Fóstbræðra saga - 4. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Nú biður hún taka við klæðum þeirra og var eldur upp kveiktur fyrir þeim og þídd klæði þeirra er frerin voru. Eftir það var þeim matur fenginn og eftir það til rekkju fylgt og búið um vel. Sofna þeir skjótt. Fjúk og frost gekk alla nóttina. Gó elris hundur alla þá nótt óþrotnum kjöftum og tögg allar jarðir með grimmum kuldatönnum. Og er lýsa tók um morguninn þá var út séð og er sá kom inn er út hafði séð þá spyr Þorgeir hvað veðurs væri úti. Sá segir að veður væri hið sama og verið hafði um kveldið.

Sigurfljóð mælti: "Þér þurfið eigi veðursjúkir að vera því að vel skuluð þér hér komnir að því er vér megum og farið þér héðan eigi fyrr en gott veður er."

Þorgeir svarar: "Vel fer þér húsfreyja boð við oss en eigi bíta oss illviðri. Vér eigum hvorki að sjá fyrir konum né börnum né kvikfé."

Illviðri tók þá að lægja á víkur og fjörðu og gerði íslög mikil.

Einn morgun reis Sigurfljóð upp snemma og sá út, kemur inn farandi og spyr Þorgeir hvað veðurs væri úti.

Hún segir: "Nú er gott veður, þunnt og óvindlegt."

Þormóður mælti: "Stöndum upp þá sveinar."

Sigurfljóð mælti: "Hvað ætlist þér fyrir?"

Þormóður svarar: "Vér munum fara norður á Strandir og vita hvað þar vilji til fanga bera en láta hér eftir skip vort."

Sigurfljóð mælti: "Undarlegir menn eruð þér, viljið fara á Strandir að hvölum en taka eigi nálægari föng og drengilegri."

Þormóður mælti: "Hvar eru þau föng?"

Hún segir: "Drengilegra sýnist mér að drepa þá illvirkja er hér ræna menn en starfa að hvölum."

Þormóður mælti: "Til hverra manna mælir þú?"

Hún segir: "Það mæli eg til þeirra Ingólfs og Þorbrands er mörgum manni hafa gert skömm og skaða. Hefðuð þá margra manna hefnt í yðru verki ef þér dræpuð, og mundu það verk margir yður allvel launa."

Þormóður mælti: "Eigi veit eg hversu heilráð þú ert oss nú því að þeir eru vinir Vermundar og mun það eigi laust eftir renna ef þeim er nokkuð til meins gert."

Hún mælti: "Að því kemur nú sem mælt er að spyrja er best til válegra þegna. Þér þykist vera garpar miklir þá er þér eruð í þeim veg að kúga kotunga en hræðist þegar er í mannraunir kemur."

Þá spratt Þorgeir upp og mælti: "Standið upp sveinar og launið húsfreyju gisting."

Og þá stóðu þeir upp og vopnuðu sig, gengu út er þeir voru búnir, fara yfir fjörðinn á ísi, koma á bæinn áður menn voru upp staðnir. Ingólfur vaknar og heyrir að menn ganga úti hjá húsunum eigi allfáir saman, á frernum skóm. Þeir Þorgeir ganga til dyra og drepa á dyr. Við það vakna menn þeir sem í skálanum voru og standa á fætur skjótt. Hvíldu þeir feðgar jafnan í klæðum því að þeir áttu sökótt við marga menn. Þeir höfðu með sér tvo húskarla. Þeir herklæddust allir. Tekur sitt spjót hvor þeirra í hönd sér, ganga til hurðar og lúka upp, sjá mennina úti átta og alla vopnaða, spyrja hver þar sé flokksforingi.

Þorgeir segir til sín "ef þér hafið heyrt getið Þorgeirs Hávarssonar eða Þormóðar Bersasonar þá megið þér hér þá sjá."

Þorbrandur svarar: "Efalaust er það að vér höfum heyrt getið Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar og sjaldan að góðu eða hvert er erindi yðvart hingað?"

Þorgeir svarar: "Það er vort erindi hingað að skapa skor og jafna ójafnað. Vér viljum gera yður tvo kosti. Annaðhvort að þér gangið hér frá fé yðru öllu því er þér hafið ranglega fengið og kaupið yður þann veg líf, eða þér verjið féið með karlmennsku meðan yður endist líf til."

Þorbrandur svarar: "Vér höfum fengið féið með karlmennsku og hraustleik og munum vér eigi annan veg láta en vér höfum fengið en eg hygg Þorgeir að þú neytir fyrr dagverðar á spjóti mínu en á fénu."

Þorgeir segir: "Eg er berdreymur sem eg á kyn til og hefir mig einkar órýrlega dreymt um mig en allrýrlegt um þig og mun það eftir ganga sem mig hefir um þig dreymt og mun Hel, húsfreyja þín, leggja þig sér í faðm og muntu svo láta fé þitt allt því að firnum nýtur þess er firnum fær."
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fóstbræðra saga - 4. kafli: 701 orð
Tími : 3 mínútur

Fóstbræðra saga: 32.966 orð
Lesin: 3.516 orð
Tími eftir: 118 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...