Hrafnkels Saga Freysgoða - 11. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Nú sitja þeir, þar til er dómar fara út. Þá kveður Sámur upp menn sína og gengur til Lögbergs. Var þar þá dómur settur. Sámur gekk þá djarflega að dóminum. Hann hefur þegar upp vottnefnu og sótti mál sitt að réttum landslögum á hendur Hrafnkeli goða, miskviðalaust með skörulegum flutningi. Þessu næst koma þeir Þjóstarssynir með mikla sveit manna. Allir menn vestan af landi veittu þeim lið, og sýndist það, að Þjóstarssynir voru menn vinsælir.

Sámur sótti málið í dóm, þangað til er Hrafnkeli var boðið til varnar, nema sá maður væri þar við staddur, er lögvörn vildi frammi hafa fyrir hann að réttu lögmáli. Rómur varð mikill að máli Sáms; kvaðst engi vilja lögvörn fram vera fyrir Hrafnkel.

Menn hlupu til búðar Hrafnkels og sögðu honum, hvað um var að vera. Hann veikst við skjótt og kvaddi upp menn sína og gekk til dóma, hugði, að þar myndi lítil vörn fyrir landi. Hafði hann það í hug sér að leiða smámönnum að sækja mál á hendur honum. Ætlaði hann að hleypa upp dóminum fyrir Sámi og hrekja hann af málinu. En þess var nú eigi kostur. Þar var fyrir sá mannfjöldi, að Hrafnkell komst hvergi nær. Var honum þröngt frá í brott með miklu ofríki, svo að hann náði eigi að heyra mál þeirra, er hann sóttu. Var honum því óhægt að færa lögvörn fram fyrir sig. En Sámur sótti málið til fullra laga, til þess er Hrafnkell var alsekur á þessu þingi.

Hrafnkell gengur þegar til búðar og lætur taka hesta sína og ríður á brott af þingi og undi illa við sínar málalyktir, því að hann átti aldrei fyrr slíkar. Ríður hann þá austur Lyngdalsheiði og svo austur á Síðu, og eigi léttir hann fyrr en heima í Hrafnkelsdal og sest á Aðalból og lét sem ekki hefði í orðið.

En Sámur var á þingi og gekk mjög uppstertur. Mörgum mönnum þykir vel, þó að þann veg hafi að borist, að Hrafnkell hafi hneykju farið, og minnast nú, að hann hefir mörgum ójafnað sýnt.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Hrafnkels Saga Freysgoða - 11. kafli: 337 orð
Tími : 2 mínútur

Hrafnkels Saga Freysgoða: 9.124 orð
Lesin: 4.860 orð
Tími eftir: 18 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...