Kjalnesinga saga - 4. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Búi fór heim og var Esja fóstra hans úti í dyrum og heilsaði vel Búa. Hann tók og vel kveðju hennar.

Esja mælti: "Þóttist þú nú ekki liðfár vera um hríð?"

Búi mælti: "Eigi þurfti nú fleiri."

Esja mælti: "Eigi varstu nú einn í bragði með öllu."

Búi mælti: "Gott þykir mér góðs að njóta."

Esja mælti: "Mun þér ekki enn leiðast eltingar Þorsteins?"

"Þá vissi það," sagði Búi, "ef eg ætti nokkurs trausts von."

Esja mælti: "Til margs verður hætt jafnan."

Eftir það skildu þau talið.

Nú líður á til vetrar. Þá fer Búi einn aftan seint út í Brautarholt og var þar um nóttina. Um morguninn fyrir dag var hann á fótum. Sneri hann þá austur á holtið þar er hann sá gjörla til bæjarins að Hofi. Veður var heiðríkt og bjart. Hann sá að maður kom út snemma að Hofi í línklæðum. Sá sneri ofan af hliðinu og gekk stræti það er lá til hofsins. Kenna þóttist Búi að þar var Þorsteinn. Búi sneri þá til hofsins og er hann kom þar sá hann að garðurinn var ólæstur og svo hofið. Búi gekk þá inn í hofið. Hann sá að Þorsteinn lá á grúfu fyrir Þór. Búi fór þá hljóðlega þar til er hann kom að Þorsteini. Hann greip þá til Þorsteins með því móti að hann tók annarri hendi undir knésbætur honum en annarri undir herðar honum. Með þeim hætti brá hann Þorsteini á loft og keyrði höfuð hans niður við stein svo fast að heilinn hraut um gólfið. Var hann þegar dauður. Búi bar hann þá út úr hofinu og kastaði honum undir garðinn. Síðan sneri hann inn aftur í hofið. Hann tók þá eldinn þann hinn vígða og tendraði. Síðan bar hann login um hofið og brá í tjöldin. Las þar brátt hvað af öðru. Logaði nú hofið innan á lítilli stundu. Búi sneri þá út og læsti bæði hofinu og garðinum og fleygði lyklunum í logann. Eftir það gekk Búi leið sína.

Þorgrímur goði vaknaði um morguninn og sá út. Hann gat að líta logann til hofsins. Hét hann á menn sína, bæði konur og karla, að hlaupa til með vatnkeröld og hjálpa við hofinu. Hann kallar og á Þorstein son sinn og fannst hann hvergi. En er þeir komu til garðshliðsins var þar ekki greiðfært því að hliðið var læst en þeir fundu hvergi lyklana. Urðu þeir að brjóta upp hliðið því að garðurinn var svo hár að hvergi mátti að komast. Brutu þeir þá upp hliðið. Og er þeir komu inn um hliðið og í garðinn sáu þeir hvar Þorsteinn lá dauður. Hofið var og læst og mátti því öngu bjarga er inni var. Voru þá gervir til krakar og varð dregið í sundur hofið og náðist við það nokkuð af viðinum.

Nú er að segja frá Búa að hann kom á þann bæ er heitir í Hólum. Lýsti hann þar vígi Þorsteins sér á hönd, gekk eftir það heim. Var Esja fyrir vestan garð og heilsaði Búa. Hann tók vel kveðju hennar.

Hún mælti: "Hefir þú nokkuð eltur verið í morgun af Þorsteini eða hefir nokkuð nú tekið brýningunni?"

Búi kveðst nú ekki þræta að þeim Hofverjum þætti í orðið nokkuð svarf.

Esja mælti: "Hefir þú nokkuð lýst víginu?"

Hann kveðst það gert hafa.

Esja mælti: "Ekki hefi eg til þess traust að halda þig fylgsnislaust fyrir Þorgrími því að eg veit að hann kemur hér í dag.

Búi mælti: "Muntu nú eigi sjá fyrir sem þér líkar?"

Sneru þau þá fyrir ofan garð með fjallinu og þar yfir ána og síðan gengu þau einstigi upp í fjallið og til gnípu þeirrar er heitir Laugargnípa. Þar varð fyrir þeim hellir fagur. Var það gott herbergi. Þar var undir niðri fögur jarðlaug. Í hellinum voru vistir og drykkur og klæði.

Þá mælti Esja: "Hér muntu nú fyrst verða að byggja."

Búi kvað svo vera skulu. Esja sneri þá heim og þegar hún kom heim lét hún gera elda í húsunum af vatntorfi því er sviðnaði en yrði sem mestur reykur eða remma.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Kjalnesinga saga - 4. kafli: 671 orð
Tími : 3 mínútur

Kjalnesinga saga: 11.004 orð
Lesin: 1.913 orð
Tími eftir: 37 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...