Fljótsdæla saga - 13. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Maður er nefndur Nollar. Hann bjó á þeim bæ er heitir á Nollarsstöðum. Það er hið næsta Arneiðarstöðum. Nollar átti fé lítið en mikla ómegð og hafði það mest til atvinnu er hann leigði. Hann var verkmaður mikill, svartur maður, manna mestur, kvittinn var hann, illorður og óvinsæll, og í öllu var hann óþokkamaður. Hann var bróðir Þorgríms tordýfils. Í öngvu var Nollar vinsælli. Hann spurði tíðindi þessi er gerst höfðu í héraðinu. Hann gerði för sína og fer um nótt til Mjóvaness og finnur Helga Ásbjarnarson og biður hann taka við málinu.

Helgi svarar því óbrátt, kvað ekki mart milli þeirra Droplaugarsona, sagðist ekki hirða að þeim yrði slíkt til "þykir mér sem Þórir eigi málið. Mun hann gera þér nokkurn sóma en þú ert nábúi þeirra bræðra og munu þeir vera þér ásjámenn."

Nollar svarar: "Því fór eg á þinn fund að þú ert vor höfðingi. Þykir mér þú skyldastur til að losa vandræði manna í héraðinu þó að eigi falli jafnstórt til sem nú er orðið en ella er ekki skot til þín."

Helgi mælti: "Farðu á burt og vil eg ekki veita þér þína bæn því að mér þykir menn vel til valdir þó að þið séuð bræður að þungt fái af."

Nollar fer á burt og þykir sín fór ill orðin og segir Helga því oft lítinn hlut mundu hafa fyrir Droplaugarsonum "ef þeim skal aldrei refsa sín ókynni."

Nollar leggur á þá bræður mikinn óþokka. Þeir létu sem þeir vissu það eigi.

Þorbjörn hét maður. Hann bjó á Skeggjastöðum. Það er út hið næsta Nollarsstöðum en suður frá Ási. Hann hafði verið kvongaður en þá var hún önduð. Hann átti dóttir eina er Helga hét. Hún var væn og vitur. Þorbjörn var vel fjáreigandi, vinsæll maður og góður bóndi og þá við aldur.

Bessi hinn spaki var vin Þorbjarnar og þá oft heimboð að honum og gjafir en Bessi hafði gefið Helgu marga góða gripi og var það orð á að honum þætti sjá kona betri en aðrar síðan hans kona var önduð. En á þeim misserum var það mælt að Helgi Droplaugarson legði þangað komur sínar til Helgu Þorbjarnardóttir og ekki var það kallað henni um þveran hug sem raun bar nokkuð á því að þá er þeir bræður höfðu tvær nætur heima verið þá tekur Helgi Inni-Krák og beitti fyrir sleða. Hann lætur koma húð í sleðann og kvaddi Grím til ferðar með sér, snúa síðan ofan á ís. Þeir fara út eftir ísinum allt fyrir Skeggjastaði, snúa til bæjar, láta þar hestinn úti í túni og kasta heyi fyrir. Þeir bræður ganga inn í stofu. Heilsar Helga þeim vel og sest Helgi niður hjá henni.

Og er þau töluðu sín á meðal þá beiddi hann að hún mundi fara ofan til Eyvindarár og vera þar um veturinn. Þessu játar hún. Og er þau töluðu þetta sín í milli þá kemur þar inn maður einn. Sá var í svörtum kufli. Þar var Nollar. Hann reikar utar og innar eftir gólfinu og lætur slúta höttinn. En þá er minnst er von hleypur hann fram og ofan eftir vellinum, svo ofan að vatni. Þar stendur steinn undir bakkanum. Þar kastar hann klæðunum og leggur upp á steininn. Síðan skýtur hann beinspýtum undir sig, hleypur síðan upp eftir vatni slíkt er fara má. Um hádegisskeið kemur hann upp á Bessastaði. Hann var í kóðsisbrókum. En svo hafði hann fljótt farið að það var með megni. Bessi heilsar honum vel og spyr hví hann færi svo mikið.

