Skip stóð uppi í Norðurá í Flóa. Þar var þá skipahöfn tíð. Í því skipi keypti Þorgils og Illugi bróðir hans á laun til handa Þorgeiri og létu búa um varnað að þeim hluta er Þorgeir átti í skipinu. Þeir Þorgils og Illugi riðu eigi til öndverðs þings um sumarið því að þeir vildu eigi fyrr fara um Breiðafjarðardali en Þorsteinn Kuggason væri riðinn úr héraði til þings því að þeir vildu þá fylgja Þorgeiri til skips, skógarmanni Þorsteins.
(Úr Flateyjarbók)
([Nú fréttu þeir Þorgísl og Illugi að Þorsteinn var til þings riðinn, ríða nú heiman með sex tigu manna. Þeir voru þar í för fóstbræður Þorgeir og Þormóður. Ríða nú undan flokkarnir. En er þeir fóstbræður riðu inn að á þeirri er heitir Drífandi, hún er í Gilsfirði, þá mælti Þorgeir: "Hvar veistu aðra tvo fóstbræður, þá að okkur séu jafnir að hraustleika og framgöngu?"
Þormóður mælti: "Finnast ætla eg munu ef víða er leitað."
Þorgeir mælti: "Það ætla eg að hvergi finnist á Íslandi. En hvað ætlar þú hvor okkar muni af öðrum bera ef við reynum með okkur?"
"Það veit eg eigi," segir Þormóður, "en hitt veit eg að sjá spurning þín mun skilja félag með okkur og föruneyti."
Í þessu bili ríður Þorgeir fram fyrir hamarinn. Sjórinn var að fallinn svo að hesturinn var nær á sundi undir honum. Og er hann kom fyrir forvaðann þá hleypur hann af baki. Hann sá þá að Þormóður sneri hesti sínum út með firðinum. Þorgeir kallaði þá að Þormóður skyldi ríða fyrir hamarinn.
Þormóður svarar: "Skilja mun með okkur fyrst að sinni og far þú heill og vel."
Eftir það reið Þormóður út aftur með Gilsfirði og létti eigi fyrr ferð sinni en hann kom heim á Laugaból til Bersa föður síns.
Eftir skilnað þenna stígur Þorgeir á hest sinn og ríður eftir flokkinum og er hann kemur í Saurbæ þá var flokkurinn riðinn upp til Svínadals. Þorgeir reið snúðigt mjög.
Sá maður bjó að Máskeldu er Hlenni hét. Sá maður var á vist með honum er Torfi hét. Hann var kallaður böggull. Hann var farinn ofan til árinnar að höggva hrísbyrði á bak sér. Hann hafði lagt hana upp á bak sér en Þorgeir reið neðan eftir bökkunum. Og er Þorgeir kom gegnt honum þá kallaði hann á hann og spurði hvað er hann héti. En Torfi heyrði eigi að hann kallaði á hann í því að veðrinu laust í byrðina. En Þorgeir vildi spyrja að flokkinum og kallaði á hann nokkurum sinnum en Torfi heyrði aldrei. En er Þorgeiri leiddist á hann að kalla reiddist hann við er honum var áður skapþungt. Hann ríður þá yfir ána að Torfa og leggur spjóti í gegnum hann. Torfi var þegar dauður. Þar var síðan kallaður Böggullækur. Þorgeir reið þá leið sína þar til er hann náði þeim Illuga suður í Mjósundi. Segir hann þeim þá víg Torfa. Þeir láta lítt yfir verki þessu.])
Maður hét Skúfur er bjó í Hundadal í Dölum. Skúfur var góður bóndi og gagnsamur við menn. Bjarni hét sonur Skúfs er þar var heima með honum. Skúfur hét og sauðamaður Skúfs í Hundadal.
Nú fara menn til þings en þeir fara vestan af Reykjahólum. Þeir hafa sent menn fyrir til þings að tjalda búðir sínar. Þeir hafa náttverð í Saurbæ en ríða um nóttina vestan í Dali og ætluðu að hafa dagverð í Hundadal. Þeir koma er morgnast í Miðdali, fram fyrir Þykkvaskóga. Þeir eta þar og sofa.
Þorgeir hefir rauðan hest, vænan og reiðgóðan og mikinn vexti. Og er liðinn var miður morgunn þá bjóða förunautar þeirra að taka hesta. Nú rísa þeir upp og fara að hrossum. Hestur Þorgeirs fannst eigi. Þeir fóru að leita hestsins því að þar voru miklir skógar um alla hlíðina. Svo lýkur að hesturinn finnst eigi. Taka þeir þá einn klyfjahest og skipta klyfjum á fleiri hesta. Þorgeiri er þá fenginn sá hestur. Geta þá að líta hvar einn maður ríður rauðum hesti, reiðgóðum, og rekur sauði nokkura fyrir sér upp eftir eyrunum frá Sauðafelli. Hann eltir hart sauðina því að hann hafði skjótan hest. Þorgeiri sýnist þessi hestur vera líkur sínum hesti. Nú lætur hann sem hann viti eigi, hefir af augabragð hvert maðurinn ríður og sér hann hvar maðurinn eltir sauðina til bæjarins í Hundadal. Skúfi höfðu goldnar verið ær nokkurar vestan úr Laxárdal og höfðu þær gengið í brott og fór Bjarni son Skúfs að leita ánna og hafði hann tekið hest Þorgeirs.
