Hrafnkels Saga Freysgoða - 10. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Og nú gengu þeir Sámur og Þorbjörn og koma í búðina. Sváfu þar menn allir. Þeir sjá brátt, hvar Þorgeir lá. Þorbjörn karl gekk fyrir og fór mjög rasandi. En er hann kom að húðfatinu, þá féll hann á fótafjölina og þrífur í tána, þá er vanmátta var, og hnykkir að sér, en Þorgeir vaknar við og hljóp upp í húðfatinu og spurði, hver þar færi svo hrapallega, að hlypi á fætur mönnum, er áður voru vanmátta. En þeim Sámi varð ekki að orði.

Þá snaraði Þorkell inn í búðina og mælti til Þorgeirs, bróður síns: "Ver eigi svo bráður né óður, frændi, um þetta, því að þig mun ekki saka. En mörgum tekst verr en vill, og verður það mörgum, að þá fá eigi alls gætt jafnvel, er honum er mikið í skapi. En það er vorkunn, frændi, að þér sé sár fótur þinn, er mikið mein hefir í verið. Muntu þess mest á þér kenna. Nú má og það vera, að gömlum manni sé eigi ósárari sonardauði sinn, en fá engar bætur, og skorti hvervetna sjálfur. Mun hann þess gerst kenna á sér, og er það að vonum, að sá maður gæti eigi alls vel, er mikið býr í skapi."

Þorgeir segir: "Ekki hugði eg, að hann mætti mig þessa kunna, því að eigi drap eg son hans, og má hann af því eigi á mér þessu hefna."

"Eigi vildi hann á þér þessu hefna," segir Þorkell, "en fór hann að þér harðara en hann vildi, og galt hann óskyggnleika síns, en vænti sér af þér nokkurs trausts. Er það nú drengskapur að veita gömlum manni og þurftugum. Er honum þetta nauðsyn, en eigi seiling, þó að hann mæli eftir son sinn, en nú ganga allir höðingjar undan liðveislu við þessa menn og sýna í því mikinn ódrengskap."

Þorgeir mælti: "Við hvern eiga þessir menn að kæra?"

Þorkell svaraði: "Hrafnkell goði hefir vegið son hans Þorbjarnar saklausan. Vinnur hann hvert óverk að öðru, en vill engum manni sóma unna fyrir."

Þorgeir mælti: "Svo mun mér fara sem öðrum, að eg veit eigi mig þessum mönnum svo eiga gott upp að inna, að eg vilji gagna í deilur við Hrafnkel. Þykir mér hann einn veg fara hvert sumar við þá menn, sem málum eiga að skipta við hann, að flestir menn fá litla virðing eða öngva, áður lúki, og sé eg þar fara einn veg öllum. Get eg af því flesta menn ófusa til, þá sem engi nauðsyn dregur til."

Þorkell segir: "Það má vera, að svo færi mér að, ef eg væri höfðingi, að mér þætti illt að deila við Hrafnkel, en eigi sýnist mér svo, fyrir því að mér þætti við þann best að eiga, er allir hrekjast fyrir áður; og þætti mér mikið vaxa mín virðing eða þess höfðingja, er á Hrafnkel gæti nokkra vík róið, en minnkast ekki, þó að mér færi sem öðrum, fyrir því að má mér það, sem yfir margan gengur. Hefir sá og jafnan, er hættir."

"Sé eg," segir Þorgeir, "hversu þér er gefið, að þú vilt veita þessum mönnum. Nú mun eg selja þér í hendur goðorð mitt og mannaforráð, og haf þú það, sem eg hefi haft áður, en þaðan af höfum við jöfnuð af báðir, og veittu þá þeim, er þú vilt."

"Svo sýnist mér," segir Þorkell, "sem þá muni goðorð vort best komið, er þú hafir sem lengst. Ann eg öngum svo vel sem þér að hafa, því að þú hefir marga hluti til menntar um fram alla oss bræður, en eg óráðinn, hvað er eg vil af mér gera að bragði. En þú veist, frændi, að eg hefi til fás hlutast, síðan eg kom til Íslands. Má eg nú sjá, hvað mín ráð eru. Nú hefi eg flutt sem eg mun að sinni. Kann vera, að Þorkell leppur komi þar, að orð hans verði meiri metin."

Þorgeir segir: "Sé eg nú , hversu horfir, frændi, að þér mislíkar, en eg má það eigi vita, og munum við fylgja þessum mönnum, hversu sem fer, ef þú vilt."

Þorkell mælti: "Þessa eins bið eg, að mér þykir betur, að veitt sé."

"Til hvers þykjast þessir menn færir," segir Þorgeir, "svo að framkvæmd verði að þeirra máli?"

"Svo er sem eg sagði í dag, að styrk þurfum við af höfðingjum, en málaflutning á eg undir mér."

Þorgeir kvað honum þá gott að duga, - "og er nú það til að búa mál til sem réttlegast. En mér þykir sem Þorkell vilji, að þið vitjið hans, áður dómar fara út. Munuð þið þá hafa annað hvort fyrir ykkart þrá, nokkra huggan eða læging enn meiri en áður og hrelling og skapraun. Gangið nú heim og verið kátir, af því að þess munuð þið við þurfa, af þið skuluð deila við Hrafnkel, að þið berið ykkur vel upp um hríð, en segið þið engum manni, að við höfum liðveislu heitið ykkur."

Þá gengu þeir heim til búðar sinnar; voru þá ölteitir. Menn undruðust þetta allir, hví þeir hefðu svo skjótt skapskipti tekið, þar sem þeir voru óglaðir, er þeir fóru heiman.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Hrafnkels Saga Freysgoða - 10. kafli: 840 orð
Tími : 4 mínútur

Hrafnkels Saga Freysgoða: 9.124 orð
Lesin: 4.020 orð
Tími eftir: 21 mínúta
Hér er lýsing á kortinu...