Grettis saga - 45. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Sá maður var með Þorbirni öxnamegin er Áli hét. Hann var húskarl og heldur ógæfur og vinnulítill. Þorbjörn bað hann starfa betur ella kveðst hann mundu lemja hann. Áli kvað þess öngan fýst hafa og var hinn kífnasti í móti. Þorbjörn þoldi honum eigi og rak hann niður undir sig og fór með hann illa.

Eftir það fór Áli brott úr vistinni og fór norður yfir háls til Miðfjarðar. Létti eigi fyrr en hann kom til Bjargs. Atli var heima og spurði hvert hann skyldi fara. Hann kvaðst leita sér vistar.

"Ertu eigi vinnumaður Þorbjarnar?" kvað Atli.

"Ei fór það svo keypilega með okkur," segir Áli. "Eg var þar ekki lengi en mér þótti illt meðan eg var. Skildum við svo að mér þótti hann ekki vel syngja að kverkum mér og mun eg þangað aldrei fara til vistar hvað sem annað verður af mér. Er það og satt að mikill munur er hvorum ykkar verður betur til hjóna sinna. Vildi eg gjarna nú vinna hjá þér ef þess væri kostur."

Atli svarar: "Nóga hefi eg vinnumenn þó að ekki seilist eg í hendur Þorbirni til þeirra manna er hann hefir ráðið en mér þykir þú þollaus og far aftur til hans."

Áli mælti: "Þar kem eg eigi ónauðigur."

Nú dvaldist Áli þar um stund. Einn morgun fór hann til verks með þeim húskörlum Atla og vann svo að hvaðanæva voru á honum hendurnar. Lét Áli svo ganga fram á sumarið. Atli lagði ekki til hans en lét þó gefa honum mat því að honum líkaði starfinn vel.

Þorbjörn fréttir nú að Áli er á Bjargi. Hann reið þá til Bjargs við þriðja mann og kallaði Atla til tals við sig. Atli gekk út og heilsaði þeim.

Þorbjörn mælti: "Enn viltu endurnýja við mig Atli um mótgang og áleitni. Eða því hefir þú tekið vinnumann minn og er slíkt óskilríkilega gert?"

Atli svarar: "Ekki er mér það sýnt að hann sé þinn vinnumaður. En ekki vil eg á honum halda ef þú sýnir skilríki til að hann sé þitt hjón. En ekki nenni eg draga hann úr húsum út."

"Þú munt ráða að sinni," sagði Þorbjörn, "en kref eg mannsins og fyrirbýð eg vinnu hans. En koma mun eg annað sinn og er eigi víst að við skiljumst þá betri vinir en nú."

Atli svarar: "Heima mun eg bíða og taka við því sem að höndum kemur."

Síðan reið Þorbjörn heim. En er verkmenn komu heim um kveldið segir Atli þá viðurtal þeirra Þorbjarnar og bað Ála fara leið sína og sagðist ekki vildu dvelja vist hans.

Áli svarar: "Satt er hið fornkveðna, ofleyfingarnir bregðast mér mest. Og ætlaði eg það eigi að þú mundir nú reka mig á brottu þar sem eg hefi unnið hér til sprengs í sumar og vonað til þess að þú mundir mér nokkura forstöðu veita en þann veg farið þér þó að þér látið allgóðvættlega. Nú skal mig hér lemja fyrir augum þér ef þú vilt mér öngva forstöðu veita eða hjálp."

Atla gekkst hugur við um tal hans og nennti nú eigi að reka hann á brottu frá sér. Leið nú þar til er menn tóku til sláttar.

Það var einn dag nokkuru fyrir miðsumar að Þorbjörn öxnamegin reið til Bjargs. Hann var svo búinn að hann hafði hjálm á höfði og gyrður við sverð og spjót í hendi. Það var fjaðraspjót og breið mjög fjöðurin. Væta var úti um daginn. Atli hafði sent húskarla sína til sláttar en menn hans sumir voru norður við Horn til afla. Atli var heima og fáir menn aðrir.

Þorbjörn kom þar nær hádegi um daginn. Hann var einn í ferð og reið að útidyrum. Aftur var hurð en öngvir menn úti. Þorbjörn drap á dyr og fór síðan á bak húsum svo að mátti ekki sjá hann frá dyrunum heiman. Menn heyrðu að barið var og gekk út kona ein. Þorbjörn hafði svip af konunni og lét ekki sjá sig því að hann ætlaði annað að vinna. Hún kom í stofu. Atli spurði hvað komið var. Hún kvaðst ekki hafa séð komið úti. Og er þau töluðu þetta þá laust Þorbjörn mikið högg á dyrnar.

Þá mælti Atli: "Mig vill sjá finna og mun hann eiga erindið við mig hversu þarft sem er."

Gekk hann þá fram og út í dyrnar. Hann sá öngvan úti. Væta var úti mikil og því gekk hann eigi út og hélt sinni hendi í hvorn dyrastafinn og litast svo um.

Í því bili snaraði Þorbjörn fram fyrir dyrnar og lagði tveim höndum til Atla með spjótinu á honum miðjum svo stóð í gegnum hann.

Atli mælti við er hann fékk lagið: "Þau tíðkast hin breiðu spjótin," segir hann.

Síðan féll hann fram á þröskuldinn. Þá komu fram konur er í stofunni höfðu verið. Þær sáu að Atli var dauður. Þá var Þorbjörn á bak kominn og lýsti víginu á hendur sér og reið heim eftir það.

Ásdís húsfreyja sendir eftir mönnum og var búið um lík Atla og var hann jarðaður hjá föður sínum.

Hann var mjög harmdauður því hann hafði verið bæði vitur og vinsæll. Engi komu fram fégjöld fyrir víg Atla enda beiddist engi bóta því að Grettir átti eftirmálið ef hann kæmi út. Stóðu þessi mál kyrr um sumarið. Varð Þorbjörn lítt þokkaður af þessu verki og sat þó um kyrrt í búi sínu.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 45. kafli: 887 orð
Tími : 4 mínútur

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 30.181 orð
Tími eftir: 133 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...