Hrafnkels Saga Freysgoða - 19. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Sámur fer þá með allan varnaðinn heim á Aðalból. Og er hann kemur heim, sendir Sámur eftir þingmönnum sínum, að þeir skyldi koma þar um morguninn fyrir dagmál. Ætlar hann þá austur yfir heiði. "Verður ferð vor slík sem má." Um kveldið fer Sámur í hvílu, og var þar drjúgt komið manna.

Hrafnkell reið heim og sagði tíðindi þessi. Hann etur mat, og eftir það safnar hann mönnum að sér, svo að hann fær sjö tigu manna, og ríður við þetta vestur yfir heiði og kemur á óvart til Aðalbóls, tekur Sám í rekkju og leiðir hann út. Hrafnkell mælti þá:

"Nú er svo komið kosti þínum, Sámur, að þér mundi ólíklegt þykja fyrir stundu, að eg á nú vald á lífi þínu. Skal eg nú eigi vera þér verri drengur en þú varst mér. Mun eg bjóða þér tvo kosti: að vera drepinn - hinn er annar, að eg skal einn skera og skapa okkar í milli."

Sámur kvaðst heldur kjósa að lifa, en kvaðst þó hyggja, að hvortveggi mundi harður.

Hrafnkell kvað hann það ætla mega, - "því að vér eigum þér það að launa, og skyldi eg hálfu betur við þig gera, ef þess væri vert. Þú skalt fara brott af Aðalbóli ofan til Leikskála, og sest þar í bú þitt. Skaltu hafa með þér auðæfi þau, sem Eyvindur hafði átt. Þú skalt ekki héðan fleira hafa í fémunum utan það, er þú hefir hingað haft. Það skaltu allt í brott hafa. Eg vil taka við goðorði mínu, svo og við búi og staðfestu. Sé eg, að mikill ávöxtur hefir á orðið á gósi mínu, og skaltu ekki þess njóta. Fyrir Eyvind, bróður þinn, skulu öngvar bætur koma, fyrir því að þú mæltir herfilega eftir hinn fyrra frænda þinn, og hafið þér ærnar bætur þó eftir Einar, frænda yðvarn, þar er þú hefir haft ríki og fé sex vetur. En eigi þykir mér meira vert dráp Eyvindar og manna hans en meiðsl við mig og minna manna. Þú gerðir mig sveitarrækan, en eg læt mér líka, að þú sitjir á Leikskálum, og mun það duga, ef þú ofsar þér eigi til vansa. Minn undirmaður skaltu vera, meðan við lifum báðir. Máttu og til þess ætla, að þú munt því verr fara, sem við eigumst fleira illt við."

Sámur fer nú í brott með lið sitt ofan til Leikskála og sest þar í bú sitt.

Nú skipar Hrafnkell á Aðalbóli búi sínum mönnum. Þóri, son sinn, setur hann á Hrafnkelsstaði. Hefir nú goðorð yfir öllum sveitum. Ásbjörn var með föður sínum, því að hann var yngri.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Hrafnkels Saga Freysgoða - 19. kafli: 428 orð
Tími : 2 mínútur

Hrafnkels Saga Freysgoða: 9.124 orð
Lesin: 8.298 orð
Tími eftir: 4 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...