Fóstbræðra saga - 11. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Þormóði þótti jafnan dauflegt er hann var heima með föður sínum. Eftir þingið um sumarið réðst hann til ferðar með húskarla föður síns er þeir skyldu sækja fiska er Bersi átti út í Bulungarvík. Þeir höfðu einn ferjustút er Bersi átti. Þeir sigla gott veður út eftir Ísafirði. Þeir koma út fyrir Arnardal. Þá kom andviðri á móti þeim. Verða þeir sæhafa að Arnardölum. Kasta þeir akkerum fyrir skipinu, fara sjálfir á land upp og reisa tjald, hafast þar við um hríð því að þeim gaf eigi skjótt í brott.

Katla hét kona er bjó í Arnardal. Hún var ekkja. Hana hafði átt maður sá er Glúmur hét. Dóttir hennar hét Þorbjörg. Hún var heima með móður sinni. Þorbjörg var kurteis kona og eigi einkar væn, svart hár og brýn - því var hún kölluð Kolbrún-viturleg í ásjónu og vel litkuð, limuð vel og grannvaxin og útfætt en eigi alllág.

Það barst að einn dag að Þormóður gengur frá tjaldi og upp til bæjar. Koma þeir þar í stofu. Þar var ekki inni manna nema konur einar. Þá heilsar Katla þeim er kominn var og spyr hann að nafni. Þormóður segir til sín. Hún spyr hann hvers son hann væri. Hann segir það sem hún spurði.

Katla mælti: "Heyrt hefi eg getið þín en eigi hefi eg séð þig fyrr en nú."

Þar er Þormóður um daginn og eru konur vel kátar við hann. Þormóður rennir nokkuð augum til dóttur húsfreyju og líst honum vel á hana. Hún hefir og nokkuð augabragð á honum og verður henni hann vel að skapi. Nú er Þormóður þar um daginn og fer síðan heim til tjalds síns um kveldið. Nú venur Þormóður komur sínar til húss Kötlu og sprettur upp af honum einstaka mansöngsvísur og líkar konum það vel þeim er þar voru.

Það var einn dag að Katla mælti: "Hvort áttu Þormóður nokkuð erindi út í Víkina er þú ferð með húskörlum föður þíns?" Þormóður svarar: "Eigi á eg annað erindi en að skemmta mér og þótti mér dauflegt heima."

"Hvort mun þér skemmtilegra þykja að fara með þeim eða vera hér meðan þeir fara eftir skreiðinni og skemmta þér hér? Nú er það heimilt að þú sért hér ef þú vilt það því að oss er mikið gaman að þér."

Þormóður svarar: "Vel fara þér orð og mun eg það þiggja sem þú býður því að mér þykir hér skemmtilegt að vera hjá yður."

Nú fer Þormóður til fundar við förunauta sína og segir þeim að hann mun eftir vera meðan þeir fara út í Víkina eftir fiskunum, biður þá koma þar við dalinn er þeir fara utan, kvaðst þá mundu ganga á skip með þeim. Nú skiljast þeir. Fer Þormóður til bæjarins en þeir fara erinda sinna þegar er þeim gaf veður.

Þormóður var í Arnardal hálfan mánuð. Hann yrkir þá lofkvæði um Þorbjörgu kolbrún. Það kallaði hann Kolbrúnarvísur. Og er kvæðið var ort þá færði hann kvæðið svo að margir menn heyrðu.

Katla dregur fingurgull af hendi sér, mikið og gott, og mælti: "Þetta fingurgull vil eg gefa þér Þormóður að kvæðislaunum og nafnfesti því að eg gef þér það nafn að þú skalt heita Þormóður Kolbrúnarskáld."

Þormóður þakkaði henni gjöfina. Nú festist þetta nafn við Þormóð sem Katla gaf honum. Húskarlar Bersa komu aftur til móts við Þormóð. Stígur hann þá á skip með þeim og þakkar húsfreyju þann fagnað er hún hafði honum veitt. Katla mælti að Þormóður skyldi þar eigi hjá garði sneiða ef farar hans bæri þannig. Skildust að svo mæltu. Fer Þormóður heim á Laugaból og hafðist heima við það er eftir var sumarsins.

Og er vetra tók og ísa lagði þá minntist Þormóður þess vinfengis er honum hafði verið til Þórdísar, dóttur Grímu í Ögri. Gerir hann þá heiman för sína og leggur leið í Ögur. Gríma tók við honum með miklu gleðibragði en Þórdís reigðist nokkuð svo við honum og skaut öxl við Þormóði sem konur eru jafnan vanar þá er þeim líkar eigi allt við karla. Það finnur Þormóður skjótt og sá þó að hún skaut í skjálg augunum stundum og sá nokkuð um öxl til Þormóðar. Kom honum í hug að vera mætti svo að dælla væri að draga ef hálft hleypti, minnir hana á hið forna vinfengi hvert verið hafði.

