Grettis saga - 3. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Þá voru fyrir vestan haf margir ágætir menn þeir sem flúið höfðu óðul sín úr Noregi fyrir Haraldi konungi því að hann gerði alla útlæga, þá sem í móti honum höfðu barist, og tók undir sig eignir þeirra.

Þá er Önundur var gróinn sára sinna fóru þeir frændur tíu í móts við Geirmund heljarskinn, því að hann var þá frægastur af víkingum fyrir vestan haf, og spurðu hvort hann vildi ekki leita aftur til ríkis þess er hann átti á Hörðalandi og buðu honum fylgd sína. Þóttust þeir eiga eftir eignum sínum að sjá því að Önundur var stórættaður og ríkur. Geirmundur kvað þá orðinn svo mikinn styrk Haralds konungs að honum þótti það lítil von að þeir fengju þar sæmdir með hernaði að menn fengu þá ósigur er að var dreginn allur landslýður, og kveðst eigi nenna að gerast konungsþræll og biðja þess er hann átti áður sjálfur, kveðst heldur mundu leita sér annarra forráða. Var hann þá og af æskuskeiði. Fóru þeir Önundur aftur til Suðureyja og hittu þar marga vini sína.

Ófeigur hét maður og var kallaður grettir. Hann var son Einars Ölvissonar barnakarls. Hann var bróðir Óleifs breiðs, föður Þormóðar skafta. Steinólfur var og sonur Ölvis barnakarls, faðir Unu er átti Þorbjörn laxakarl. Steinmóður var enn son Ölvis barnakarls, faðir Konals, föður Álfdísar hinnar barreysku. Son Konals var Steinmóður, faðir Halldóru er átti Eilífur son Ketils hins einhenda. Ófeigur grettir átti Ásnýju Vestarsdóttur Hængssonar. Ásmundur skegglaus og Ásbjörn voru synir Ófeigs grettis en dætur hans voru þær Aldís, Æsa og Ásvör.

Ófeigur hafði stokkið um haf vestur fyrir ófriði Haralds konungs svo og Þormóður skafti frændi hans og höfðu með sér skuldalið sitt. Þeir herjuðu víða fyrir vestan haf.

Þrándur og Önundur tréfótur ætluðu til Írlands vestur á fund Eyvindar austmanns, bróður Þrándar. Hann hafði landvörn fyrir Írlandi. Móðir Eyvindar var Hlíf, dóttir Hrólfs Ingjaldssonar Fróðasonar konungs, en móðir Þrándar var Helga dóttir Öndótts kráku.

Björn var faðir Þrándar og Eyvindar, son Hrólfs frá Ám. Hann stökk úr Gautlandi fyrir það að hann brenndi inni Sigfast, mág Sölva konungs. Síðan hafði hann farið til Noregs um sumarið og var með Grími hersi um veturinn, syni Kolbjarnar sneypis. Hann vildi myrða Björn til fjár. Þaðan fór Björn til Öndótts kráku er bjó í Hvinisfirði á Ögðum. Hann tók vel við Birni og var hann með honum á vetrum en herjaði á sumrum þar til er Hlíf kona hans lést. Eftir það gifti Öndóttur Helgu dóttur sína Birni og lét Björn þá enn af herförum.

Eyvindur hafði þá tekið við herskipum föður síns og var nú orðinn höfðingi mikill fyrir vestan haf. Hann átti Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.

En er þeir Þrándur og Önundur komu í Suðureyjar fundu þeir þá Ófeig gretti og Þormóð skafta og gerðist með þeim vinátta mikil því að hver þóttist annan úr helju heimtan hafa, þann er eftir hafði verið í Noregi meðan ófriður var sem mestur.

Önundur var hljóður mjög. Og er Þrándur fann það spurði hann eftir hvað honum bjó í skapi.

Önundur svaraði og kvað vísu:

Glatt erat mér síð mættum,
mart hremmir til snemma,
oss stóð geigr af gýgi
galdrs, élþrumu, skjaldar.
Hykk að þegnum þykki,
það er mest, koma flestum,
oss til yndis missu
einhlítt, til mín lítið.

Þrándur kvað hann þar mundu þykja röskvan mann sem hann væri "er þér sá til að staðfesta ráð þitt og kvænast. Skal eg og leggja orð mín til og liðsinni ef eg veit hvar þú hefir hug á."

Önundur kvað honum drengilega fara en kvað kvonföngin horft hafa vænna þau er slægur sé til.

Þrándur svarar: "Ófeigur á dóttur er Æsa heitir. Megum við þar til leita ef þú vilt."

Önundur lést það og vilja.

Síðan töluðu þeir þetta við Ófeig. Hann svarar vel og kveðst vita að maður var stórættaður og ríkur að lausafé "en jarðir hans legg eg ódýrt. Þykir mér hann og eigi heill til ganga en dóttir mín er barn að aldri."

Þrándur kvað Önund röskvara en marga þá er heilfættir væru. Og með liðveislu Þrándar var þessu keypt og skyldi Ófeigur gefa dóttur sinni heiman lausafé því að jarðir þær sem í Noregi voru vildu hvorigir fé kaupa.

Litlu síðar fékk Þrándur dóttur Þormóðar skafta. Skyldu þær sitja í festum þrjá vetur. Síðan fóru þeir í hernað á sumrum en voru í Barreyjum á vetrum.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 3. kafli: 720 orð
Tími : 3 mínútur

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 637 orð
Tími eftir: 251 mínúta
Hér er lýsing á kortinu...