eggjað Helga á hendur mér. Get eg að hann muni nú ætla að reka þess réttar og það get eg að eg bíði þess eigi úr stað, þessa vanréttis, og mun eg beita hestinn frá hlassinu og ríða heim í Mýnes og er eg þá hirður en eg sé glöggt að þessir menn snúa hingað."

"Ekki mundi eg það gera," segir húskarl, "taktu heldur tindlur úr sleðanum og hafðu upp í garðinn og brjótum kleggjann undir fætur okkur en þeir ungir báðir og munu þeir ekki geta að gert við okkur ef við veitumst duganda."

Þorgrímur svarar: "Ekki get eg hætta megi undir fjandur þessa því að svo að eins lýst mér á þessa menn að þeim muni duga vel hendur og hjarta og munu þeir geta sótta okkur með skotum því að þeir hæfa allt það er þeir skjóta til, bæði menn og fugla" tekur nú hestinn og hleypur á bak. Hann hefir vönd í hendi og ber á tvær hliðar.

Húskarl mælti: "Illa er slíkum mönnum farið sem þú ert, mælir rán og regin við hvern mann en þorir öngvu í gegn að ganga ef eftir er leitað. Ætla eg það sannast að þú sért bæði dáðlaus og deighugaður. Hér mun eg bíða og vita hvað þeir vilja."

Þorgrímur hrökkvir hestinn og hleypir þvers upp úr nesinu. Hann víkur hestinum suður til móts við þá, bregður upp hendinni og veifar. Hann setur þá upp óp mikið og þóttist spotta þá. Helgi sér þetta og þótti illa. Steypir hann af sér feldinum og hleypur til móts við Þorgrím tordýfil. Og þegar hann þóttist í skotfæri við hann skaut hann til hans spjóti. Það leitar sér staðar og flýgur undir hönd Þorgrími og kemur út undir annarri. Fellur hann þegar dauður til jarðar. Þá tók Helgi hestinn og leiðir þangað til, lætur Þorgrím á bak. Grímur styður hann en Helgi leiðir hestinn ofan til stakkgarðsins. Þeir heilsa húskarli vel. Hann tekur því glaðlega.

Helgi mælti: "Nú höfum við drepið hér mann frá verki með þér og er nú verkið óunnið og munum við taka til að vinna með þér."

En hann svarar: "Engis þarf eg með. Tel eg eigi mér þetta harmsök því að eg get að það tali flestir menn að honum mundi þessa fyrir löngu von. Mun eg ekki vinna að ákafara þó að þetta hafi í orðið. Farið þið heim þann veg sem ykkur gegnir best."

Helgi mælti: "Þorgrímur vill vera í ferð með þér heim því að hann þykist eigi einfær."

Hann tekur reip úr sleðanum og bindur hann á bak fram við silann. Tordýfill situr nú heldur gneypur á baki. Þeir fara nú bræður heim til Eyvindarár en húskarl gerir hlassið og vinnur slík er hann vill. En síðan fór hann heim, ekur hlassinu að vindauganu og ber inn og eftir það gefur hann hestinum og brynnir en Þorgrímur situr á bak á meðan. Og er húskarl hefir dvalið daginn sem hann vill þá gengur hann inn er hann hefir mokað fjós og dregið á völl en Þorgrímur sat á baki einart meðan. Þórir bóndi var þá undir borð kominn og var þá nær hádegi. Hann segir þá Þóri tíðindin. Þórir spurði því hann hefði svo lengi dvalið.

Hann segir að hann ætti mikið að gera "en mér þótti lítils um vert þó að skítfuglinn væri drepinn."

Þórir sprettur þá undan borðum og kveður tvo menn til farar með sér og lætur söðla hesta.

Droplaugarsynir komu heim til Eyvindarár og sögðu Gróu þessi tíðindi.

Gróa kvað það vel orðið "en þó þykir mér þú frændi snemma taka til manndrápanna."

Þetta víg kalla menn Helga fyrst hafa vegið. Gróa bað þá skamma stund dveljast "þið skuluð ríða nú heim á Arneiðarstaði" - þeir stíga þá á bak Inni-Krák - "því að eg get að Þórir komi hér í dag að vitja ykkar. Munum við semja mál með okkur en þið farið nú vel."

Þeir koma heim á Arneiðarstaði og er móðir þeirra þá í kátara lagi. Hún heilsar þeim vel og spurði tíðinda. Þeir segja alls engin.

"Hvað er í veiðum síðan þið fóruð heiman?"

Helgi svarar: "Smátt er í veiðum móðir, veiddi eg tordýfil einn."

Hún svarar: "Það er lítil veiður því að það er lítill fugl en njóttu heill handa því að þann einn muntu veitt hafa að mér mun mikil aufúsa á vera."

En miklu var hún nú fleiri til sveinanna en áður.

Þórir ríður nú heiman með félaga sína og kemur til Eyvindarár og drepur þar á dyr og bað Gróu til hurðar ganga. Hún gerir svo og heilsar þeim vel. Þórir tekur því heldur seint og spurði að Droplaugarsonum.

Hún segir þá eigi þar vera "en þó er sem þeir séu hér. Það sem til tíðinda er orðið í ferð þeirra þá vil eg taka máli fyrir þá. Gerðu fé svo mikið sem þú vilt en eg mun bæta, því að oss þykir lítils vert eins þræls dráp heldur en það fari í manna munna. En við höfum átt vinskap saman góðan síðan eg kom hingað til lands. Ætla eg að enn skyldi svo vera. Er þetta eigi stærra mál en svo að við megum þetta vel semja."

Þórir segir það vel mega "því að marga hluti hefur þú vel til mín gert og ráð sjálf fyrir þessum bótum."

Gróa gekk þá inn og kom út með svo mikið fé sem vant er að bæta þræla. Hún gaf Þóri fingurgull og bað sveinunum virkta. Þótti henni sér veittur vinskapur ef hann héldi sátt við sveinana. Þórir kvað svo vera skyldu sem hún beiddi. Reið hann heim við svo búið.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fljótsdæla saga - 12. kafli: 1.120 orð
Tími : 5 mínútur

Fljótsdæla saga: 27.273 orð
Lesin: 9.664 orð
Tími eftir: 71 mínúta
Hér er lýsing á kortinu...