Fljótsdæla saga - 8. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Gunnar hét maður. Hann var skyldur mjög Njarðvíkingum. Hann bað þeirrar konu er Rannveig er nefnd og var honum heitið konu. Býr hann þá veislu og býður til mörgum mönnum. Þeim Þorvaldi og Droplaugu var og þangað boðið og þeim mönnum er þau vildu og hétu þau ferðinni. Og er að því kom er þau skyldu fara kvaddi Þorvaldur Droplaugu til ferðar með sér.

Hún kvaðst hvergi fara mundu "og svo vildi eg að við gerðum bæði," sagði hún.

Þorvaldur spurði hví hún væri svo hverflynd "þar sem þú hést sem eg."

Hún svarar: "Ekki fer eg að því og bið eg að þú farir hvergi því að mér segir svo hugur um að oss verði lítil sæmd að boði þessu og ráðin er eg að fara alls hvergi en þú munt ráða þínum ferðum þó að eg beiði annars um."

Þorvaldur svarar: "Eigi nenni eg að sýna svo mikla ómerki við frændur mína þar sem við hétum bæði en eg mundi hvergi fara ef eg hefði eigi svo fastlega heitið."

Býr hann nú ferð sína. En hún varð hrygg mjög við það. Þorvaldur fer nú við hinn níunda mann á einum teinæringi. Hann var vopnaður vel.

Hún bað að hann mundi eftir láta sverðið "því að mér segir þungt hugur um þína ferð. Eigi fyrir því, einskis þykir mér vert sverðið hjá þér."

Þorvaldur sagði lítið mark að um hugboð manna "og hefur þú ekki þann veg látið fyrr, en ekki er mér svo mikil elska á sverðinu að eg megi eigi vel af því sjá."

Fer Þorvaldur nú til skips og hún með honum og þykir henni allmikið að skiljast við hann og gengur hún heim en Þorvaldur siglir út eftir vatninu útsynningsveður. Styrmdi svo mjög að Þorvaldur týndist í þessari ferð og þeir allir er með honum voru. En þessi tíðindi spurðust brátt um héraðið og þótti mörgum mikil.

En boðið fór vel fram allt að einu er Gunnar kvongaðist. Þau gerðu bú út í héraði á þeim bæ er á Brandastöðum heitir og bjuggu lengi. Og þegar hin fyrstu misseri áttu þau barn. Það var dóttir og hét Þórdís. Hún var efnileg og vel mennt. En á öðrum misserum áttu þau barn annað. Það var sveinn og var nefndur Þorkell. Þessi börn þóttu bæði efnileg og uxu þar upp, vel efnileg. Þessi voru elst börn þeirra. Mörg áttu þau önnur börn og koma þau ekki við þessa sögu. Þessi börn áttu sér viðnefni og var hann kallaður Þorkell trani en hún Þórdís bestingur.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fljótsdæla saga - 8. kafli: 417 orð
Tími : 2 mínútur

Fljótsdæla saga: 27.273 orð
Lesin: 6.185 orð
Tími eftir: 85 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...