Fóstbræðra saga - 7. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Um vorið eftir fór Þorgeir til Ísafjarðar þangað sem skip þeirra stóð uppi. Þar kom og Þormóður og skipverjar þeirra. Þeir fara norður á Strandir þegar þeim gaf byr.

Þorgils hét maður er bjó að Lækjamóti í Víðidal. Hann var mikill maður og sterkur, vopnfimur, góður búþegn. Hann var skyldur Ásmundi hærulang, föður Grettis. Hann var og skyldur Þorsteini Kuggasyni. Þorgils var Mársson. Hann fór og á Strandir og var genginn á hval þann er kom á Almenningar og förunautar hans.

Þorgeiri verður eigi gott til fangs þar sem hann var kominn. Ber honum engi hvalföng í hendur, þar sem hann var kominn, né önnur gæði.

Nú spyr hann hvar Þorgils var á hvalskurðinum og fara þeir Þormóður þangað. Og er þeir komu þar þá mælti Þorgeir: "Þér hafið mikið að gert um hvalskurðinn og er það vænst að láta fleiri af njóta en yður þessa gagnsmuna. Er hér öllum jafnheimult."

Þorgils svarar: "Vel er það mælt. Hafi hver það sem skorið hefir."

Þorgeir mælti: "Þér hafið mikinn hluta skorið af hvalnum og hafið þér það sem nú hafið þér skorið. Og vildum vér annaðhvort að þér gangið af hvalnum og hafið þér það sem þér hafið af skorið en vér þann hluta er óskorinn er eða hvorir að helmingi bæði skorinn og óskorinn."

Þorgils svarar: "Lítið er mér um að ganga af hvalnum en vér erum ráðnir til að láta eigi lausan þann hlut fyrir yður er skorinn er meðan vér megum á halda á hvalnum."

Þorgeir mælti: "Það munuð þér þá reyna verða hversu lengi þér haldið á hvalnum fyrir oss. "

Þorgils svarar: "Það er og vel að svo sé."

Nú herklæðast hvorirtveggju og bjuggust til bardaga. Og er þeir voru búnir þá mælti Þorgeir: "Það er vænst Þorgils að vér sækjumst því að þú ert fulltíði að aldri og knálegur og reyndur að framgöngu og er mér forvitni á að reyna á þér hver eg er. Skulu aðrir menn ekki til okkars leiks hlutast."

Þorgils segir: "Vel líkar mér að svo sé."

Mjög voru þeir jafnliða. Nú sækjast þeir og berjast hvorirtveggju. Þeir Þorgeir og Þorgils láta skammt höggva í milli því að hvortveggi þeirra var vopnfimur en fyrir því að Þorgeir var þeirra meir lagður til mannskaða þá féll Þorgils fyrir honum. Í þeim bardaga féllu þrír menn af Þorgils liði. Aðrir þrír féllu af liði þeirra Þorgeirs.

Eftir þenna bardaga fóru förunautar Þorgils norður til héraðs með miklum harmi. Þorgeir tók upp allan hvalinn, skorinn og óskorinn. Fyrir víg Þorgils varð Þorgeir sekur skógarmaður. Fyrir hans sekt réð Þorsteinn Kuggason og Ásmundur hærulangur.

Þeir Þorgeir og Þormóður voru það sumar á Ströndum og voru þar allir menn hræddir við þá og gengu þeir einir yfir allt sem lok yfir akra. Svo segja sumir menn að Þorgeir mælti við Þormóð þá er þeir voru í ofsa sínum sem mestum: "Hvar veistu nú aðra tvo menn okkur jafna í hvatleika og karlmennsku þá er jafnmjög séu reyndir í mörgum mannraunum sem við erum?"

Þormóður svarar: "Finnast munu þeir menn ef að er leitað er eigi eru minni kappar en við erum."

Þorgeir mælti: "Hvað ætlar þú hvor okkar mundi af öðrum bera ef við reyndum með okkur?"

Þormóður svarar: "Það veit eg eigi en hitt veit eg að sjá spurning þín mun skilja okkra samvistu og föruneyti svo að við munum eigi löngum ásamt vera."

Þorgeir segir: "Ekki var mér þetta alhugað, að eg vildi að við reyndum með okkur harðfengi."

Þormóður mælti: "Í hug kom þér meðan þú mæltir og munum við skilja félagið."

Þeir gerðu svo og hefir Þorgeir skip en Þormóður lausafé meira og fer á Laugaból. En Þorgeir hafðist við á Ströndum um sumarið og var mörgum manni andvaragestur. Um haustið setti hann upp skip sitt norður á Ströndum og bjó um og stafaði fyrir fé sínu. Síðan fór hann á Reykjahóla til Þorgils og var þar um veturinn. Þormóður víkur á nokkuð í Þorgeirsdrápu á misþokka þeirra í þessu erindi:

Frétt hefr öld að áttum,
undlinns, þá er svik vinna,
rjóðanda naut eg ráða,
rógsmenn saman nóga.
Enn vil eg einskis minnast
æsidýrs við stýri,
raun gat eg fyrða fjóna,
flóðs nema okkars góða.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Fóstbræðra saga - 7. kafli: 693 orð
Tími : 3 mínútur

Fóstbræðra saga: 32.966 orð
Lesin: 6.171 orð
Tími eftir: 108 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...