Grettis saga - 23. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Það var einn dag er Grettir og Arnbjörn gengu úti um stræti að skemmta sér, og er þeir komu fram fyrir garðshlið nokkuð hljóp maður fram úr garðshliðinu með reidda öxi og hjó til Grettis tveim höndum. Hann varði einskis um þetta og gekk undan seint. Arnbjörn gat séð manninn, þreif til Grettis og hratt honum áfram svo hart að hann féll á kné. Öxin kom á herðarblaðið og renndi undir höndina. Var það mikið sár. Grettir snaraðist við fast, brá saxinu. Hann kenndi að þar var kominn Hjarrandi. Öxin stóð föst í strætinu og varð honum seint að sér að kippa. Og í því hjó Grettir til Hjarranda og kom á höndina uppi við öxl svo af tók. Þá hlupu að fylgdarmenn Hjarranda fimm saman. Sló þá í bardaga með þeim. Urðu skjótt umskipti. Drápu þeir Grettir og Arnbjörn þá fimm er með Hjarranda voru en einn komst undan og sá fór þegar á fund jarls og sagði honum þessi tíðindi.

Jarl varð afar reiður er hann frétti þetta og stefndi þing annan dag eftir. Kom Þorfinnur á þingið.

Bar jarl sakir á hendur Gretti um vígin en hann gekk við og sagðist hann hafa átt hendur sínar að verja.

"Mun eg og hafa merki á mér," sagði Grettir. "Hefði eg bana af fengið ef Arnbjörn hefði eigi borgið mér."

Jarl segir að það var illa er hann var eigi drepinn "mun það verða margs manns bani ef þú lifir."

Þá var til jarls kominn Bersi Skáld-Torfuson, félagi Grettis og vin. Gengu þeir Þorfinnur fyrir jarl og báðu griða til handa Gretti og buðu að jarl skyldi einn dæma um þetta mál þegar Grettir hefir grið og landsvist. Jarl var tregur í öllu sáttmáli en lét þó leiðast eftir bænastað þeirra. Var þá komið á griðum til vors fyrir hönd Grettis en þó vildi jarl eigi sættast fyrr en við væri Gunnar, bróðir þeirra Bjarnar og Hjarranda. Gunnar var garðsbóndi í Túnsbergi.

Um vorið stefndi jarl þeim Gretti og Þorfinni austur til Túnsbergs því að hann ætlaði þar að vera meðan mest aðsigling var austur þar. Fóru þeir þá austur þangað. Var jarl þar fyrir í bænum er þeir komu austur.

Grettir fann þar Þorstein drómund bróður sinn. Tók hann við honum allvel og bauð honum til sín. Þorsteinn var þar garðsbóndi í bænum. Sagði Grettir honum af málum sínum og tók Þorsteinn vel undir en bað hann vera varan um sig fyrir Gunnari. Leið nú svo fram á vorið.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 23. kafli: 411 orð
Tími : 2 mínútur

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 16.088 orð
Tími eftir: 189 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...