Nollar svarar: "Því, að ærin er nauðsyn og fer eg ekki síður þinna vegna en minna."

"Hvað er það?" sagði Bessi.

"Helgi fóstri þinn er kominn á Skeggjastaði út og ætlar hann að fífla Helgu Þorbjarnardóttir út til Eyvindarár og leggja hana í sæng hjá sér, en þar kemur að því sem mælt er að betra er véltum að vera en öngum að trúa því að þú hefir trúað honum sem sjálfum þér. Má það ekki í einu orði í telja hvern sóma þú hefur honum gert en hann launar því sem hann hefir nægst til, illsku og undirhyggju."

Bessi brosti að og mælti: "Hví segir þú mér þessi tíðindi heldur en öðrum mönnum?"

Nollar svarar: "Því, að eg ætlaði að þér mundi helst undir þykja og umhugað því að það er alþýðurómur að þér þyki hún betri en aðrar konur."

Bessi svarar: "Það hefur jafnt verið mátulega í hóf stillt og þó að Helga væri gefin fóstra mínum þá þætti mér þar fríð kona vel gefin hraustum manni. En þó get eg að honum þyki sér það of lágt fyrir mannvirðingar sakir. En þann einn vinskap hefi eg átt við Helgu að hvortgi hefur spillst fyrir því. Hefi eg af því gefið henni gjafir að faðir hennar hefir gefið mér góða gripi. Nú farðu og seg öðrum þessi tíðindi þín því að eigi deyfist hugur minn við mart."

Nollar svarar: "Satt er það þó að segja að útlifað hafa nú kappar Fljótsdæla er þeir láta eitt sveinsnykri taka af sér konur þar sem þú ert svo ær fyrir henni að þú gáir einskis. Mun eg láta af að segja þér þó að eg verði vís að þú lætur sem þú vitir eigi þó að þér sé sneypa ger. Reynist þá skaplyndi yðart er eigi er við þá um að eiga er yður þykir dælt við. Er og því síður dáð í yður er meir er á yður leitað."

Bessi svarar: "Það veit eg að þér mun fara sem Þorgrími bróður þínum að þú mælir til óhelgi þér ef þú nytir þér eigi betri manna við."

Bessi sprettur þá upp, kvaddi menn til ferðar með sér. Þeir taka hesta Bessa tvo og leggja á söðla. Ríður Bessi og annar maður með honum en tveir ganga hjá. Nollar var hinn fimmti. Þeir fara út eftir ísum. Færð var góð og allkalt og strauk mjög við.

Þau Helgi og Helga sátu á tali mjög til annars litar.

Þá bað Helgi að hún mundi búast "því að langt er út til Eyvindarár en eg vil eigi koma þar um nótt."

Helga litaðist þá um: "Hvort var ekki Nollar hér í morgun á gólfi um hríð?"

Helgi mælti: "Það ætla eg víst að hann væri hér og skjótt hefur hann nú burt horfið."

"Kynlegt þykir mér ef hann þykist eigi vís orðinn nokkra tíðinda. Mun eg hvergi fara daglangt því að eg get hann þangað njósnir farið hafa að mér þætti vel að hann yrði lygimaður af."

Helgi svarar: "Gerðu sem þú vilt en það segi eg þér sem eg mun efna að eigi fer eg eftir þér annan dag."

Helga svarar: "Vel er þó þú ráðir því en hvergi fer eg að sinni."

Helgi gengur þá út og sest í sleða en Grímur fer á bak. Fara þeir nú út eftir ísum. Nú sjá þeir bræður að menn fara sunnan eftir vatni fyrir Nollarsstöðum. Þeir kenna nú mennina.

