Það bar til tíðinda um sumarið að skip kom út í Dýrafirði og áttu bræður tveir, norrænir menn; hét annar Þórir en annar Þórarinn og voru víkverskir menn að kyni. Þorgrímur reið til skips og keypti fjögur hundruð viðar og gaf sumt verðið þegar í hönd en sumt á frest. Nú setja kaupmenn upp skip sitt í Sandaósi og taka sér síðan vistir.
Oddur er maður nefndur og var Örlygsson; hann bjó á Eyri í Skutulsfirði; hann tók við stýrimönnum. Nú sendir Þorgrímur Þórodd son sinn að bera saman við sinn og telja því að hann ætlaði heim að flytja bráðlega. Og kemur hann til og tekur viðinn og ber saman og þykir þó nokkuð annan veg um kaup þeirra en Þorgrímur hafði frá sagt. Mælti hann þá illa við Austmennina en þeir stóðust það eigi og vinna að honum og vega hann.
Síðan fara Austmenn frá skipi eftir verk þetta. Þeir fara um Dýrafjörð og fá sér hesta og vilja ná til vistar sinnar. Þeir fara dag þann og um nóttina uns þeir koma í dal þann er gengur upp af Skutilsfirði og eta þar dögurð og fara að sofa síðan.
Nú eru Þorgrími sögð tíðindi þessi og býst hann þegar heiman og lætur flytja sig yfir fjörð og fer eftir þeim einn saman. Hann kemur að þeim þar sem þeir lágu og vekur Þórarin, stingur á honum spjótskafti sínu. En hann hleypur upp við og vill taka til sverðs síns því að hann kenndi Þorgrím. En Þorgrímur leggur á honum með spjóti og vegur hann. Nú vaknar Þórir og vill hefna félaga síns. En Þorgrímur leggur hann spjóti í gegnum. Þar heitir nú Dögurðardalur og Austmannafall. Eftir þetta fer Þorgrímur heim og verður nú frægur af ferð þessari. Situr hann nú í búi sínu um veturinn.
En um vorið búa þeir mágar, Þorgrímur og Þorkell, skip þar er Austmennirnir höfðu átt. Austmenn þessir voru óeirðarmenn miklir í Noregi og höfðu átt þar óvært. Nú búa þeir skip þetta og fara utan. Það sumar fara og utan Vésteinn og Gísli í Skeljavík í Steingrímsfirði. Og láta hvorirtveggja í haf. Önundur úr Meðaldal ræður fyrir búi þeirra Þorkels og Gísla en Saka-Steinn fyrir með Þórdísi á Sæbóli.
Og er nú þetta er tíðinda réð Haraldur gráfeldur fyrir Noregi. Þeir Þorgrímur og Þorkell koma norðarlega að við Noreg skipi sínu og hitta konung brátt og ganga fyrir hann og kveðja hann vel. Konungur tók þeim vel og gerðust þeir honum handgengnir og verður þeim gott til fjár og virðingar.
Þeir Gísli og Vésteinn voru úti meir en hundruð dægra og sigla um veturnáttaskeið að Hörðalandi í miklu fjúki og ofviðri um nótt, brjóta skipið í spón en halda fé sínu og mönnum.