Þenna tíma réð fyrir Noregi Eiríkur jarl Hákonarson og Sveinn bróðir hans. Eiríkur jarl hafði þá aðsetu inn á Hlöðum að föðurleifð sinni og var ríkur höfðingi. Skúli Þorsteinsson var þá með jarli og var hirðmaður hans og vel metinn.
Það er frá sagt að þeir Gunnlaugur og Auðun festargramur gengu tólf menn saman inn á Hlaðir. Gunnlaugur var svo búinn að hann var í grám kyrtli og í hvítum leistbrókum. Sull hafði hann á fæti niðri á ristinni. Freyddi úr upp blóð og vogur er hann gekk við. Og með þeim búningi gekk hann fyrir jarlinn og þeir Auðun og kvöddu hann vel. Jarl kenndi Auðun og spyr hann tíðinda af Íslandi en Auðun sagði slík sem voru.
Jarl spyr Gunnlaug hver hann væri en hann sagði honum nafn sitt og ætt.
Jarl mælti: "Skúli Þorsteinsson," segir hann, "hvað manna er þessi á Íslandi?"
"Herra," segir hann, "takið honum vel. Hann er hins besta manns son á Íslandi, Illuga svarta af Gilsbakka, og fóstbróðir minn."
Jarl mælti: "Hvað er fæti þínum Íslendingur?"
"Sullur er á herra," sagði hann.
"Og gekkst þú þó ekki haltur?"
Gunnlaugur svarar: "Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir."
Þá mælti hirðmaður jarls er Þórir hér: "Þessi rembist mikið, Íslendingurinn, og væri vel að vér freistuðum hans nokkuð."
Gunnlaugur leit við honum og mælti:
Hirðmaðr er einn,
sá er einkar meinn
Trúið honum vart,
hann er illr og svartr.
Þá vildi Þórir grípa til exar.
Jarl mælti: "Lát vera kyrrt," segir hann, "ekki skulu menn gefa að slíku gaum. Eða hve gamall maður ertu Íslendingur?"
Gunnlaugur svarar: "Eg em nú átján vetra," segir hann.
"Það læt eg um mælt," segir jarl, "að þú verðir ei annarra átján."
Gunnlaugur mælti og heldur lágt: "Bið mér öngra forbæna," segir hann, "en bið þér heldur."
Jarl mælti: "Hvað sagðir þú nú Íslendingur?"
Gunnlaugur svarar: "Svo sem mér þótti vera eiga að þú bæðir mér öngra forbæna en bæðir sjálfum þér hallkvæmri bæna."
"Hverra þá?" segir jarl.
"Að þú fengir ei þvílíkan dauðdaga sem Hákon jarl faðir þinn."
Jarl setti svo rauðan sem blóð og bað taka fól þetta skjótt.
Þá gekk Skúli fyrir jarl og mælti: "Gerið fyrir mín orð herra og gefið manninum grið og fari hann á brott sem skjótast."
Jarl mælti: "Verði hann á brottu sem skjótast ef hann vill griðin hafa og komi aldrei í mitt ríki síðan."
Þá gekk Skúli út með Gunnlaugi og ofan á bryggjur. Þar var Englandsfar albúið til útláts. Og þá tók Skúli Gunnlaugi far og Þorkatli frænda hans. En Gunnlaugur fékk Auðuni skip sitt til varðveislu og fé sitt það er hann hafði ei með sér.
Nú sigla þeir Gunnlaugur í Englandshaf og komu um haustið suður við Lundúnabryggjur og réðu þar til hlunns skipi sínu.