Nú tekur Nollar til orða: "Bessi, nú máttu sjá hvort eg hefi nokkuð logið til. Þar fara þau nú út eftir ísunum frá Skeggjastöðum. Ríður Grímur fyrir en þau Helga sitja í sleða. Er nú svo að eg tek að þreytast. Vildi eg að þú leyfðir mér að fara heim því að eg á mart að gera en eg er einn til."

Bessi svarar: "Farðu hvert er þú vilt. Ætla eg sjaldan að kveðja þig til ferðar með mér og óþökk skaltu af mér hafa fyrir þessa ferð."

Nollar snýr nú heim til bæjar síns en þeir Bessi fara út eftir ísum mikið tölt.

Þeir bræður fara út undan. Fara hvorutveggju með hinu vestra landinu uns þeir koma fyrir nes það er gengur vestan í Lagarfljót og heitir Meðalnes.

Utan í nesinu stendur bær er heitir á Hreiðarsstöðum. Þar er nú sauðahús. Þar bjó sá maður er Hreiðar hét. Hann var landnámsmaður og vinur mikill Bessa og Droplaugarsona. Hreiðar var hinn besti bóndi og hinn vænsti maður. Heldur var hann nú við aldur og hafði þar búið langa ævi.

Fyrir nesið voru allt vakar. Þar brynnti hirðir nautum sínum. Og er þeir bræður komu að vökinni þá segir Helgi að þeir mundu brynna hesti sínum því að honum var heitt. Þá var mjög hálfrökkvið. Þeir gera svo. Þá mælti Helgi að þeir munu hlaupa upp í skóginn. Þeir bregða hnífum sínum og kvista viðinn. Helgi benti og gerir sýlt í neðan. Þá bindur Helgi á bak hestinum fram við silann og niður undir kvið. Hríslu bindur hann í tagl og leggur upp tauma og mælti að hann skuli fara ofan til Eyvindarár. Hríslunni hrökkvir um kríka hestinum og hleypur hann því harðara ofan eftir ísunum. Þeir bræður hlaupa upp í skóginn. Helgi brýtur sér völur tvær og gerir kvistlausar. Hann hefur þetta í hendi sér.

Nú koma þeir Bessi að vökunum. Og er þeir koma sunnan fyrir nesið þá taka til orða húskarlar Bessa: "Ei veit eg hverju sá hælir er þessa menn segir hughvata þar er þeir renna undan þeim manni er þeim hefur bestur verið alla ævi. Nú ætlum vér aldrei dáð í þessum mönnum."

Bessi mælti: "Þetta er mikil heimska er þið mælið. Get eg heldur að hinn veg beri raun á að þeir verði fám líkir um hríð. Nú vil eg að þið farið heim á bæinn á Hreiðarsstöðum en eg mun ríða eftir þeim bræðrum við annan mann því að eg vænti þess að sá einn verði fundur vor og þeirra bræðra að eg mun ekki mann fjölda við þurfa því að hér hafa hvorugir heiftarhug á öðrum. En þið bíðið mín hér meðan til þess eg kem hér á morgun."

Húskarlar verða þessu fegnir og taka við klæðum sínum, ganga til húss og hlæja allmjög og kváðust aldrei þvílíka menn hafa séð sem þessir eru "er hleypa undan því meira sem meir líður á daginn."

Bessi hrökkvir hestinn út eftir vatninu. Húskarlar gengu að vökunum og lögðust að niður og drukku er þeim var heitt orðið við gönguna, lögðu vopnin niður á fötin þau er þeir höfðu um daginn. Þeir voru í stakki og brókum.

Þá mælti Helgi við Grím bróður sinn: "Hlaupum við nú ofan að þeim og tökum þá og veitum þeim harmkvæli nokkur. Þeir hafa okkur mjög gabbað."

Grímur svarar: "Aldrei geri eg það því við eigum öngum manni betur að launa sem Bessa. Hefur hann okkur metið umfram alla menn aðra."

