Hrafnkell fer í rekkju sína um kvöldið og svaf af um nóttina. En um morguninn lét hann taka sér hest og leggja á söðul og ríður upp til sels. Hann ríður í bláum klæðum. Öxi hafði hann í hendi, en ekki fleira vopna.
Þá hafði Einar nýrekið fé í kvíar. Hann lá á kvíagarðinum og taldi fé, en konur voru að mjólka. Þau heilsuðu honum. Hann spurði, hversu þeim færi að. Einar svarar:
"Illa hefir mér að farið, því að vant varð þriggja tiga ásauðar nær viku, en nú er fundinn."
Hann kvaðst ekki að slíku telja. "Eða hefir ekki verr að farið? Hefir það og ekki svo oft til borið sem von hefir að verið, að fjárins hafi vant verið. En hefir þú ekki nokkuð riðið Freyfaxa mínum hinn fyrra dag?"
Hann kvaðst eigi þræta þess mega.
Hrafnkell svarar: "Fyrir hví reiðstu þessu hrossi, er þér var bannað, þar er hin voru nóg til, er þér var lofað? Þar mundi eg hafa gefið þér upp eina sök, ef eg hefði eigi svo mikið um mælt; en þó hefir þú vel við gengið." En við þann átrúnað, að ekki verði að þeim mönnum, er heitstrengingar fella á sig, þá hljóp hann af baki til hans og hjó hann banahögg.
Eftir það ríður hann heim við svo búið á Aðalból og segir þessi tíðindi. Síðan lét hann fara annan mann til smala í selið. En hann lét færa Einar vestur á hallinn frá selinu og reisti vörðu hjá dysinni. Þetta er kölluð Einarsvarða, og er þaðan haldinn miður aftann frá selinu.