Grettis saga - 32. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Þórhallur hét maður er bjó á Þórhallsstöðum í Forsæludal. Forsæludalur er upp af Vatnsdal. Þórhallur var Grímsson, Þórhallarsonar, Friðmundarsonar er nam Forsæludal. Þórhallur átti þá konu er Guðrún hét. Grímur hét son þeirra en Þuríður dóttir er þá var vel á legg komin. Þórhallur var vel auðigur maður og mest að kvikfé svo að engi maður átti jafnmargt ganganda fé sem hann. Ekki var hann höfðingi en þó skilríkur bóndi.

Þar var reimt mjög og fékk hann varla sauðamenn svo að honum þætti duga. Hann leitaði ráðs við marga vitra menn hvað hann skyldi til bragðs taka en engi gat það ráð til gefið er dygði.

Þórhallur reið til þings hvert sumar. Hann átti hesta góða. Það var eitt sumar á alþingi að Þórhallur gekk til búðar Skafta lögmanns Þóroddssonar. Skafti var manna vitrastur og heilráður ef hann var beiddur. Það skildi með þeim feðgum. Þóroddur var forspár og kallaður undirhyggjumaður af sumum mönnum en Skafti lagði það til með hverjum manni sem hann ætlaði að duga skyldi ef eigi væri af því brugðið. Því var hann kallaður beturfeðrungur.

Þórhallur gekk í búð Skafta. Hann fagnaði vel Þórhalli því að hann vissi að hann var ríkur maður að fé og spurði hvað að tíðindum væri.

Þórhallur mælti: "Heilræði vildi eg af yður þiggja."

"Í litlum færum er eg til þess," sagði Skafti, "eða hvað stendur þig?"

Þórhallur mælti: "Það er svo háttað að mér helst lítt á sauðamönnum. Verður þeim heldur klaksárt en sumir gera öngvar lyktir á. Vill nú engi til taka sá er kunnigt er til hvað fyrir býr."

Skafti svarar: "Þar mun liggja meinvættur nokkur er menn eru tregari til að geyma síður þíns fjár en annarra manna. Nú fyrir því að þú hefir að mér ráð sótt þá skal eg fá þér sauðamann þann er Glámur heitir, ættaður úr Svíþjóð úr Sylgsdölum, er út kom í fyrra sumar, mikill er og sterkur og ekki mjög við alþýðuskap."

Þórhallur kvaðst ekki um það gefa ef hann geymdi vel fjárins.

Skafti sagði öðrum eigi vænt horfa ef hann geymdi eigi fyrir afls sakir og áræðis. Þórhalli gekk þá út. Þetta var að þinglausnum.

Þórhalli var vant hesta tveggja ljósbleikra og fór sjálfur að leita. Af því þykjast menn vita að hann var ekki mikilmenni. Hann gekk upp undir Sleðás og suður með fjalli því er Ármannsfell heitir.

Þá sá hann hvar maður fór ofan úr Goðaskógi og bar hrís á hesti. Brátt bar saman fund þeirra. Þórhallur spurði hann að nafni en hann kveðst Glámur heita. Þessi maður var mikill vexti og undarlegur í yfirbragði, bláeygður og opineygður, úlfgrár á hárslit. Þórhalli brá nokkuð í brún er hann sá þenna mann en þó spurði hann og skildi hann að honum mundi til þessa vísað.

"Hvað er þér best hent að vinna?" segir Þórhallur.

Glámur kvað sér vel hent að geyma sauðfjár á vetrum.

"Viltu geyma sauðfjár míns?" segir Þórhallur. "Gaf Skafti þig á mitt vald."

"Svo mun þér hentust mín vist að eg fari sjálfráður því eg er skapstyggur ef mér líkar eigi vel," segir Glámur.

"Ekki mun mér mein að því," segir Þórhallur, "og vil eg að þú farir til mín."

"Gera má eg það," segir Glámur, "eða eru þar nokkur vandhæfi á?"

"Reimt þykir þar vera," segir Þórhallur.

"Ekki hræðist eg flykur þær," sagði Glámur, "og þykir mér að ódauflega."

"Þess muntu við þurfa," segir Þórhallur, "og hentar þar betur að vera eigi alllítill fyrir sér."

Eftir það kaupa þeir saman og skal Glámur koma að veturnóttum. Síðan skildu þeir og fann Þórhallur hesta sína. Þar hafði hann nýleitað. Reið Þórhallur heim og þakkaði Skafta velgerning.