"Svo skal vera," segir Helgi. "Hans skal að njóta því að hann er vinur minn en hafa skulu þeir nú erindi ellegar en munum svo fyrir sjá að þá saki ekki til lengdar. En vita skulu þeir að við eigum alls kosti við þá."

Nú varð svo að vera sem Helgi vildi. Þeir hlaupa ofan á ísinn. Tekur sinn mann hvor þeirra bræðra. Grímur fékk ekki að þeim gert er hann tók annað en það er hann hélt honum undir sér. Helgi veitir þeim umbúð er hann vélar um svo að hann snarar saman hendur á víxl á kviðnum en hneppir höfuðið aftur á meðal fótanna, skýtur völunni í knésfæturnar, nemur þá við hnakkabeininu. Nú fer hann til með Grími og býr um svo sem hinn fyrra, breiða yfir þá klæðin og ganga svo til bæjar á Hreiðarsstöðum, drepa þar á dyr og biðja Hreiðar út ganga. Hann gerir svo og heilsar þeim vel, býður þeim þar að vera.

"Oft er þess kostur," sagði Helgi, "en við fórum jafnan síð og skulum við heim í kvöld en þó þykist eg enn við þurfa því glófar mínir liggja niður við nautabrunna en nú gengur til hafs og þykir mér dríflegt. Vildi eg að þú tækir upp í kvöld og hafir heim með þér þá er þú brynnir nautum þínum."

Hreiðar var sá einn maður að hann háttaði aldrei fyrr en þriðjungur var af nótt en lá allt til hádegis. Hreiðar gekk inn en þeir bræður gengu suður til Hofs og svo fyrir neðan Skeggjastaði. Þá gerir á veður og tekur að drífa og nú gerir á hið mesta illviður.

Þá snýr Helgi til bæjar á Nollarsstöðum "vil eg ganga með bæjum en eigi eftir ísum því að mér þykir villufært."

Helgi drepur þar á dyr. Þá var liðið dagsetur. Nollar rís upp úr rekkju sinni og steypir á sig stakki og gengur til hurðar og þegar hann lýkur upp hurðinni þá þrífur Helgi í hönd honum og kippir út í illviðrið. Grímur tekur í aðra hönd honum og leiða hann að viðkestinum, fletta stakkinum fram yfir höfuðið. Grímur stendur á fyrir framan höfuðið en Helgi hnykkir einum sviga úr kestinum og hýðir Nollar svo að hvergi var heil húð hans milli hæls og hnakka.

Þá létu þeir hann standa upp og báðu hann fara burt frá þeim "skaltu hafa þetta fyrir hlaup þitt og bíð svo verra."

Þeir fara og snúa nú heimleiðis, koma svo heim er mikið var af nótt. Tekur Droplaug við þeim báðum höndum sem hún var jafnan vön.

Bessi reið um kvöldið til þess er hann kom til Eyvindarár. Nokkru fyrri kom Inni-Krákur. En í þessu kom griðkona úr fjósi og sagði Gróu að Inni-Krákur var kominn heim með undarlegan búning. Gróa gengur út og húskarlar með henni og taka Inni-Krák og beita frá sleðanum, brynna og gefur honum. Síðan leysir hann úr sleðanum rekendina. Þá kemur Bessi í tún. Gróa fagnar honum með blíðu. Bessi þekkist það og spurði hvort þeir væru þar komnir frændur hennar.

Hún segir að það væri eigi "eða hversu stenst af um ferðir þínar?"

Bessi segir alla sögu sem farið hefir. Bessi var þar um nóttina. Veitir Gróa þeim allalvarlega. Gróa biður þeim virkta við og mælti að hann skuli veita þeim vinskap. Bessi segir að svo skuli vera.

