Grettis saga - 1. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Önundur hét maður. Hann var Ófeigsson burlufóts Ívarssonar beytils. Önundur var bróðir Guðbjargar, móður Guðbrands kúlu, föður Ástu, móður Ólafs konungs hins helga. Önundur var upplenskur að móðurætt en föðurkyn hans var mest um Rogaland og Hörðaland.

Önundur var víkingur mikill og herjaði vestur um haf. Með honum var í hernaði Bálki Blængsson af Sótanesi og Ormur hinn auðgi. Hallvarður hét hinn þriðji félagi þeirra. Þeir höfðu fimm skip og öll vel skipuð. Þeir herjuðu um Suðureyjar og er þeir komu í Barreyjar var þar fyrir konungur sá er Kjarvalur hét. Hann hafði og fimm skip. Þeir lögðu til bardaga við hann og varð þar hörð hríð. Voru Önundar menn hinir áköfustu. Féll margt af hvorumtveggjum en svo lauk að konungur flýði einskipa. Tóku menn Önundar þar bæði skip og fé mikið og sátu þar veturinn. Þrjú sumur herjuðu þeir um Írland og Skotland. Síðan fóru þeir til Noregs.
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 1. kafli: 149 orð
Tími : 1 mínúta

Grettis saga: 63.185 orð
Tími eftir: 253 mínútur
Leturstærð
Hér er lýsing á kortinu...