Síðan um haustið fór Þorgeir til Noregs og var með Ólafi konungi um veturinn í góðri virðingu. Ólafur konungur þakkaði honum það er hann hafði rekið þeirrar sneypu er Þórir hafði gert honum. Illugi Arason var með Ólafi konungi þann vetur.
Um vorið bjó Illugi skip sitt til Íslands. Þorgeir segir Illuga að hann vill fara með honum.
En Illugi svarar honum svo: "Óráðlegt sýnist mér að þú farir út til Íslands. Hefir þú stórvirki gert í mörgum héruðum og áttu þar í flestum stöðum illa fritt. En þú hefir hér mikinn sóma af konungi og góðan frið af öllum mönnum. Nú mun eg eigi flytja þig frá friðinum og til ófriðarins því að þú munt ekki svo gott upp taka á Íslandi sem þú tekur hér hvern dag mikinn sóma af konungi."
"Vera má svo," segir Þorgeir, "að eg komist þó til Íslands að þú flytjir mig eigi."
Nú býr Illugi skip sitt og lætur í haf þá er honum gaf byr. Og er hann var í haf látinn þá gengur Þorgeir einn dag fyrir konung og biður sér fararleyfis.
Ólafur konungur mælti: "Svo virðist mér að minni mannheill hafir þú á Íslandi en hér með oss. Þykir mér fyrir því það vænna að þú sért hér með oss en á Íslandi að þú hafir hér meira gott en þar."
Þorgeir sótti þetta mál mjög við konung. Og er konungur sér að Þorgeiri þótti mikið undir að þiggja það er hann bað þá mælti konungur: "Nú mun að því koma sem eg sagði hinn fyrsta tíma er þú komst á vorn fund að þú mundir eigi vera gæfumaður í öllum hlutum. Nú mun eg lofa þér að þú farir út til Íslands en eigi munum við sjást síðan ef við skiljum nú."
Þorgeir svarar: "Þökk kann eg yður að þér lofið mér að fara. En það ætla eg að fara á yðvarn fund að sumri."
Konungur mælti: "Vera má að svo sé að þú ætlir það en eigi mun svo verða."
Nú skilja þeir að svo mæltu. Þorgeir tók sér fari með þeim norrænum manni er Jökull hét og fór með honum út til Íslands. Það skip kom í Vaðil og fór Þorgeir til vistar á Reykjahóla.
Illuga reiddi lengi úti um sumarið og kom um haustið síð norður í Hraunhöfn á Melrakkasléttu. Hann setti þar upp skipið og bjó um og fær menn til varðveislu skipsins um veturinn, fór við það norðan um héruð og ætlaði heim til Hóla. Gautur Sleituson er fyrr var getið kom til fundar við Illuga er hann fór norðan og tók sér fari með honum að sumri.
Einn dag er Illugi áði hesti sínum með sínu föruneyti kom þar maður einn ríðandi á áifanga. Sá var í hvítri heklu. Hann kvaddi Illuga. Hann tók kveðju hans og spurði hver hann væri.
Hann sagði: "Eg heiti Helgi."
Illugi segir: "Hvaðan ertu kynjaður eða hvar áttu heima?"
Helgi svarar: "Víða stendur kyn mitt fótum en þó er hér flest fyrir norðan land. En hvergi á eg heima og eigi hefi eg heill til þess að hafa tveggja missera vistir en jafnan hefi eg kaup á sumrum og enn hefir svo verið í sumar og margir menn kennast við mig ef heyrir kenningarnafn mitt."
Illugi spurði: "Hvert er það?"
Helgi svarar: "Eg er kallaður Helgi selseista."
Illugi segir: "Fánefnt er það kenningarnafn en þó hefi eg heyrt þín getið."
Helgi mælti: "Það er erindi mitt hingað að eg vil vita ef þú vilt ferja mig utan að sumri."
Illugi mælti: "Eru þér nokkur vandræði á höndum eða hefir þú nokkur fé?"
Hann segir: "Engi eru mér vandræði á höndum en eyvit hefi eg fé. En vera mætti að heldur væri yður létti að mér því að eg er ofléttur maður."
Illugi mælti: "Ertu nokkur atgervimaður?"
Hann segir: "Engi er eg íþróttamaður en mikið traust á eg undir fótum mínum og brjóstheill er eg og því fær engi tekið mig á rás."
Illugi mælti: "Gagn er þeim það er allhræddir verða."
Helgi mælti: "Ekki hefi eg það reynt að verða allhræddur. En vita vil eg hvort þú vilt veita mér farið."
Illugi mælti: "Kom þú í vor til fundar við mig og ver með mér í flutningum þá er eg dreg saman vöru mína og far þá með mér utan."
"Sá kostur líkar mér vel," segir Helgi.
Nú skiljast þeir að svo mæltu og fer Illugi vestur á Reykjahóla og er þar um veturinn.