Hreiðar sat við fornsögu til þess er liðið var dagsetur. Þá fór hann út og gaf nautum sínum. Eftir það rekur hann þau til brunns. Honum kemur þá í hug hvað Helgi hafði mælt við hann, snýr að vatninu og að vökunum, finnur eigi glófana, sér þar bandhnútu þessa er þar lágu. Leysir hann þá. Eru þeir svo stirðir sem stokkar. Fer Hreiðar heim eftir eyk og ekur þeim heim til bæjar. Hann hjúkar þeim við og hressast þeir vel. Þar voru þeir nóttina.

Og um morguninn býst Bessi heim frá Eyvindará. Gróa gaf honum fingurgull og seilamöttul og mælti til fullkominnar vináttu við Bessa. Ríður hann þar til er hann kemur á Hreiðarsstaði. Hreiðar tók við Bessa forkunnar vel. Sögðu húskarlar hans sínar eigi sléttar.

Bessi hló mjög að, kvað gleðibrögð vera ungra manna "en er víst að þeir hafa sýnt það að þeir hafa alls kosti átt við ykkur en látið mín að njóta er þeir hafa eigi meira að gert við ykkur því að ærnar sakir gerðuð þið til þó að þeir hefðu drepið ykkur. Nú skuluð þið láta vera kyrrt."

"Svo munum við gera," sögðu þeir, fara heim eftir það, fara upp eftir ísunum þar til er þeir koma fyrir Nollarsstaði. Þar sjá þeir Nollar sitja á hyrnishrúku sem hundur og er allhlámáll. Hann biður Bessa að hann mundi rétta málið, slíkar hrakningar sem hann hefur fengið.

Bessi kvað það maklegt þó að hann hefði nokkurt bráðræði fengið "en þó má eg eftir leita þó að þú sért ómaklegur."

Nollar dragnar heim en Bessi ríður þar til er hann kemur á Arneiðarstaði. Þá var í annan lit. Þeir Droplaugarsynir voru í túninu úti og buðu honum þar að liggja og urðu fegnir fóstra sínum er hann var þar kominn. Bessi þekktist það og var hann þar um nóttina. En um morguninn þá ræða þeir margt og flest um þessa hluti er hann hafði farið eftir þeim bræðrum.

"En eg hefi af því gert ferð mína eftir ykkur að eg vil að þið varist það sem eg mun segja ykkur að þið látið eigi vonda menn komast í milli ykkar og mín því að þið munuð ekki þess til taka að eg muni ykkur af hendi gefa meðan þið veitið eigi mér ágang eða Ormsteini syni mínum. En ef ykkur greinir á þá mun eg í jafnan stað leggja. Mun eg með ykkur við hvern sem þið eigið í héraðinu aðra. En við konu þá er þú hefur lagt tal þitt við þá gerðu fyrir mínar sakir. Grandalaust hefir verið okkart vinfengi. Mun eg allt að einu halda vinskap við þau á Skeggjastöðum þó þér gerið af yðru ráði þvílíkt sem yður líkar."

Helgi svarar: "Ei veit eg að þar þurfi um að vanda héðan í frá."

Bessi mælti: "Það vildi eg að þið fengjuð Nollar kvikindi nokkurt fyrir sitt harðrétti er þið hafið honum veitt þó að hann hefði maklegleika til."

Helgi segir að það skuli víst gera fyrir hans orð. Bessi býst heim við sína menn. Helgi gaf Bessa uxa tvo, fimm vetra gamla, gráir báðir, og stóðhest rauðan og var kallaður Heiðarauður og með merar þrjár. Hvorum þeirra húskarla Bessa er þeir höfðu hneppt við vakirnar gaf Helgi, öðrum sverð en öðrum öxi. Skildust þeir vinir. Fór Bessi heim en þeir bræður sátu heima um hríð. Helgi leitar aldrei á þá konu oftar og öngva aðra svo að menn viti. Er það og alþýðu manna sögn að Helgi hafi öngva konu elskað svo að menn viti.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fljótsdæla saga - 13. kafli: 2.847 orð
Tími : 12 mínútur

Fljótsdæla saga: 27.273 orð
Lesin: 10.784 orð
Tími eftir: 66 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...