Sumar leið af og frétti Þórhallur ekki til sauðamanns og engi kunni skyn á honum en að ánefndum tíma kom hann á Þórhallsstaði. Tekur bóndi við honum vel en öllum öðrum gast ekki að honum en húsfreyju þó minnst. Hann tók við fjárvarðveislu og varð honum lítið fyrir því. Hann var hljóðmikill og dimmraddaður og fé stökk allt saman þegar hann hóaði. Kirkja var á Þórhallsstöðum. Ekki vildi Glámur til hennar koma. Hann var ósöngvinn og trúlaus, stirfinn og viðskotaillur. Öllum var hann hvimleiður.

Nú leið svo þar til er kemur aðfangadagur jóla. Þá stóð Glámur snemma upp og kallaði til matar síns.

Húsfreyja svaraði: "Ekki er það háttur kristinna manna að matast þenna dag því að á morgun er jóladagur hinn fyrsti," segir hún, "og er því fyrst skylt að fasta í dag."

Hann svarar: "Marga hindurvitni hafið þér þá er eg sé til einskis koma. Veit eg eigi að mönnum fari nú betur að heldur en þá er menn fóru ekki með slíkt. Þótti mér þá betri siður er menn voru heiðnir kallaðir og vil eg mat minn en öngvar refjar."

Húsfreyja mælti: "Víst veit eg að þér mun illa farast í dag ef þú tekur þetta illbrigði til."

Glámur bað hana taka mat í stað, kvað henni annað skyldu vera verra. Hún þorði eigi annað en að gera sem hann vildi. Og er hann var mettur gekk hann út og var heldur gustillur. Veðrið var svo farið að myrkt var um að litast og flögraði úr drífa og gnýmikið og versnaði mikið sem á leið daginn. Heyrðu menn til sauðamanns öndverðan daginn en miður er á leið daginn. Tók þá að fjúka og gerði á hríð um kveldið. Komu menn til tíða og leið svo fram að dagsetri. Ei kom Glámur heim. Var þá um talað hvort hans skyldi eigi leita en fyrir því að hríð var á og niðamyrkur þá varð ekki af leitinni. Kom hann ekki heim jólanóttina. Biðu menn svo fram um tíðir.

Að ærnum degi fóru menn í leitina og fundu féið víða í fönnum, lamið af ofviðri eða hlaupið á fjöll upp. Því næst komu þeir á traðk mikinn ofarlega í dalnum. Þótti þeim því líkt sem þar hefði glímt verið heldur sterklega því að grjótið var víða upp leyst og svo jörðin. Þeir hugðu að vandlega og sáu hvar Glámur lá skammt á burt frá þeim. Hann var dauður og blár sem hel en digur sem naut. Þeim bauð af honum óþekkt mikla og hraus þeim mjög hugur við honum. En þó leituðu þeir við að færa hann til kirkju og gátu ekki komið honum nema á einn gilsþröm þar skammt ofan frá sér og fóru heim við svo búið og sögðu bónda þenna atburð.

Hann spurði hvað Glámi mundi hafa að bana orðið. Þeir kváðust rakið hafa spor svo stór sem keraldsbotni væri niður skellt þaðan frá sem traðkurinn var og upp undir björg þau er þar voru ofarlega í dalnum og fylgdu þar með blóðdrefjar miklar. Það drógu menn saman að sú meinvættur er áður hafði þar verið mundi hafa deytt Glám en hann mundi fengið hafa henni mikinn áverka þann er tekið hafi til fulls því að við þá meinvætti hefir aldrei vart orðið síðan.

Annan dag jóla var farið að leita við enn að færa Glám til kirkju. Voru eykir fyrir beittir og gátu þeir hvergi fært hann þegar sléttlendið var og eigi var forbrekkis að fara. Gengu nú frá við svo búið. Hinn þriðja dag fór prestur með þeim og leituðu allan daginn og Glámur fannst ekki. Ekki vildi prestur oftar til fara en sauðamaður fannst þegar prestur var eigi í ferð. Létu þeir þá fyrir vinnast að færa hann til kirkju og dysjuðu hann þar sem þá var hann kominn.

Litlu síðar urðu menn varir við það að Glámur lá eigi kyrr. Varð mönnum að því mikið mein svo að margir féllu í óvit ef sáu hann en sumir héldu eigi vitinu. Þegar eftir jólin þóttust menn sjá hann heima þar á bænum. Urðu menn ákaflega hræddir. Stukku þá margir menn í burt. Því næst tók Glámur að ríða húsum á nætur svo að lá við brotum. Gekk hann þá nálega nætur og daga. Varla þorðu menn að fara upp í dalinn þó að ættu nóg erindi. Þótti mönnum þar í héraðinu mikið mein að þessu.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 32. kafli: 1.321 orð
Tími : 6 mínútur

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 21.731 orð
Tími eftir: 166 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...