Laxdæla Saga - 10. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Hrappur hét maður er bjó í Laxárdal fyrir norðan ána, gegnt Höskuldsstöðum. Sá bær hét síðan á Hrappsstöðum. Þar er nú auðn. Hrappur var Sumarliðason og kallaður Víga-Hrappur. Hann var skoskur að föðurætt en móðurkyn hans var allt í Suðureyjum og þar var hann fæðingi. Mikill maður var hann og sterkur. Ekki vildi hann láta sinn hlut þó að manna munur væri nokkur. Og fyrir það er hann var ódæll sem ritað var en vildi ekki bæta það er hann misgerði þá flýði hann vestan um haf og keypti sér þá jörð er hann bjó á. Kona hans hét Vigdís og var Hallsteinsdóttir. Son þeirra hét Sumarliði. Bróðir hennar hét Þorsteinn surtur er þá bjó í Þórsnesi, sem fyrr var ritað. Var þar Sumarliði að fóstri og var hinn efnilegsti maður.

Þorsteinn hafði verið kvongaður. Kona hans var þá önduð. Dætur átti hann tvær. Hét önnur Guðríður en önnur Ósk. Þorkell trefill átti Guðríði er bjó í Svignaskarði. Hann var höfðingi mikill og vitringur. Hann var Rauða-Bjarnarson. En Ósk dóttir Þorsteins var gefin breiðfirskum manni. Sá hét Þórarinn. Hann var hraustur og vinsæll og var með Þorsteini mági sínum því að Þorsteinn var þá hniginn og þurfti umsýslu þeirra mjög.

Hrappur var flestum mönnum ekki skapfelldur. Var hann ágangssamur við nábúa sína. Veik hann á það stundum fyrir þeim að þeim mundi þungbýlt verða í nánd honum ef þeir héldu nokkurn annan fyrir betra mann en hann. En bændur allir tóku eitt ráð, að þeir fóru til Höskulds og sögðu honum sín vandræði. Höskuldur bað sér segja ef Hrappur gerir þeim nokkuð mein "því að hvorki skal hann ræna mig mönnum né fé."
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 10. kafli: 273 orð
Tími : 2 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 3.466 orð
Tími eftir: 237 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...