Kjalnesinga saga - 11. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
En er sumra tók ræddust þau Búi við og Esja.

"Vil eg nú," sagði hún, "að þú liggir eigi hér lengur heldur skaltu fara norður til Hrútafjarðar. Þar hefir skip uppi staðið í vetur á Borðeyri. Þar skaltu utan fara og freista hvað þar liggi fyrir þér. Eg gerist nú gömul og mun eg eiga fá vetur ólifað."

Þessu næst bjó hún ferð hans og fékk honum mann til fylgdar og þrjá hesta. Ólöf skyldi fara heim í Kollafjörð og bíða hans um þrjá vetur. Búi fór með fjalli inn, þegar hann var búinn, sem leið liggur. Esja fóstra hans fór á leið með honum og þótti mikið fyrir að skilja við hann.

Síðan reið Búi leið sína og er hann kom inn fyrir Blikdalsá fann hann þar smalamann úr Saurbæ. Hann spurði hverjir þessir menn væru. Búi sagði honum allt hið sanna. Og þegar þeir voru skildir og leiti bar á millum þeirra tók sauðamaður á rás heim og sagði þeim bræðrum allt um ferðir Búa. Þeir þökkuðu honum sitt starf. Létu þeir þegar taka hesta og kölluðu með sér heimamenn sína. Vopnuðust þeir skjótt og urðu saman tólf menn. Riðu þeir mikið.

Búi sá eigi eftirreiðina fyrr en hann kom ofan hjá Skeiðhlíð. Hann reið þá þar til er hóll sá varð fyrir honum er síðan heitir Orustuhóll. Þar nam Búi staðar og bað förunaut sinn geyma hesta þeirra og gagna. Búi gekk upp á hólinn og bar upp grjót að sér. Hann hafði öll góð vopn og skyrtu þá er fóstra hans hafði gefið honum. Þá bræður bar brátt að. Hlupu þeir þegar af hestum sínum og veittu Búa atsókn harða. Búi varðist drengilega. Lét hann ganga grjót í fyrstu. Var það jafnsnemma að fallnir voru fjórir menn af þeim bræðrum enda hafði Búi þá lokið grjótinu. Hann tók þá skjöld sinn og sverð. Þeir bræður sóttu að með miklu kappi því að þeir voru báðir hugprúðir. Féllu þá enn tveir förunautar þeirra. Voru þeir bræður þá sárir og allir þeirra menn. Búi var þá enn ósár en ákaflega vígmóður. Í því bili kom til Eilífur bóndi úr Eilífsdal við hinn sétta mann og gekk á millum þeirra. Og með því að þeir bræður voru sárir, Helgi og Vakur, þá gáfu þeir upp. Eilífur bað Búa fara leið sína og svo gerði hann. Eilífur lét jarða dauða menn en lét binda sár hinna. Eftir það fóru þeir bræður heim í Saurbæ og undu illa sinni ferð.

Búi létti eigi fyrr sinni ferð en hann kom norður í Hrútafjörð. Tók hann sér þar fari og er þeir voru búnir sigldu þeir á haf.

Þeir bræður Helgi og Vakur tóku sér fari um sumarið í Kollafirði og fóru utan báðir. Þeir tóku Noreg og fóru til hirðar Haralds konungs hins hárfagra. Voru þeir með konungi um veturinn og þokkuðust hverjum manni vel. Þeir sögðu konungi frá skiptum þeirra Búa. Lét konungur illa yfir því er Búi hafði brennt hofið og kallaði það níðingsverk.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Kjalnesinga saga - 11. kafli: 494 orð
Tími : 2 mínútur

Kjalnesinga saga: 11.004 orð
Lesin: 5.616 orð
Tími eftir: 22 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...