Hrafnkels Saga Freysgoða - 9. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Það var einn morgun snemma, að Þorbjörn karl vaknar. Hann vekur Sám og bað hann upp standa - "má eg ekki sofa."

Sámur stendur upp og fer í klæði sín. Þeir ganga út og ofan að Öxará fyrir neðan brúna. Þar þvo þeir sér. Þorbjörn mælti við Sám:

"Það er ráð mitt, að þú látir reka að hesta vora, og búumst heim. Er nú séð, að oss vill ekki annað en svívirðing."

Sámur svarar: "Það er vel, af því að þú vildir ekki annað en deila við Hrafnkel og vildir eigi þá kosti þiggja, er margur mundi gjarna þegið hafa, sá er eftir sinn náunga átti að sjá. Frýðir þú oss mjög hugar og öllum þeim, er í þetta mál vildu eigi ganga með þér. Skal eg og nú aldrei fyrr af láta en mér þykir fyrir von komið, að eg geti nokkuð að gert."

Þá fær Þorbirni svo mjög, að hann grætur.

Þá sjá þeir vestan að ánni, hóti neðar en þeir sátu, hvar fimm menn gengu saman frá einni búð. Sá var hár maður og ekki þreklegur, er fyrstur gekk, í laufgrænum kyrtli og hafði búið sverð í hendi, réttleitur maður og rauðlitaður og vel í yfirbragði, ljósjarpur á hár og mjög hærður. Sá maður var auðkennilegur, því að hann hafði ljósan lepp í hári sínu hinum vinstra megin.

Sámur mælti: "Stöndum upp og göngum vestur yfir ána til móts við þessa menn."

Þeir ganga nú ofan með ánni, og sá maður, sem fyrir gekk, heilsar þeim fyrri og spyr, hverjir þeir væri. Þeir sögðu til sín. Sámur spurði þenna mann að nafni, en hann nefndist Þorkell og kvaðst vera Þjóstarsson. Sámur spurði, hvar hann væri ættaður eða hvar hann ætti heima. Hann kvaðst vera vestfirskur að kyni og uppruna, en eiga heima í Þorskafirði.

Sámur mælti: "Hvort ertu goðorðsmaður?"

Hann kvað það fjarri fara.

"Ertu þá bóndi?" sagði Sámur.

Hann kvaðst eigi það vera.

Sámur mælti: "Hvað manna ertu þá?"

Hann svarar: "Eg er einn einhleypingur. Kom eg út í fyrra vetur; hefi eg verið utan sjö vetur og farið út í Miklagarð, en er handgenginn Garðskonunginum. En nú er eg á vist með bróður mínum, þeim er Þorgeir heitir."

"Er hann goðorðsmaður?" segir Sámur.

Þorkell svarar: "Goðorðsmaður er hann víst um Þorskafjörð og víðara um Vestfjörðu."

"Er hann hér á þinginu?" segir Sámur.

"Hér er hann víst."

"Hversu margmennur er hann?"

"Hann er við sjö tigu manna," segir Þorkell.

"Eru þér fleiri, bræðurnir?" segir Sámur.

"Er hinn þriðji," segir Þorkell.

"Hver er sá?" segir Sámur.

"Hann heitir Þormóður," segir Þorkell, "og býr í Görðum á Álftanesi. Hann á Þórdísi, dóttur Þórólfs Skall- Grímssonar frá Borg."

"Viltu nokkurt liðsinni okkur veita?" segir Sámur.

"Hvers þurfið þið við?" segir Þorkell.

"Liðsinnis og afla höfðingja," segir Sámur, "því að við eigum málum að skipta við Hrafnkel goða um víg Einars Þorbjarnarsonar, en við megum vel hlíta okkrum flutningi með þínu fulltingi."

Þorkell svarar: "Svo er sem eg sagði, að eg er engi goðorðsmaður."

"Hví ertu svo afskipta ger, þar sem þú ert höfðingjason sem aðrir bræður þínir?"

Þorkell sagði: "Eigi sagði eg þér það, að eg ætti það eigi, en eg seldi í hendur Þorgeiri, bróður mínum, mannaforráð mitt, áður en eg fór utan. Síðan hefi eg eigi við tekið, fyrir því að mér þykir vel komið, meðan hann varðveitir. Gangið þið á fund hans; biðjið hann ásjá. Hann er skörungur í skapi og drengur góður og í alla staði vel menntur, ungur maður og metnaðargjarn. Eru slíkir menn vænstir til að veita ykkur liðsinni."

Sámur segir: "Af honum munum við ekki fá, nema þú sért í flutningi með okkur."

Þorkell segir: "Því mun eg heita að vera heldur með ykkur en móti, með því að mér þykir ærin nauðsyn til að mæla eftir náskyldan mann. Farið þið nú fyrir til búðarinnar, og gangið inn í búðina. Er mannfólk í svefni. Þið munuð sjá, hvar standa innar um þvera búðina tvö húðföt, og reis eg upp úr öðru, en í öðru hvílir Þorgeir, bróðir minn. Hann hefir haft kveisu mikla í fætinum, síðan hann kom á þingið, og því hefir hann lítið sofið um nætur. En nú sprakk fóturinn í nótt, og er úr kveisunaglinn. En nú hefir hann sofnað síðan og hefir réttan fótinn út undan fötunum fram á fótafjölina sakir ofurhita, er á er fætinum. Gangi sá hinn gamli maður fyrir og svo innar eftir búðinni. Mér sýnist hann mjög hrymdur bæði að sýn og elli. Þá er þú, maður," segir Þorkell, "kemur að húðfatinu, skaltu rasa mjög og falla á fótafjölina og tak í tána þá, er um er bundið, og hnykk að þér og vit, hversu hann verður við."

Sámur mælti: "Heilráður muntu okkur vera, en eigi sýnist mér þetta ráðlegt."

Þorkell svarar: "Annaðhvort verðið þið að gera, að hafa það, sem eg legg til, eða leita ekki ráða til mín."

Sámur mælti og segir: "Svo skal gera sem hann gefur ráð til."

Þorkell kvaðst ganga mundu síðar, - "því að eg bíð manna minna."
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Hrafnkels Saga Freysgoða - 9. kafli: 831 orð
Tími : 4 mínútur

Hrafnkels Saga Freysgoða: 9.124 orð
Lesin: 3.189 orð
Tími eftir: 24 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...