Nú er að segja frá Búa. Þeim byrjaði seint og tóku Orkneyjar um haustið síðarla. Þá réð eyjunum Einar jarl Rögnvaldsson. Búi fór til hirðar jarls og gekk fyrir hann og kvaddi hann. Jarl spurði hver hann væri.
Búi sagði af hið ljósasta "og vildi eg þiggja veturvist með yður herra."
Jarl segir: "Fylgd góð mun í þér. Skaltu víst vera með oss í vetur ef þú vilt."
Búi var með hirð jarlsins um veturinn. Einar jarl hafði starfsamt um veturinn. Var Búi hinn öruggasti í öllum mannraunum. En um vorið er skip það bjóst til Noregs er Búi hafði þangað á farið þá gekk Búi fyrir jarl og bað hann orlofs.
Jarl segir: "Hitt þykir mér ráðlegra Búi að þú dveljist með oss. Höfum vér þig að röskum manni reynt. Munum vér leiða þig í hirðlög og láta þig taka þar með aðrar sæmdir ef þú vilt hér vera."
Búi þakkaði jarli með fögrum orðum en kveðst vilja til Noregs. Jarl kvað svo vera skyldu. Eftir það sigldu þeir til Noregs og komu að norðarlega. Spurðu þeir að Haraldur konungur sat í Þrándheimi. Fór Búi til Þrándheims á einum byrðingi. Og er hann kom til Steinkera þá gekk hann fyrir konung er hann sat yfir borðum og kvaddi hann vel. Konungur spurði hver sá væri hinn mikli maður. Búi sagði til allt hið sanna. Konungur spurði hvar hann hefði verið um veturinn.
Búi sagði honum "og er eg því hér kominn herra," sagði hann, "að eg vil bjóða yður mína þjónustu."
Konungur mælti: "Muntu nokkuð eiga hér vel kvæmt?"
Búi kveðst það eigi vita. Konungur bað kalla til sín Helga og Vakur.
Og er þeir komu fyrir konung mælti hann: "Kennið þið nokkuð þenna hinn mikla mann?"
"Já," sögðu þeir, "það mundi hann reyna ef þér væruð eigi svo nær og gjarna biðjum við yður að þér gefið okkur orlof til að hefna á honum harma okkarra."
Konungur mælti: "Á öngum manni níðist eg þeim er gengur á mitt vald. Sé eg ykkur öngan ágóða þótt þér reynið með yður jafnbúnum. En af því Búi að þú vannst það níðingsverk að þú brenndir inni goð vor er öllum mönnum hæfir að tigna, þar fyrir skyldi eg hafa látið drepa þig ef þú hefðir eigi á vort vald gengið. En nú skaltu leysa höfuð þitt með einni sendiferð. Þú skalt sækja tafl til Dofra fóstra míns og færa mér."
Búi mælti: "Hvert skal eg þá fara?"
Konungur mælti: "Hygg þú sjálfur fyrir því."
Búi mælti: "Það munu margir mæla herra að þetta sé forsending en þó mun eg undir játast. Vil eg þá að þér festið mér grið þar til er eg kann aftur að koma."
Konungur kvað svo vera skyldu.
Búi fór þá braut úr bænum og var um sumarið inn í Þrándheimi. Hann fréttist þá fyrir um örnefni. Var honum þá sagt hvar Dofrafjall var.