Grettis saga - 20. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Eftir jólin býst Þorfinnur til heimferðar og leysti marga með góðum gjöfum burt er hann hafði til sín boðið. Síðan fór hann með sínu föruneyti þar til er hann kemur mjög að naustum sínum. Þeir sjá að skip lá á sandinum og bera brátt kennsli á að það var karfi hans hinn stóri. Ekki hafði Þorfinnur þá spurt til víkinganna.

Hann bað þá flýta sér að landi "því að mig grunar," segir hann, "að hér hafi eigi vinir um vélt."

Þorfinnur gekk fyrst á land sinna manna og þegar að naustinu. Hann sá þar skip standa og kenndi að það var skip berserkja.

Hann mælti þá til sinna manna: "Það grunar mig," segir hann, "að þeir atburðir munu hér orðið hafa að eg vildi gefa til eyna og allt það sem hér stendur saman að eigi hefði orðið."

Þeir spurðu hví svo væri.

Hann mælti þá: "Hér hafa komið þeir víkingar er eg veit versta í öllum Noregi sem eru Þórir þömb og Ögmundur illi. Munu þeir hafa ekki búið heppilega fyrir oss en eg treysti ekki vel Íslendingi."

Talaði hann hér til mart við félaga sína.

Grettir var heima og olli hann því er seint var til strandar gengið. Kvaðst hann eigi hirða þótt bónda blikraði nokkuð til hvað fyrir væri. En húsfreyja bað hann leyfis. Sagði hann að hún skyldi ráða ferðum sínum en hvergi lést hann fara mundu.

Hún gekk skjótt til fundar við Þorfinn og fagnaði honum vel.

Hann varð glaður við það og mælti: "Guð hafi lof fyrir er eg sé þig heila og svo dóttur mína. Eða hversu hefir ykkur til gengið síðan er eg fór heiman?"

Hún segir: "Vel hefir úr ráðist en lá oss við svo mikilli svívirðingu að vér hefðum aldrei bót fengið ef eigi hefði veturtaksmaður þinn hjálpað oss."

Þorfinnur mælti þá: "Nú skal setjast niður en þú seg frá tíðindum."

Hún segir þá greinilega alla atburði sem þar höfðu gerst og lofaði mjög hreysti Grettis og framgöngu.

Þorfinnur þagði á meðan og er hún hafði úti söguna svarar hann svo: "Satt er það mælt er, lengi skal manninn reyna. Eða hvar er Grettir nú?"

Húsfreyja segir: "Hann er heima í stofu."

Síðan gengu þeir heim á bæinn. Þorfinnur gekk til Grettis og hvarf til hans og þakkar honum með fögrum orðum þann drengskap er hann hafði honum sýnt "og það mun eg til þín mæla," segir Þorfinnur, "sem fáir menn mæla til vinar síns að eg vildi að þú þyrftir manna við og vissir þú hvort eg gengi þér fyrir nokkurn mann eða eigi. En aldrei fæ eg launað þér þinn velgerning ef þig stendur engi nauður. En vist þín skal standa hér hjá mér nær sem þú þarft að þiggja og þú skalt fremst haldinn af mínum sveinum."

Grettir bað hann hafa mikla þökk fyrir "og mundi eg þegið hafa þó að þú hefðir fyrr boðið."

Nú sat Grettir þar um veturinn og var í hinum mestum kærleikum við Þorfinn. Varð hann nú og frægur af verki þessu um allan Noreg og þar mest sem þeir höfðu mestar óspektar gert, berserkirnir.

Um vorið spurði Þorfinnur Gretti hvað hann vildi að hafast. Hann kvaðst ætla að fara norður í Voga meðan þar var stefnutími. Þorfinnur kvað honum til reiðu skyldu peninga sem hann vildi. Grettir kvaðst eigi þurfa að sinni peninga meir en til skotsilfurs. Þorfinnur kvað það skylt og fylgdi honum til skips. Þá gaf hann Gretti saxið góða. Það bar Grettir meðan hann lifði og var hin mesta gersemi. Bað Þorfinnur hann til sín fara þegar hann þyrfti liðs við.

Grettir fór nú norður í Voga og var þar allmikið fjölmenni. Fögnuðu þeir margir honum þar vel sem hann höfðu eigi séð fyrr fyrir sakir þess frægðarverks sem hann hafði unnið þá er hann drap víkingana. Buðu honum margir göfgir menn til sín en hann vildi fara aftur til Þorfinns vinar síns. Réðst hann þá í byrðing er átti sá maður er Þorkell hét. Hann bjó í Sálfti á Hálogalandi og var göfugur maður. En er Grettir kom heim til Þorkels tók hann við honum harðla vel og bað Gretti með sér vera um veturinn og lagði til þess mörg orð. Það þekktist Grettir og var með Þorkeli þenna vetur í góðu yfirlæti.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 20. kafli: 706 orð
Tími : 3 mínútur

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 13.522 orð
Tími eftir: 199 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...