Sámur sat á Leikskálum þenna vetur. Hann var hljóður og fáskiptinn. Fundu margir það, að hann undi lítt við sinn hlut. En um veturinn, er daga lengdi, fór Sámur við annan mann - og hafði þrjá hesta - yfir brú og þaðan yfir Möðrudalsheiði og svo yfir Jökulsá uppi á fjalli, svo til Mývatns, þaðan yfir Fljótsheiði og Ljósavatnsskarð og létti eigi fyrri en hann kom vestur í Þorskafjörð. Er þar tekið vel við honum. Þá var Þorkell nýkominn út úr för. Hann hafði verið utan fjóra vetur.
Sámur var þar viku og hvíldi sig. Síðan segir hann þeim viðskipti þeirra Hrafnkels og beiðir þá bræður ásjá og liðsinnis enn sem fyrr. Þorgeir hafði meir svör fyrir þeim bræðrum í það sinni, kvaðst fjarri sitja, - "er langt á milli vor. Þóttumst vér allvel í hendur þér búa, áður vér gengum frá, svo að þér hefði hægt verið að halda. Hefir það farið eftir því, sem eg ætlaði, þá er þú gafst Hrafnkeli líf, að þess mundir þú mest iðrast. Fýstum við þig, að þú skyldir Hrafnkel af lífi taka, en þú vildir ráða. Er það nú auðséð, hver viskumunur ykkar hefir orðið, er hann lét þig sitja í friði og leitaði þar fyrst á, er hann gat þann af ráðið, er honum þótti þér vera meiri maður. Megum við ekki hafa að þessu gæfuleysi þitt. Er okkur og ekki svo mikil fýst að deila við Hrafnkel, að við nennum að leggja þar við virðing okkra oftar. En bjóða viljum við þér hingað með skuldalið þitt allt undir okkarn áraburð, ef þér þykir hér skapraunarminna en í nánd Hrafnkeli."
Sámur kveðst ekki því nenna, segist vilja heim aftur og bað þá skipta hestum við sig. Var það þegar til reiðu. Þeir bræður vildu gefa Sámi góðar gjafir, en hann vildi öngvar þiggja og sagði þá vera litla í skapi. Reið Sámur heim við svo búið og bjó þar til elli. Fékk hann aldrei uppreist móti Hrafnkeli, meðan hann lifði.
En Hrafnkell sat í búi sínu og hélt virðingu sinni. Hann varð sóttdauður, og er haugur hans í Hrafnkelsdal út frá Aðalbóli. Var lagt í haug hjá honum mikið fé, herklæði hans öll og spjót hans hið góða. Synir hans tóku við mannaforráði. Þórir bjó á Hrafnkelsstöðum, en Ásbjörn á Aðalbóli. Báðir áttu þeir goðorðið saman og þóttu miklir menn fyrir sér. Og lýkur þar frá Hrafnkeli að segja.