Hrafnkels Saga Freysgoða - 17. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Þess er getið, að skip kom af hafi í Reyðarfjörð, og var stýrimaður Eyvindur Bjarnason. Hann hafði utan verið sjö vetur. Eyvindur hafði mikið við gengist um menntir og var orðinn hinn vaskasti maður. Eru honum sögð brátt þau tíðindi, er gerst höfðu, og lét hann sér um það fátt finnast. Hann var fáskiptinn maður.

Og þegar Sámur spyr þetta, þá ríður hann til skips. Verður nú mikill fagnafundur með þeim bræðrum. Sámur býður honum vestur þangað, en Eyvindur tekur því vel og biður Sám ríða heim fyrir, en senda hesta á móti varningi hans. Hann setur upp skip sitt og býr um.

Sámur gerir svo, fer heim og lætur reka hesta á móti Eyvindi. Og er hann hefur búið svo um varnað sinn, býr hann ferð sína til Hrafnkelsdals, fer upp eftir Reyðarfirði. Þeir voru fimm saman; hinn sjötti var skósveinn Eyvindar. Sá var íslenskur að kyni, skyldur honum. Þenna svein hafði Eyvindur tekið af volaði og flutt utan með sér og haldið sem sjálfan sig. Þetta bragð Eyvindar var uppi haft, og var það alþýðu rómur að færri væri hans líkar.

Þeir ríða upp Þórisdalsheiði og ráku fyrir sér sextán klyfjaða hesta. Voru þar húskarlar Sáms tveir, en þrír farmenn. Voru þeir og allir í litklæðum og riðu við fagra skjöldu. Þeir riðu um þveran Skriðudal og yfir háls yfir til Fljótsdals, þar sem heita Bulungarvellir, og ofan á Gilsáreyri. Hún gengur austan að fljótinu milli Hallormsstaða og Hrafnkelsstaða. Ríða þeir upp með Lagarfljóti fyrir neðan völl á Hrafnkelsstöðum og svo fyrir vatnsbotninn og yfir Jökulsá að Skálavaði. Þá var jafnnær rismálum og dagmálum.

Kona ein var við vatnið og þó léreft sín. Hún sér ferð manna. Griðkona sjá sópar saman léreftunum og hleypur heim. Hún kastar þeim niður úti hjá viðarkesti, en hleypur inn. Hrafnkell var þá eigi upp staðinn, og nokkrir vildarmenn lágu í skálanum, en verkmenn voru til íðnar farnir. Þetta var um heyjaannir.

Konan tók til orða, er hún kom inn: "Satt er flest það, er fornkveðið er, að svo ergist hver sem eldist. Verður sú lítil virðing, sem snemma leggst á, ef maður lætur síðan sjálfur af með ósóma og hefir eigi traust til að reka þess réttar nokkurt sinni, og eru slík mikil undur um þann mann, sem hraustur hefir verið. Nú er annan veg þeirra lífi, er upp vaxa með föður sínum og þykja yður einskis háttar hjá yður, en þá er þeir eru frumvaxta, fara land af landi og þykja þar mestháttar, sem þá koma þeir; koma við það út og þykjast þá höfðingjum meiri. Eyvindur Bjarnason reið hér yfir á að Skálavaði með svo fagran skjöld, að ljómaði af. Er hann svo menntur, að hefnd væri í honum."

Lætur griðkonan ganga af kappi.

Hrafnkell rís upp og svarar henni: "Kann vera, að þú mælir helst margt satt - eigi fyrir því að þér gangi gott til. Er nú vel, að þér aukist erfiði. Far þú hart suður á Víðivöllu eftir Hallsteinssonum, Sighvati og Snorra. Bið þá skjótt til mín koma með þá menn, sem þar eru vopnfærir."

Aðra griðkonu sendir hann út á Hrólfsstaði eftir þeim Hrólfssonum, Þórði og Halla, og þeim, sem þar voru vopnfærir. Þessir hvorirtveggju voru gildir menn og allvel menntir. Hrafnkell sendi og eftir húskörlum sínum. Þeir uðru alls átján saman. Þeir vopnuðust harðfengilega; ríða þar yfir á sem hinir fyrri.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Hrafnkels Saga Freysgoða - 17. kafli: 556 orð
Tími : 3 mínútur

Hrafnkels Saga Freysgoða: 9.124 orð
Lesin: 7.040 orð
Tími eftir: 9 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...