Kjalnesinga saga - 15. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Gekk Búi leið sína og létti eigi fyrr en hann kom til Rauðs. Tók hann vel við honum og spurði að ferðum hans en Búi sagði af hið sanna.

Rauður mælti: "Mikla gæfu hefir þú borið til um þína för. En svo muntu eiga við að búast að eigi mun Haraldur konungur þessu einu við þig hlíta því að nú mun hann etja á þig því trölli er eg veit mest í Noregi. En það er blámaður sá er mörgum manni hefir að bana orðið. Nú vil eg gefa þér fangastakk þann er þú skalt þá hafa. Vænti eg þá að þú munir eigi allmjög kenna hvar sem hann leggur að þér krummur sínar því að hann brýtur bein í flestum ef hann deyðir eigi."

Búi þakkaði Rauð sinn velgerning. Dvaldist hann þar nokkurar nætur, fór síðan ofan í Þrándheim. Spurði hann þá til konungs að hann var að Steinkerum. Sem Búi kom þar gekk hann á konungs fund og kvaddi hann.

Konungur leit við honum og mælti: "Ertu þar Búi? Hversu tók Dofri þér?"

"Já herra," sagði Búi, "yðar naut eg að því að vel fór Dofra til mín."

Konungur mælti: "Varstu með Dofra í vetur eða fékkstu taflið?"

"Já herra," sagði Búi, "fékk eg tafl."

Konungur mælti: "Kom til mín á morgun með það.

Búi kvað svo vera skyldu.

Um daginn eftir kom Búi fyrir konung er hann sat yfir drykkjuborðum og færði honum taflið.

Og er konungur sá það mælti hann: "Þú ert mikill maður fyrir þér Búi," sagði konungur, "hefir þú sannar jartegnir að þú hefir Dofra fundið. Þetta tafl hefir hann aldrei viljað fyrir mér laust láta. En svo gildur sem þú ert þá verðum vér að sjá nokkuð af þínu afli og skaltu fást við blámann vorn."

Búi segir: "Það hugði eg ef eg fengi taflið að þér munduð mig láta fara í friði."

Konungur mælti: "Þetta er lítils vert að taka eitt fang."

Búi segir: "Dýrt er drottins orð. Vil eg það nú skilja til við yður herra ef svo ólíklegt er að eg beri af honum að þér gefið mér upp reiði yðra og gott orlof til Íslands."

Konungur játaði því. Eftir það lagði konungur til hálfs mánaðar stefnu að þetta fang tækist því að hann vildi að sem flestir sæju. En er sú stund var liðin þá lét konungur blása til öllu fólki út á víðan völl. Sem konungur og mikið fjölmenni var þar komið þá bjóst Búi til fangs. Hann fór í skyrtu sína þá er Esja hafði gefið honum og fyrr gátum vér. Síðan steypti hann yfir sig fangastakki þeim er Rauður gaf honum, fór þá til leikmótsins. Konungur lét þá leiða fram blámanninn og héldu á honum fjórir menn. Hann grenjaði fast og lét tröllslega.

Þar var svo háttað að þar var sléttur völlur en þar um utan hæðir miklar. Sat þar á fólkið umhverfis. Á vellinum stóð ein hella mikil og uppþunn niður í völlinn. Það kölluðu þeir fanghellu.

Búi gekk þá fram fyrir konung og mælti: "Hvar er sá maður herra er þér ætlið mér fang við?"

Konungur mælti: "Sjá hvar þeir halda honum fram á völlinn."

Búi mælti: "Ekki sýnist mér það maður. Trölli sýnist mér það líkara."

Konungur mælti: "Vér skulum freista þín skamma stund ef vér sjáum að þú hefir ekki við."

Búi mælti: "Þér munuð ráða vilja."

Eftir það gekk Búi fram á völlinn og er fólkið sá hann þá mæltu margir að það væri illa er trölli skyldi etja upp á jafndrengilegan mann. Þeir létu þá lausan blámanninn. Hljóp hann þá grenjandi að Búa. Og er þeir mættust tókust þeir afar fast og sviptust. Skildi Búi það skjótt að hann var mjög aflvani fyrir þessu kykvendi. Forðaði hann sér þá við föllum en stóð þó fast og fór undan víða um völlinn. Skildi Búi það að hann tók svo að bein hans mundu brotna ef eigi hlífðu honum klæðin. Það skildi Búi að blámaðurinn vildi færa hann að hellunni. En er þeir höfðu að gengist um stund þá mæddist blámaðurinn ákaflega og tók að láta í honum sem þá að lætur í göltum þá er þeir gangast að og á þann hátt felldi hann froðu. Og er Búi fann það lét hann hörfast undan að hellunni. Blámaðurinn herti þá að af nýju og voru ógurleg hans læti að heyra því að hann var drjúgum sprunginn af sókn. En er Búi kom að hellunni svo að hann kenndi hennar með hælunum þá herti blámaðurinn að slíkt er hann mátti. Búi brá þá við er minnst var von og hljóp hann þá öfugur yfir helluna en blámanninum urðu lausar hendurnar og skruppu af fangastakkinum. Búi kippti þá að sér blámanninum slíkt er hann mátt. Hrataði hann þá að hellunni svo að bringspalir hans tóku þar sem hvössust var. Þá hljóp Búi ofan á hann með öllu afli. Gengu þá í sundur bringspelirnir í blámanninum og því næst var hann dauður. Margir töluðu um að þetta væri mikið þrekvirki. Búi gekk þá fyrir Harald konung.

Konungur mælti: "Mikill maður ertu fyrir þér Búi og mun nú skilja með okkur og far nú til áttjarða þinna í friði fyrir oss."

Búi þakkaði það konungi. Fór Búi þá til hafs út og fékk sér fari til Íslands.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Kjalnesinga saga - 15. kafli: 871 orð
Tími : 4 mínútur

Kjalnesinga saga: 11.004 orð
Lesin: 8.336 orð
Tími eftir: 11 mínúta
Hér er lýsing á kortinu...