Grettis saga - 10. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Önundur var svo frækinn maður að fáir stóðust honum þótt heilir væru. Hann var og nafnkunnigur um allt land af foreldrum sínum.

Þessu næst hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar laxakappa og lauk svo að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfót og reið hann suður um vorið og gisti í Hvammi að Auðar hinnar djúpauðgu. Hún tók allvel við honum því að hann hafði verið með henni fyrir vestan haf.

Þá var Ólafur feilan sonarson hennar fullroskinn. Mjög var Auður þá elligömul. Hún veik á við Önund að hún vildi kvæna Ólaf frænda sinn og vildi að hann bæði Álfdísar hinnar barreysku. Hún var bræðrunga Æsu er Önundur átti. Önundi þótti það vænlegt og reið Ólafur suður með honum.

Og er Önundur hitti vini sína og mága þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og voru lögð til Kjalarnessþings því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lagin í gerð og komu miklar bætur fyrir vígin en Þorbjörn jarlakappi var sekur ger. Hans son var Sölmundur, faðir Sviðu-Kára. Voru þeir frændur lengi utanlands síðan.

Þrándur bauð heim Önundi og þeim Ólafi og svo Þormóður skafti. Fluttu þeir þá bónorðið Ólafs. Var það auðsótt því að menn vissu hver rausnarkona Auður var. Var þessu keypt. Riðu þeir Önundur heim við svo búið. Auður þakkaði Önundi liðveislu við Ólaf.

Þetta haust fékk Ólafur feilan Álfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpauðga sem segir í sögu Laxdæla.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 10. kafli: 259 orð
Tími : 2 mínútur

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 3.943 orð
Tími eftir: 237 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...