Hrafnkell spurði austur í Fljótsdal, að Þjóstarssynir höfðu týnt Freyfaxa og brennt hofið. Þá svarar Hrafnkell:
"Eg hygg það hégóma að trúa á goð," - og sagðist hann þaðan af aldrei skyldu á goð trúa, og það efndi hann síðan, að hann blótaði aldrei.
Hrafnkell sat á Hrafnkelsstöðum og rakaði fé saman. Hann fékk brátt miklar virðingar í héraðinu. Vildi svo hver sitja og standa sem hann vildi.
Í þenna tíma komu sem mest skip af Noregi til Íslands. Námu menn þá sem mest land í héraðinu um Hrafnkels daga. Engi náði með frjálsu að sitja, nema Hrafnkel bæði orlofs. Þá urðu og allir honum að heita sínu liðsinni. Hann hét og sínu trausti. Lagði hann land undir sig allt fyrir austan Lagarfljót. Þessi þinghá varð brátt miklu meiri og fjölmennari en sú, er hann hafði áður haft. Hún gekk upp um Skriðudal og upp allt með Lagarfljóti. Var nú skipan á komin á land hans. Maðurinn var miklu vinsælli en áður; hafði hann hina sömu skapsmuni um gagnsemd og risnu, en miklu var maðurinn nú vinsælli og gæfari og hægari en fyrr að öllu. Oft fundust þeir Sámur og Hrafnkell á mannamótum, og minntust þeir aldrei á sín viðskipti. Leið svo fram sex vetur.
Sámur var vinsæll af sínum þingmönnum, því að hann var hægur og kyrr og góður úrlausna og minntist á það, er þeir bræður höfðu ráðið honum. Sámur var skartsmaður mikill.