Grettis saga - 40. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Að jólum kom Grettir til þess bónda er Einar hét. Hann var ríkur maður og kvæntur og átti dóttur gjafvaxta er Gýríður er nefnd. Hún var fríð kona og þótti harla góður kostur. Einar bauð Gretti með sér að vera um jólin og það þá hann.

Það var þá víða í Noregi að markarmenn og illvirkjar hlupu ofan af mörkum og skoruðu á menn til kvenna en tóku á burt fé manna með ofríki ef eigi var liðsfjöldi fyrir.

Svo bar hér til að það var einn dag á jólunum að komu til Einars bónda illvirkjar margir saman. Hét sá Snækollur sem fyrir þeim var. Hann var berserkur mikill. Hann skoraði á Einar bónda að hann skyldi leggja upp við hann dóttur sína eða verja hana ef hann þættist maður til. En bóndi var þá af æskuskeiði og engi styrjaldarmaður.

Þótti honum nú mikill vandi að höndum kominn og spurði Gretti í hljóði hvað hann vildi til leggja "því að þú ert kallaður frægur maður."

Grettir bað hann því einu játa er honum þætti sér smánarlaust. Berserkurinn sat á hesti og hafði hjálm á höfði og ekki spennt kinnbjörgunum. Hann hafði skjöld járni rendan fyrir sér og lét hann hið ógurlegasta.

Hann mælti við bónda: "Kjós skjótt annan hvorn kostinn. Eða hvað ræður sá þér hinn mikli hrottinn er þar stendur hjá þér eða er ekki það að hann vilji eiga leik við mig?"

Grettir segir: "Jafnkomið er á með okkur bónda því að hér er hvorgi skefjumaður."

Snækollur mælti: "Heldur mun ykkur ægja við mig að fást ef eg reiðist."

"Þá veit það er reynt er," segir Grettir.

Berserkurinn fann nú undandrátt í málinu. Tók hann þá að grenja hátt og beit í skjaldarröndina og setti skjöldinn upp í munn sér og gein yfir hornið skjaldarins og lét allólmlega. Grettir varpaði sér um völlinn. Og er hann kemur jafnfram hesti berserksins slær hann fæti sínum neðan undir skjaldarsporðinn svo hart að skjöldurinn gekk upp í munninn svo að rifnaði kjafturinn en kjálkarnir hlupu ofan á bringuna. Hann hafði þá allt eitt atriðið að hann þreif í hjálminn vinstri hendi og svipti víkinginum af baki en hægri hendi brá hann saxinu er hann var gyrður með og setti á hálsinn svo af tók höfuðið. En er þetta sáu fylgdarmenn Snækolls flýði sinn veg hver þeirra. Ekki nennti Grettir að elta þá því hann sá að engi var hugur í þeim. Þakkaði bóndi honum vel fyrir þetta verk og margir menn aðrir. Þótti þessi atburður bæði vera af hvatleik og harðfengi unninn.

Var Grettir þar um jólin vel haldinn. Leysti bóndi hann vel af garði. Fór Grettir síðan austur til Túnbergs og hitti Þorstein bróður sinn. Tók hann við Gretti með blíðu og spurði að ferðum hans og að hann vann berserkinn.

Grettir kvað vísu:

Snart á snæðings porti
Snækolls þrimu rækis
ímunbukl, það er ökla
áspyrnu fékk þyrnis.
Svo tvískipti tóptum
tanngarðs hinn járnvarði
brodda gangs, að á bringu,
bálkr, rifnuðu kjálkar.

Þorsteinn mælti: "Slyngt yrði þér um margt frændi ef eigi fylgdu slysin með."

Grettir svarar: "Þess verður þó getið er gert er."
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 40. kafli: 514 orð
Tími : 3 mínútur

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 28.281 orð
Tími eftir: 140 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...