Þórdís mælti: "Það hefi eg spurt að þú hefir fengið þér nýja unnustu og hafir ort lofkvæði um hana."

Þormóður svarar: "Hver er sú unnusta mín er þú talar til að eg hafi um ort?"

Þórdís svarar: "Sú er Þorbjörg út í Arnardal."

Þormóður svarar: "Engu gegnir það að eg hafi kvæði ort um Þorbjörgu. En hitt er satt að eg orti um þig lofkvæði þá er eg var í Arnardal því að mér kom í hug hversu langt var í milli fríðleiks þíns og Þorbjargar og svo hið sama kurteisi. Er eg nú til þess hér kominn að eg vil nú færa þér kvæðið."

Þormóður kvað nú Kolbrúnarvísur og snýr þeim erindum til lofs við Þórdísi er mest voru á kveðin orð að hann hafði um Þorbjörgu ort. Gefur hann nú Þórdísi kvæðið til heilla sátta og heils hugar hennar og ásta við sig. Og svo sem myrkva dregur upp úr hafi og leiðir af með litlu myrkri og kemur eftir bjart sólskin með blíðu veðri, svo dró kvæðið allan óræktarþokka og myrkva af hug Þórdísar og renndi hugarljós hennar heitu ástar gervalla til Þormóðar með varmri blíðu. Þormóður kemur þá jafnan í Ögur og hefir góðar viðtökur.

Og er svo hafði nokkura hríð fram farið þá verður sá atburður eina nótt þá er Þormóður var heima á Laugabóli að hann dreymir að Þorbjörg kolbrún kemur að honum og spurði hann hvort hann vekti eða svæfi. Hann kvaðst vaka.

Hún mælti: "Þér er svefns en það eitt ber fyrir þig að svo mun eftir ganga sem þetta beri fyrir þig vakanda. Eða hvað er nú, hvort hefir þú gefið annarri konu kvæði það er þú ortir um mig?"

Þormóður svarar: "Eigi er það satt."

Þorbjörg mælti: "Satt er að þú hefir mitt lofkvæði gefið Þórdísi Grímudóttur og snúið þeim erindum er mest voru á kveðin orð að þú hafðir um mig ort kvæðið því að þú þorðir eigi, lítill karl, að segja satt til um hverja konu þú hefðir ort kvæðið. Nú mun eg launa þér því lausung þína og lygi að þú skalt nú taka augnaverk mikinn og strangan svo að bæði augu skulu springa úr höfði þér nema þú lýsir fyrir alþýðu klækisskap þínum þeim er þú tókst frá mér mitt lofkvæði og gefið annarri konu. Muntu aldregi heill verða nema þú fellir niður þær vísur er þú hefir snúið til lofs við Þórdísi en takir þær upp er þú hefir um mig kveðið, og kenna eigi þetta kvæði öðrum en þeim sem ort var í öndverðu."

Þormóði sýndist Þorbjörg vera reiðuleg og mikilúðleg, þykist nú sjá svipinn hennar er hún gengur út. Hann vaknar við það að hann hafði svo mikinn augnaverk að hann mátti varla þola óæpandi og mátti eigi sofa það sem eftir var næturinnar. Hann hvílir lengi um morguninn. Bersi rís upp sem hann átti vanda til. Og er allir menn voru upp risnir aðrir en Þormóður þá kom Bersi til Þormóðar og spurði hvort hann væri sjúkur er hann reis eigi upp sem hann átti vanda til.

Þormóður kvað vísu:

Illa réð eg því er allar
eydraupnis gaf eg meyju,
mér barst dóms í drauma
dís, Kolbrúnar vísur.
Þá tók eg þorna Freyju,
Þrúðr kann mart hin prúða,
líknumk heldr við Hildi
hvítings, á mér víti.

Bersi mælti: "Hvað hefir þér í drauma borið?"

Þormóður segir drauminn og alla málavöxtu kvæðisins.

Bersi mælti: "Óþarfar unnustur áttu, hlaust af annarri örkuml þau er þú verður aldrei heill maður en nú er eigi minni von að bæði augu springi úr höfði þér. En þó er það nú mitt ráð við þig að þú snúir aftur kvæðinu á þann hátt sem það var ort fyrir öndverðu og eigna það kvæði jafnan Þorbjörgu kolbrún sem þú ortir um hana."

Þormóður segir: "Þú skalt ráða þessu."

Nú lýsir hann fyrir alþýðu hversu farið hafði um kvæðið og gefur þá af nýju við mörg vitni Þorbjörgu kvæðið. Þormóði batnaði þá skjótt augnaverkjarins og verður hann þá alheill þess meins.

Nú munum vér hvílast láta fyrst frásögn Þormóðar Kolbrúnarskálds og segja nokkuð af Þorgeiri.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fóstbræðra saga - 11. kafli: 1.386 orð
Tími : 6 mínútur

Fóstbræðra saga: 32.966 orð
Lesin: 11.103 orð
Tími eftir: 88 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...