Hrafnkell færði nú bú sitt austur yfir Fljótsdalsheiði og um þveran Fljótsdal fyrir austan Lagarfljót. Við vatnsbotninn stóð einn lítill bær, sem hét að Lokhillu. Þetta land keypti Hrafnkell í skuld, því að eigi var kosturinn meiri en þurfti til búshluta hafa. Á þetta lögðu menn mikla umræðu, hversu hans ofsi hafði niður fallið, og minnist nú margur á fornan orðskvið, að skömm er óhófs ævi. Þetta var skógland mikið og mikið merkjum, vont að húsum, og fyrir það efni keypti hann landið litlu verði. En Hrafnkell sá ekki mjög í kostnað og felldi mörkina, því að hún var stór, og reisti þar reisilegan bæ, þann er síðan hét á Hrafnkelsstöðum. Hefir það síðan verið kallaður jafnan góður bær. Bjó Hrafnkell þar við mikil óhægindi hin fyrstu misseri. Hann hafði mikinn aðdrátt af fiskinum. Hrafnkell gekk mjög að verkum, meðan bær var í smíði. Hrafnkell dró á vetur kálf og kið hin fyrstu misseri, og hann hélt vel, svo að nær lifði hvertvetna það, er til ábyrgðar var. Mátti svo að kveða, að nálega væri tvö höfuð á hverju kvikindi.
Á því sama sumri lagðist veiður mikill í Lagarfljót. Af slíku gerðist mönnum búshægindi í héraðinu, og það hélst vel hvert sumar.