Nú ríður flokkurinn til bæjarins í Hundadal og bjóða þeir bræður förunautum sínum að þeir taki af hestum sínum utan garðs og láta eigi hrossin ganga í túnið. En þeir bræður riðu til húss með fá menn. Þorgeir reið til kvíanna þar sem hann þóttist kenna hest sinn. Skúfur er þá heim kominn og rak sauðinn í kvína. Bjarni situr á hestinum og hefir þá rekið ærnar í kvína þær sem hann hafði fundið.
Þorgeir spyr: "Hver er þessi maður er hér situr á hestbaki?"
"Sá heitir Bjarni."
Þorgeir segir: "Þú hefir vænlegan hest eða hver á hestinn?"
Bjarni svarar: "Sannspurt er það að hesturinn er vænlegur en það veit eg eigi hver hann á."
Þorgeir segir: "Fyrir hví tókstu hestinn?"
Bjarni svarar: "Því tók eg hestinn að mér þótti betra að ríða en ganga."
Þorgeir mælti: "Það sýnist mér nú ráð að þú stígir af baki og látir hestinn koma í hendur eiganda."
Bjarni mælti: "Eg mun nú litlu við auka um reiðina því að eg mun eigi lengra ríða en heim til dyra."
Þorgeir mælti: "Það vil eg að þú stígir nú þegar af baki."
Bjarni segir: "Ekki mun hestinn skaða þótt eg ríði heim til húss."
Þorgeir mælti: "Eg vil þessu ráða að þú ríðir eigi lengra að sinni."
Bjarni vill snúa hestinum heim til garðshliðsins og ríða heim til húss en Þorgeir leggur spjótinu til hans og þegar í gegnum svo að hann féll þegar dauður af baki.
Skúfur sauðamaður sá að Bjarni féll af baki. Hann hleypur úr kvíadyrunum þar sem hann var að byrgja kvíadyrnar. Hann tekur exi sína og höggur til Þorgeirs tveim höndum. Þorgeir laust við spjótskafti sínu við högginu og bar af sér en hann hjó til Skúfs hinni hægri hendi með exinni í höfuðið og klauf í herðar niður og dó hann þegar.
Förunautar Þorgeirs fara heim skyndilega og segja höfðingjum tíðindin. Þeim þótti þetta ill tíðindi vera sem þau voru. Fá þeir þegar menn til að fylgja Þorgeiri í brott að hann gengi eigi í augsýn föður hins vegna eða frændum þeirra er vegnir voru. Eftir það sögðu þeir Skúfi tíðindin. Þá sá hann sér engan sóma sýnna en þiggja sjálfdæmi þau er þeir bræður buðu fyrir vígin og fébætur fyrir menn sína að svo göfgum mönnum sem þeir bræður voru, allra helst er sá var sekur er vígin hafði vegið. Nú sættust þeir að svo mæltu.
Þessa víga getur Þormóður í Þorgeirsdrápu:
Kapp lét höldr með heppni,
hríð gerðist þá sverða,
hrátt gat hrafn að slíta
hold, Más syni goldið.
Enn var vogs að vígi
viggríðandi síðan,
kænn bar greipr að gunni
gjarna, Skúfs og Bjarna.
Þeir Þorgils og Illugi átu dögurð í Hundadal og eftir það riðu þeir suður til Borgarfjarðar og fylgdu Þorgeiri til skips.
(Úr Flateyjarbók)
([Þorgeir hafði riðið undan suður og er hann kom til Hvassafells stóðu þar menn úti. Sauðamaður var þá heim kominn frá fé sínu og stóð þar í túninu og studdist fram á staf sinn og talaði við aðra menn. Stafurinn var lágur en maðurinn móður og var hann nokkuð bjúgur, steyldur á hæli og lengdi hálsinn. En er Þorgeir sá það reiddi hann upp öxina og lét detta á hálsinn. Öxin beit vel og fauk af höfuðið og kom víðsfjarri niður. Þorgeir reið síðan í brott en þeim féllust öllum hendur er í túninu höfðu verið.
Litlu síðar komu þeir frændur eftir. Voru þeim þá sögð þessi tíðindi og þótti þeim þetta eigi hafa vel til borið. Er svo sagt að þeir frændur bættu víg þetta fyrir Þorgeir. Riðu þeir síðan til móts við Þorgeir. Hann fagnar þeim vel. Þeir spurðu hví Þorgeir hefði þetta víg vegið eða hvað Þorgeir fyndi til um mann þenna.
