Hér eftir tekur Þorbjörn við fé öllu því er átt hafði faðir hans og bræður tveir. Hann býr í Súrnadal að Stokkum. Hann biður konu þeirrar er Þóra hét og var Rauðs dóttir úr Friðarey og fékk hennar. Þeirra samfarir voru góðar og eigi langar áður en þau gátu börn að eiga. Dóttir þeirra er nefnd Þórdís og var hún elst barna þeirra. Þorkell hét sonur þeirra hinn elsti, annar Gísli, Ari hinn yngsti og vaxa allir upp heima þar. Fundust eigi fremri menn þar í nánd þeirra jafnaldrar. Ara var fóstur fengið með Styrkári, móðurbróður sínum en þeir Þorkell og Gísli voru heima báðir.
Bárður hét maður; hann bjó þar í Súrnadal; hann var ungur maður og hafði nýtekið við föðurarfi sínum.
Kolbjörn hét maður er bjó á Hellu í Súrnadal; hann var ungur maður og hafði nýtekið við föðurarfi sínum.
Það töluðu sumir menn að Bárður fíflaði Þórdísi Þorbjarnardóttur; hún var bæði væn og vitur. Þorbirni hugnaði það illa og kveðst ætla ef Ari væri heima að þá myndi eigi vel gefast.
Bárður kvað ómæt ómaga orð, "og mun eg fara sem áður." Með þeim Þorkatli var vingott og var hann í bragði með honum en Gísla var óþokkað um tal þeirra sem föður hans.
Það er sagt einn tíma að Gísli ræðst í ferð með þeim Bárði og Þorkatli. Hann fór á miðja vega til Grannaskeiðs, svo heitir þar er Bárður bjó, og þá er minnst von var heggur Gísli Bárð banahögg. Þorkell reiddist og kvað Gísla illa gert hafa en Gísli bað bróður sinn sefast, "og skiptum við sverðum og haf þú það sem betur bítur;" hann brá á glens við hann.
Nú sefast Þorkell og sest niður hjá Bárði en Gísli fer heim og segir föður sínum og líkaði honum vel. Aldrei varð síðan jafnblítt með þeim bræðrum og ekki þá Þorkell vopnaskiptið og eigi vildi hann heima þar vera og fór til Hólmgöngu-Skeggja í eyna Söxu, hann var mjög skyldur Bárði, og var hann þar. Hann eggjar mjög Skeggja að hefna Bárðar, frænda síns, en ganga að eiga Þórdísi, systur sína.
Nú fara þeir til Stokka, tuttugu saman, og er þeir komu á bæinn mælir Skeggi til mægða við Þorbjörn, "en til samfara við Þórdísi, dóttur þína."
En Þorbjörn vildi eigi gifta honum konuna. Það var talað að Kolbjörn væri í þingum við Þórdísi. Þótti Skeggja sem hann ylli er hann gat eigi fengið ráðið og fer til fundar við Kolbjörn og býður honum hólmgöngu í eynni Söxu. Hann kveðst koma mundu og sagðist eigi verður að eiga Þórdísi ef hann þyrði eigi að berjast við Skeggja. Þeir Þorkell og Skeggi fóru heim í Söxu og biðu þar hólmstefnunnar við annan mann og tuttugasta.
Og er liðnar voru þrjár nætur fór Gísli og hittir Kolbjörn og spyr hvort hann er búinn til hólmstefnunnar. Kolbjörn svarar og spyr hvort hann skal það til ráðsins vinna.
"Það skaltu eigi segja," segir Gísli.
Kolbjörn segir: "Svo hyggst mér að eg muni eigi það til vinna að berjast við Skeggja."
Gísli biður hann mæla allra manna armastan, "og þótt þú verðir allur að skömm þá skal eg nú þó fara."
Nú fer Gísli við tólfta mann í eyna Söxu. Skeggi kom til hólmsins og segir upp hólmgöngulög og haslar völl Kolbirni og sér eigi hann þar kominn né þann er gangi á hólminn fyrir hann.
Refur hét maður er var smiður Skeggja. Hann bað að Refur skyldi gera mannlíkan eftir Gísla og Kolbirni, "og skal annar standa aftar en annar og skal níð það standa ávallt þeim til háðungar".
Nú heyrði Gísli í skóginn og svarar: "Annað munu húskarlar þínir vinna þarfara og máttu hér þann sjá er þorir að berjast við þig."
Og ganga þeir á hólm og berjast og heldur skildi hvor fyrir sig. Skeggi hefur sverð það er Gunnlogi hét og heggur með því til Gísla og gall við hátt. Þá mælti Skeggi:
1
Gall Gunnlogi,
gaman vas Söxu.
Gísli hjó í móti með höggspjóti og af sporðinn skildinum og af honum fótinn og mælti:
2
Hrökk hræfrakki
hjók til Skeggja.
Skeggi leysti sig af hólmi og gekk ávallt við tréfót síðan. En Þorkell fór nú heim með Gísla bróður sínum og var nú mjög vel í frændsemi þeirra og þykir Gísli mikið hafa vaxið af þessum málum.