Grettis saga - 5. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Annað sumar bjuggust þeir að fara vestur til Írlands. Þá réðust þeir Bálki og Hallvarður vestan um haf og fóru út til Íslands því að þaðan voru sagðir landskostir góðir. Bálki nam land í Hrútafirði. Hann bjó á Bálkastöðum hvorumtveggjum. Hallvarður nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga og bjó þar.

Þeir Þrándur og Önundur komu á fund Eyvindar austmanns og tók hann vel við bróður sínum. En er hann vissi að Önundur var þar kominn þá varð hann reiður og vildi veita honum atgöngu. Þrándur bað hann eigi það gera, kvað það eigi standa að gera ófrið norrænum mönnum, allra síst þeim er með öngri óspekt fara. Eyvindur kvað hann farið hafa fyrr og gert ófrið Kjarval konungi, sagði hann nú þess skyldu gjalda. Áttu þeir bræður lengi um þetta að tala allt þar til er Þrándur kvað eitt skyldu ganga yfir þá Önund báða. Lét þá Eyvindur sefast. Dvöldust þeir þar lengi um sumarið og fóru þeir með Eyvindi í herfarir. Þótti honum Önundur hinn mesti hreystimaður. Fóru þeir til Suðureyja um haustið. Gaf Eyvindur Þrándi arf allan eftir föður þeirra ef Björn andaðist fyrr en Þrándur. Voru þeir nú í Suðureyjum þar til er þeir kvæntust og nokkura vetur síðan.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Grettis saga - 5. kafli: 202 orð
Tími : 1 mínúta

Grettis saga: 63.185 orð
Lesin: 1.973 orð
Tími eftir: 245 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...