Þorgeir svarar: "Eigi hafði hann nokkurar sakar til móts við mig en hitt var satt að eg mátti eigi við bindast er hann stóð svo vel til höggsins."
"Það mun sýnast í því," sagði Þorgísl, "að þú munt óhandlatur reynast en bætt höfum við nú víg þessi."
Síðan ríða þeir allir saman til skipsins.])
Sá maður var til skips kominn er Gautur hét. Hann var son Sleitu. Hann var náinn að frændsemi Þorgilsi Márssyni er Þorgeir hafði vegið. Gautur var mikill vexti og sterkur að afli, ódæll og harðfengur. Hann hafði sér fari tekið af stýrimanni og vissi engvar vonir til þess að Þorgeir ætlaði þar utan að fara. Hann færði brún á nef við komu Þorgeirs og sýndist þeim nakkvað vandræði vera að þeir séu samskipa við það skaplyndi sem hvor þeirra hafði. Skip var albúið og bundinn búlki og vara Gauts komin í búlka.
Nú er Þorgeir heyrði gnadd Austmanna um návistu þeirra Gauts þá mælti hann: "Vel má eg nýta að vera samskipa við Gaut hversu síða brún sem hann setur."
En hvað sem Þorgeir ræddi um samvist þeirra þá var það ráð tekið að brotinn var upp búlkinn og vara Gauts á brott borin. Reið hann þá norður til héraða.
Austmenn leggja skipi sínu ofan eftir ánni og út til Seljaeyrar. Þeir bræður ríða eigi fyrr úr héraði en skipið lét út og í haf. Síðan riðu þeir til þings með miklu fjölmenni og sættust fyrir hönd Þorgeirs á víg Þorgils Márssonar, færa fram sýknu hans.
Þorgeir og hans félaga velkti úti í hafi nokkura hríð, sjá að lyktum land fyrir stafni og kenna Austmenn landið og er það Írland. Sýnist þeim ósýnn friðurinn ef þá rekur þar.
Þorgeir mælti: "Það er sýnna ef vér verjumst vel að vér fáum nokkurum mönnum ærinn náttverð áður vér erum drepnir og er þá hæft nokkuð í vorri vörn."
Nú kasta þeir akkerum eigi allnær landi og brjóta upp vopn sín og búast þeir til bardaga ef þess þyrfti við. Síðan sjá þeir fjölmenni mikið á land upp og mörg spjót sem á skóg sæi. Þó að Írar hefðu háskeft spjót þá tóku þau þó eigi til þeirra. Nú halda þeir fé sínu og fjörvi og sigldu á brott þá er þeim gaf byri. Þeir fóru þaðan til Englands og voru þar um hríð og hefir Þormóður svo um ort að Þorgeir þægi þar góðar gjafir af höfðingjum.
Eftir það fór hann til Danmerkur og fékk þar svo mikla virðing að Danir tignuðu hann nær sem konung að því sem Þormóður hefir um ort.
Síðan fór hann til Noregs og á fund Ólafs konungs hins helga og gengur fyrir hann og kvaddi hann vel. Konungur tók vel kveðju hans og spurði hver hann væri.
Hann svarar: "Eg er íslenskur maður og heiti eg Þorgeir."
Konungur mælti: "Hvort ertu Þorgeir Hávarsson?"
Hann svarar: "Sá er maður hinn sami."
Konungur segir: "Heyrt hefi eg þín getið. Þú ert mikill maður vexti og drengilegur í ásjónu og munt eigi vera í öllu gæfumaður."
Konungur bauð Þorgeiri með sér að vera og þá gerðist hann hirðmaður Ólafs konungs. Konungur lagði mikla virðing á Þorgeir því að hann reyndist í öllum mannraunum hinn röskvasti maður og góður drengur. Þorgeir fór kaupför suður til Vindlands og var þar lítill friður í þenna tíma kaupmönnum norðan úr löndum. Af þessi ferð varð hann ágætur því að hann hafði það af hverjum sem hann vildi. Þorgeir hafðist þá í förum við og var annan vetur jafnan með Ólafi konungi í Noregi en annan á Íslandi, á Reykjahólum. Jafnan kom hann skipi sínu í Borgarfjörð og héldu því í Flóa í Norðurá og setti þar upp á vetrum fyrir vestan ána þar sem nú er kallað Þorgeirshróf. Það er suður frá holti því er Smiðjuholt heitir.
Þorgeir bjó sjö sinnum skip sitt af Íslandi að því er Þormóður segir:
Sex lét Sævar faxa
sviprunnr héðan Gunnar,
snjallr var ár að öllu
undlinns, búinn sinnum.
Sortóttum réð Særir
seims, frá eg það heiman,
oft vann auðar skiptir
erring, í haf knerri.