Maður hét Ásbjörn. Hann var sunnlenskur og þá nýkominn í Fljótsdalshérað. Hann var fæðingi suður í Flóa. Hann fór þaðan austur á Rangárvöllu, þá austur á Síðu og léttir eigi fyrr en hann kemur austur í Fljótsdal. Hann tekur sér þar vist. Ásbjörn var mikill maður vexti, dökkur á hárslit, ljótur í andliti og heldur óþokkulegur. Þó slægði marga menn til að taka við honum því að hann var garðlagsmaður svo mikill að enginn lagði lag við hann. Ásbjörn átti viðnefni og var kallaður vegghamar. Ásbjörn hafði verið fimm vetur í Fljótsdalshéraði er þetta varð til tíðinda og hafði lagið garða um tún manna og svo merkigarða. Ásbjörn var svo mikill meistari á garðlag að það er til marks að þeir garðar standa enn í Austfjörðum er hann hefur reista.
Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög. Hafði Ásbjörn vegghamar verið þar tvo vetur og grætt fé nokkuð en á hinum þriðja vetri gerir hann bú því að hann átti ólétta konu. Átti hann áður nokkur börn. Hann leigir land þar fyrir utan læk það er nú heitir á Hlaupandastöðum en þá að Sauðlæk. Hann var þar ein misseri. Honum varð illt til fjár og varð óhægt búið.
Á þessu sumri gerir Ásbjörn vegghamar heimanferð sína út í Njarðvík á fund Ketils og bað að hann mundi taka við honum til húskarls. Ketill spyr hví hann vill eigi búa lengur. Honum kvað þykja óefnilegt að búa við óhægindi mikil.
Ketill svarar: "Of liðmargur þykir mér þú vera."
Ásbjörn kvaðst ekki fleirum leita vistar en sér einum, lést annað mundu sjá fyrir liði sínu. Ketill spyr hvað hann ætlar að sjá fyrir liðinu.
Hann kvaðst ætla að hlaupa burt frá "og hingað til þín því að eg ætla að mér sé lítill ágangur veittur fyrir ríki þínu. Mun eg konuna láta kjalast við börnin."
Ketill svarar: "Það hafði eg oft ætlað að taka við þér. Mun eg gera þér á kost. Þú skalt gera garð ofan úr fjalli undan hömrum og út í sjó. Þetta skaltu vinna til tveggja missera vistar."
Ásbjörn kvaðst ætla að hann mundi þetta fá fullvel unnið "munum við þessu kaupa en þú skalt sitja fyrir að eigi sé fylgt á hann."
Ketill játar þessu. Síðan gerir hann ferð sína upp yfir heiði, fer eftir rekkjuklæðum sínum en þar hleypur hann frá liðinu og skyldi af því heita á Hlaupandastöðum. Þá tóku þeir á Kóreksstöðum við ómegð hans en misstu landsleigu sinnar við hann og sátu fyrir öllum vandkvæðum.
Ásbjörn tekur til garðlags út í Njarðvík ofan úr fjalli. Hann vinnur mikil verk á um sumarið en ekki hefur hann venjubrigði í skapsmunum því að öllum líkaði illa við hann nema Katli einum.